top of page
Search

Þrír fjölskyldumeðlimir af fimm fundu fyrir miklum einkennum

Reynslusaga Stellu Maris Þorsteinsdóttur sem flúði með fjölskyldu sína þremur árum eftir að lagnir í veggjum í íbúð fyrir ofan hana gáfu sig.


Myndin er fengin úr myndabanka og tengist frásögninni ekki beint.


Ég bjó í húsnæði í níu ár þar sem var líklega búið að vera rakavandamál lengi.


Eftir á sá ég að ég og börnin mín vorum með mörg einkenni myglusvepps án þess að gera okkur grein fyrir því. Þremur árum áður en ég þurfti að flýja út úr íbúðinni þá fóru lagnir í veggjum í íbúð fyrir ofan okkar. Það þurfti því að opna stórt gat í vegginn hjá mér til að laga lekann en við það byrjuðu veikindin hjá mér og tveimur börnum mínum fyrir alvöru.


Við vorum fimm í fjölskyldu og voru þrír fjölskylumeðlimir sem fundu fyrir miklum einkennum.


Elsti strákurinn minn byrjaði að fá mikið exem og útbrot. Hann var flakandi sár og það voru sýkingar í sárunum. Yngsti strákurinn minn fæddist þegar við bjuggum í þessu húsnæði og var hann fyrstu þrjú ár ævi sinnar í mygluhúsnæði. Hann var alltaf veikur, stíflaðar ennis- og kinnholur, stífluð eyru og fór hann tvisvar sinnum í svæfingu til að láta hreinsa út úr eyrum og til að taka úr honum nefkirtla. Hann fékk hita oft þegar hann var að sofna á kvöldin og svaf hann ekki heila nótt í þessi þrjú ár. Á nóttunni vaknaði hann oft upp öskrandi og grátandi eins og hann væri með svakalegar martraðir og ég þurfti mjög oft að fara með hann fram og ganga með hann um gólf.


Ég var með stöðug öndunarfærakvef, stöðugan hósta og var oft að fá berkjubólgu og lungnabólgu. Ég var líka með stöðug meltingarvandamál og hef fengið IBS, bakflæði og þindarslits greiningu eftir mín veikindi.


Árið 2016 þurfti ég og mín fjölskylda að flýja út úr húsnæðinu vegna stöðugra mikilla veikinda hjá 3 fjölskyldumeðlimum.


Fyrstu nóttina í annarri íbúð þá svaf yngsti strákurinn minn í fyrsta skipti heila nótt, án þess að rumska, síðan hann fæddist. Á fyrstu vikunum í annarri íbúð þá hurfu sárin og exemið af elsta stráknum mínum sem var búinn að glíma við það í mörg ár. Ég var með lungnabólgu og mikinn vökvaskort þegar við fluttum úr íbúðinni og það tók mig nokkrar vikur að jafna mig á því en það tók mig tvö ár að komast alveg yfir mín veikindi.

Árið 2019 skipti ég um vinnu og fór að vinna í bráðabirgðahúsnæði (gámahúsnæði). Þá byrjuðu smátt og smátt mín veikindi aftur og ég fann fyrir mörgum sömu einkennum. Ég fann fyrst fyrir mikilli þreytu, áhugaleysi og depurð. Síðan fór ég að finna fyrir meltingarerