top of page
Search

Ég er ekki móðursjúk, geðveik eða þunglynd - Ég er þolandi umhverfisáreitis

Reynslusaga Hörpu Fannar Sigurjónsdóttur sem á langri og strangri göngu með umhverfisáreiti hefur uppgötvað margt um sína heilsu og fjölskyldunnar.


Myndin er fengin úr myndabanka og tengist frásögninni ekki beint.


Þegar ég var 8 ára fluttum við til USA í árslangt mastersnám hjá pabba. Nokkrum mánuðum eftir komu okkar þangað fékk ég heiftarlegt mígreniskast.


Kastið entist í nokkra daga, og lá ég hálfmeðvitundarlaus upp í rúmi af verkjum, á milli þess sem ég kastaði upp. Foreldrar mínir voru mjög áhyggjufull og við fórum til nokkurra lækna í USA. Fljótlega fékk ég “greininguna” að ég væri með barnamígreni, og fékk ég sterkari verkjalyf. Þegar greiningin kom hafði ég fengið nokkur köst, en vorið nálgaðist óðfluga og við vorum á leið heim. Pabbi minn var einnig farinn að sýna sterk ofnæmisviðbrögð við frjókornum. Við flýttum því för heim um nokkrar vikur. Þegar þangað var komið skánuðu köstin eitthvað smávegis, en eftir að ég byrjaði á blæðingum versnuðu köstin aftur, sem og verkirnir tengdir tíðum urðu einnig mjög slæmir, og þeir runnu oft saman við “mígrenis”kast.


Síðan eru liðin 30 ár og alla tíð síðan hef ég verið að læra á kerfin mín í líkamanum, og fundið út smátt og smátt hvað veldur mígrenisköstum og hvað veldur verri tíðarverkjum, og nú í seinni tíð hvað veldur verkjum hjá mér og ofvirkni í skrokknum og stoðkerfi, taugakerfi, ofnæmiskerfi, kvíðaeinkennnum, og ýmsum verkjaköstum almennt.


Margar “vörður” hafa legið á leið minni í þeim efnum. Fyrsta varðan sem ég man eftir var líklega á unglingsárunum. Fljótlega eftir að ég byrjaði að neyta áfengis fann ég að ákveðnar bjórtegundir „triggeruðu” einkenni svipuð mígreni, en þó ekki alveg eins. Eins fann ég fljótt að ákveðinn matur gerði slíkt hið sama. Hið sama var að segja um mikla mannmergð, ljós, lyktir og annað áreiti. Köstin minnkuðu mikið yfir árin og nánast hurfu alveg. Eins fór ég á getnaðarvarnarsprautuna og fór því ekki á blæðingar og því voru þessir heiftarlegu túrverkir úr sögunni. Þannig, og sem betur fer, fór ég næstum verkjalaus í gegnum árin eftir menntaskóla og náði ágætum lífsgæðum.


Margir hafa eflaust svipaða sögu að segja um barnamígreni. Að sjálfsögðu, og ég veit það í dag, eru stór faktor þær hormónabreytingarnar sem stelpur viðgangast akkúrat um 8 ár aldurinn, og svo aftur í kringum það þegar tíðir hefjast, og svo aftur í kringum það þegar líkaminn kveikir á frjóseminni, og svo væntanlega aftur í kringum breytingarskeiðið. En það er einungis einn faktor, af svo ótrúlega mörgum. Jú, vissulega þegar hormónaröskun (og breyting) á sér stað verður maður eflaust viðkvæmari og útsettari fyrir öðru áreiti. En mig grunar að umhverfi mitt hafi þarna haft enn stærri áhrif. Ég er viss um það í dag að samverkandi áhrif þess að vera í eiturumhverfi, að ganga í gegnum þessar hormónabreytingar, sem og erfðir auðvitað, hafi haft óafturkræf áhrif á kerfin mín, líkama og lífsgæði. Á þessum tíma (í USA) er ég næstum 100% viss um að við höfum búið við myglu. Enn fremur var mikil skordýraeitrun sem átti sér stað í hverfinu okkar, og ég man einnig eftir því í óljósri minningu að rafmagnið í húsinu okkar var hverfult og sló út við minnsta áreiti. Svo eru eflaust enn fleiri þættir sem hafa haft þarna áhrif - Honey nut Cheeriosið sem ég borðaði á hverjum morgni (sem og gerviefni í öðrum mat sem ég man ekki eftir). Gerviefnin í fötunum sem voru keypt í ódýrum verslunarmiðstöðum. Efnin úr gólfteppunum sem voru í hverju herbergi.


Mengunin. Í raun bara hlutir sem fylgja æsku nánast allra. Munurinn var sá að efnasúpan varð of mikil, ofan á hormónaraskið mitt og mígrenið, að líkaminn hefur einfaldlega farið í einhvern lás síðan.

Síðan þá hefur mygla fylgt flestum íverustöðum mínum, eins og á við um nánast alla aðra Íslendinga. Ég er núna í myglulausri nýbyggingu (vonandi), og hef því getað einbeitt mér að öðrum umhverfisþáttum síðustu ár. Það hefur verið mjög áhugavert að skoða alla þessa samverkandi þætti, og sérstaklega eftir að ég fór að finna fyrir því að frjósemiskerfið mitt var búið að kikka í gang (kling í eggjastokkunum, eins og það er víst kallað 😉 ). Eftir það fór ég aftur í verkjadýfu og tók nokkur umhverfisköst, en gat þá byrjað aftur að gera tilraunir á sjálfri mér - sérstaklega á meðan við maðurinn minn vorum aktívt að reyna, sem og á meðgöngunni og í brjóstagjöfinni.


Það hefur valdið mér enn meiri krafti í baráttunni fyrir bættum lífsgæðum fyrir umhverfisnæma að sjá muninn á börnunum mínum tveimur, sem eru þriggja ára og 3 mánaða. Það er gríðarlegur munur á svefn þeirra og rútínu, gleði og öryggi, eftir því sem maður passar loftgæði, mat, gerviefni og annað. Í dag höfum við passað að börnin okkar fái bara 100% náttúrulegan mat, við maukuðum allt ofan í eldri strákinn og hann var á brjóstamjölk og í taubleium, sem og svaf einungis í náttúrulegri svefnvöru og er í náttúrulegum fötum eingöngu. Yngra barnið þurfti ég því miður að taka af brjósti og er hún á 100% ógerilsneyddri geitamjólk, sem og þurrgeitamjólk. Þá hef ég sett meiri áhersla á aðra þætti til að jafna út toxininntökuna. Ég sá þó um daginn þegar yngra barnið fór í bólusetningu að hún var mun viðkvæmari og lengur að losna við eitrin út bólusetningunni en eldra barnið mitt. Sem betur fer átti ég enn brjóstamjólk frá mér í frystinum, sem við sturtuðum í hana, og hún jafnaði sig aftur fljótt. Ég kvíði fyrir næstu bólusetningu, enda brjóstamjólkin mín nú búin, en ennþá er langt í hana og vonandi finnum við lausn.

Í þessari löngu sögu minni við umhverfisáreiti hef ég komist að mörgu með mína heilsu, og fjölskyldu minnar. Að sjálfsögðu erum við mannfólkið með næstum því fullkominn líkama og kerfi, og ættum í raun að vinna í jafnvægi við náttúruna og öll þau efni sem hún gefur af sér (aðrar lífverur, örverur, sveppi, rafsegulsvið, efni ofl). Við ættum einnig að þola áföll, röskun á kerfum og annað hormónarask og áreiti sem verður til inn í okkur sjálfum, amk upp að vissu marki.


Í góðu jafnvægi af náttúrulegum lífsstíl, (eitur)efnum og aðstæðum, á líkaminn auðvitað sjálfur að geta hreinsað sig. Slík hreinsun er meira að segja holl fyrir líkamann, en sum kerfi líkamans mynda önnur lífsnauðsynleg efni við hreinsunina. Mannsathafnir í dag og nútímalífstíll eru þó þess legar að það er bara orðið allt of mikið af því “góða”.


Líkaminn er stanslaust að erfiða, að reyna að losa sig við áreiti. Þessi endalausa áreynsla líkamans við að reyna að lækna sig hefur auðvitað áhrif á getu annarra kerfa, og getur haft langtimaáhrif á heilsu, jafnvel óafturkræf, og jafnvel skemmt sum af kerfunum okkar. Í kjölfarið myndast „krónískar” bólgur vegna álagsins, heilaþoka, slen, síþreyta, gigtir og verkir. Og jafnvel mun alvarlegri kvillar og sjúkdómar geta þróast vegna þessa í kjölfarið.

Líkaminn minn er kominn þangað, því miður. Hann ræður bara ekki við þetta allt saman. Allt of mikil mengun, allt of mikið af eiturefnum og öðrum efnum, næringarsnauður matur (þar sem jarðvegurinn er orðinn rýrari), fullur af E-efnum, allt of mikið ragmagn, allt og mikið af gerviefnum í húsgögnum og byggingum, plasti, málmum og öðru, of miklar samfélagslegar kröfur og áföll, myglusveppur í nánast öllum húsum sem maður heimsækir, vinnur eða dvelur í. Það er mér orðið afskaplega erfitt að ráða við þetta allt saman, og mælirinn fyllist smátt og smátt, og svo kemur einn dropi sem lætur hann fyllast alveg og ég fæ „kast".


Litlir hlutir hafa fyrir mér skipt gríðarlegu máli. Sérstaklega því meira sem maður hreinsar sig, því meira virðist vera loksins “pláss” fyrir líkamann minn til að mótmæla þessu “litla” áreiti. Áreiti sem hefur verið til staðar í umhverfinu mínu en ég kannski orðin samdauna. Á meðan líkaminn er að erfiða endalaust og á bakvið tjöldin að reyna að losa það út, getur slíkt bitnað á öðru. Td fann ég mikinn kláða á líkamanum á fyrri meðgöngu. Ég gúgglaði það og sá að þetta var bara “venjulegur” fylgikvilli meðgöngu, og ekkert við því að gera í sjálfu sér. Ég breytti þó öllum þeim fötum sem voru næst mér úr bómul yfir í organic bómul og kláðinn hvarf yfir nóttu. Hið sama má segja um svefnvöru, en munurinn við að sofa á náttúrulegri svefnvöru er gríðarlegur. Hið sama má segja um WIFI í íbúðinni minni. Stundum þegar áreiti eða álag er búið að vera mikið yfir daginn, td vinnan krefjandi osfrv., þá leggst ég upp í rúm og líður eins og það sé lítill hvirfilvindur inn í mér (slík er oftast byrjunin á að maður hafi farið aðeins yfir strikið í áreiti). Ég fer yfir allt í huganum á mér, fer jafnvel aftur í sturtu (ég er löngu hætt að taka sturtu á morgnanna, tek alltaf sturtu núna áður en ég fer að sofa, eftir daginn, til að „hreinsa” af mér eitur sem hefur fests í fötum, hári og húð) en fatta svo að ég hafi óvart kveikt á wifi-inu (annars er ég með það í snúru, bæði í sjónvarpið og tölvuna). Og viti menn, nokkru eftir að ég slekk þá hverfa einkenninn. Hið sama hefur margoft gerst með ný krem sem ég prófa, eða sjampó eða næringu. Þá þarf ég að fara í sturtu aftur og þvo þau vel af mér til að einkennin dvíni. Stundum er það þó of seint, og ekki nóg, þar sem húðin er okkar stærsta líffæri, og mikil inntaka toxina á sér stað í gegnum húðina. Í dag er ég hætt að gera tilraunir með krem og snyrtiefni, enda margir þúsund kallar farnir í ruslið þar, og nota bara alger lágmarksefni. Ég hef þolað og nota lyktarlausa kókosolíu, edik og matarsóda, neutral sjampó við og við, náttúrulegt tannkrem og bare minerals púðrir og burt´s bees varasalvann.


Ég hef einnig komist að því að hugarfar skiptir alveg gríðarlega miklu máli. Sú gamla tugga um jákvætt hugarfar og jákvæða orku svínvirkar. Það er bara svo, þó ég hafi verið manna skeptískust á það. Ég hef þurft að vinna í mér mikið til að reyna að breyta hugarfarinu, og áföll hafa haft þar mikið að segja sem hafa oft sett mig algerlega á byrjunarreit í þeim efnum. Það tæki heila aðra reynslusögu að tengja saman áföll og vangetu líkamans til að starfa rétt í kjölfar þeirra, en ég ætla að sleppa því að fara e-ð meira í þá sálma hér. Eina sem ég vil um þetta segja er að það er hægt að “plata” heilann til að gera ýmislegt, og fá hann til að láta af því að sleppa ákveðnum hormónum eða rauðum flöggum út í blóðrásina. Eins er hægt að reyna að temja sér að komast hjá því að fara reglulega í og vera fastur í „fight or flight mode".


Taugakerfið okkar og heilastöðin eru dýrmæt tól fyrir okkur umhverfisveiku, og ég hef alltaf reynt eins og ég get að bæði þjálfa þær stöðvar og hvíla.

Það er samt ekki nema von að maður sé orðinn frekar neikvæður og vonlítill eftir þessa verkjasögu, og þá kannski einna helst vegna skilningsleysis annarra og bagalegs viðmóts heilbrigðiskerfisins (og hjálparleysis þar). Það myndi taka mig aðra svona reynslusögu til að lýsa öllum samskiptum mínum við heilbrigðiskerfið, því miður. Eins og það er dásamlegt fólk þar og vill vel. Læknavísindin eru bara því miður svo anatómískt ennþá, og allt snýst um afleiðingar og sjúkdómsgreiningar. Fáir læknar eru að spá í orsökum eða heildrænum áhrifum, áreiti, áföllum eða öðru. Sem betur fer sýnist mér þetta ætla að breytast með tilkomu Corona veirunnar, en þeir sjúklingar sem fá þá veirusýkingu virðast fá svipaðan trigger og við, sumir jafnvel alveg upp í Cytokine storm, og eru að finna fyrir kvillum og lífsgæðabreytingum á svipaðan hátt og við í kjölfarið. Maður vonar að þessu beinu orsakatengsl verði hægt að rannasaka frekar, og það muni gagnast okkur hinum í leiðinni...

En ofan á þetta allt þá hef ég verið umkringd dásamlega skilningsríkri fjölskyldu, og umfram allt maka og vinum, sem eru flest öll 100% skilningsrík á líðan mína og eru flest öll löngu hætt að nota ilmvötn og ariel. Þar er ég heppin, en því miður hafa ekki allir samfylgdarmenn verið jafn skilningsríkir, og verður að segjast að þar hafa samskiptin næstum hætt alveg. Að auki hef ég verið mjög heppin í vinnu og starfi. Ég vinn 50% fyrir vinnuveitanda sem er mjög skilningsríkur á aðstæður mínar, sem og svo vinn ég 50% sjálfstætt, og get þá auðvitað ráðið sjálf mínu umhverfi og áreiti og álagi.


Ég hef komist að því að það er betra fyrir mína heilsu að taka tímabil til að “detoxa” alveg. Og byggja svo upp þol. Yfirleitt hef ég þurft að detoxa alveg eftir slæm áreitisköst, en mér hefur þó fundist betra að reyna að vinna fyrirbyggjandi, upp að vissu marki amk. Þannig passa ég upp á mig smátt og smátt daglega, tek bætiefni, geri jóga eða aðra hreyfingu, hugleiði daglega og passa matinn. Mér hefur samt sem áður fundist mikilvægt að sleppa ekki öllu áreiti úr mínu lífi, og reyna þannig að byggja upp smá þol við og við. Mér hefur reynst best að taka inn “smáskammta” af áreiti og leyfa svo líkamanum mínum og hug að vinna á þeim skömmtum.


Næst þegar ég fer í sama áreiti kikkar líkaminn oft fyrr inn og vinnur sjálfur og hraðar úr áreitinu. Ég líki þessu oft við kraftlyftingarmanninn eða íþróttamanninn, sem þarf endalaust að reyna á kerfin sín (vöðva og bein t.d), til að halda sér við. Og hvílir svo vel inn á milli.

Í dag lifi ég í myglufrírri nýbyggingu (byggða 2014), klæði mig einungis bómullarfötum (helst organic) eða úr öðrum náttúrulegum efnum, sef í og á náttúrulegri svefnvöru, er með fá rafmagnstæki og húsgögn, er með netið í snúru, nota fjölnota 100% bómullarklúta, nota einungis umhverfisvæn hreinsiefni (eða bara edik og matarsóda), er með sárafáa hluti úr plasti, reyni eins og ég get að kaupa umbúðarlaust, ef ég kaupi í umbúðum reyni ég að setja það yfir í glerkrukkur sem fyrst, reyni að forðast E-efni, nota ekki snyrtivörur nema bara algert lágmark, nota bara umhverfisvæn þvottaefni og lyktarlaus, hugleiði daglega, stunda e-a hreyfingu daglega, neyti fæðubótarefna og fer til nuddara/grasalæknis/heilara/homopatha reglulega, lita ekki á mér hárið, né er með naglalakk, ég nota nánast aldrei bíl, ferðast lítið erlendis… og svona mætti eflaust lengi telja. Að auki keypti ég mér ósnortið land árið 2014, sem var með takmarkað símasamband og ekkert net - amk þá - en er núna komið með símasamband og 4g. Þar ætla ég í framtíðinni að reisa mér athvarf. Það merkilega við að gista í tjaldi á jörðinni minni er að það er sama hversu mikil mygla eða annað áreiti er í kringum mig þar, ég finn allt öðruvísi fyrir því og vinn allt öðruvísu út úr því, en hér í bænum.

Af þessari reynslusögu sjáið þið að það er GRÍÐARLEGA mikil vinna sem fylgir því að reyna að eiga ásættanleg lífsgæði. Sem og kostnaður! Lífsgæðin verða samt aldrei 100%, því miður, og er hamingjustuðullinn eftir því. Fólk sem er sífellt verkjað á erfiðara með því að finna viðvarandi hamingju, þannig er það því miður. Ég vil með þessari reynslusögu minni, og öllu því sem ég hef fundið út í kringum veikindi mín, deila þeirri reynslu sem felst í því að vera sífellt veikur, fá allar kvefpestir, vera með slen, heilaþoku, verki osfrv. Það er ekki það líf sem maður helst kýs sér, og það er alveg gríðarlega kostnaðarsamt og erfitt að halda sér á floti, ef svo má segja. Eins hef ég þurft að minnka starfshlutfall mitt reglulega, og starfsgeta mín hefur orðið skert.


Að sama skapi getur þetta ástand verið félagslega erfitt, og einmanaleikinn og einangrunin sem því fylgir stundum verri en sjálf einkennin. Hins vegar vil ég einnig deila þessari reynslusögu minni með þeirri hvatning sem í henni leynist. Ég hef ALDREI gefist upp fyrir verkjunum.

Ég hef aldrei farið á lyf við afleiðingum næmni minnar og brotinna kerfa, né hef ég sætt mig við mun skertari lífsgæði. Jú, vissulega eru lífsgæði mín í dag eitthvað skertari en áður, en jákvæðnin og þakklætið er samt mun meiri og ég næ samt sem áður að lifa næstum eðlilegu lífi. Flestir sem hitta mig í dag vita ekki af baráttu minni síðustu árin, eða af veikindum mínum.


Baráttu minni við mín veikindi er þó alls ekki lokið, síður en svo. Eftir að ég eignaðist börnin mín finn ég mikla þörf til að reyna að bæta umhverfið mitt til muna. Við mannfókið erum einfaldlega að ganga of nærri því, og þar með okkur - enda erum við hluti af náttúrunni. Hvort sem umhverfisbreytingar eru “manngerðar” eða náttúrulegar (en eins og ég segi - við erum náttúran hvort eð er), þá breytir það ekki þeirri staðreynd að minnkandi súrefnismagn í andrúmsloftinu, meiri efni, meiri mengun, mengaðra vatn, hærra rafsegulsvið og lakari næring úr matvælum mun hafa áhrif á lífsgæði mín. Og sérstaklega barnanna minna. Ef það er eitthvað sem ég get gert til að draga úr þessum áhrifum geri ég það. Ég er þó aðeins peð í þessari baráttu…En peð eru þó fremst í víglínunni og verða fyrst vör við átökin.


Mín æðsta ósk er að allt samfélagið vakni til lífsins og setji þessum málum farveg og forgang, og hlusti á okkur sem þjáumst vegna umhverfisins.

Mín von er að það verði samfélagsleg vitundarvakning um þessi mál, að umhverfismál verði sett í algeran forgang, að stjórnvöld fari að beita sér vegna verktaka sem byggja of illa, að eftirlit verði með myglu í húsnæði, bæði við leigu og við kaup, að fólki verði bætt það tjón sem verður vegna myglu og fái ráðgjöf við að útrýma henni, að heilbriðgiskerfið hlúi að okkur og að eftirfylgnin verði mannsæmandi, að fleiri úrræði verði í boði á sama kostnaði, eða svipuðum og heilbrigðiskerfið, t.d grasalækningar, næringarfræðsla, hreyfingarúrræði, homopathar og annað, að fólk hætti að nota ilmvötn eða þvottaefni með lykt, rafsegulmengun verði minnkuð, stóriðja minnkuð sem of rafmagnsnotkun, bílaumferð minnki sem og utanlandsferðir. Þetta er alls ekki tæmandi listi, en ég get þó lofað ykkur því að þetta verður ekki í síðasta sinn sem þið heyrið frá mér 😉


Ég er ekki móðursjúk. Ég er ekki geðveik eða þunglynd (eða amk ekki í skilningi læknavísindanna, þó vissulega geti fylgt verkjaköstum og skertum lífsgæðum mikil depurð).


Ég er ekki með samsæriskenningar.

Ég er þolandi umhverfisáreitis.


Ást og kærleikur.

Og baráttukveðjur fyrir bættri heilsu.

Comentários


bottom of page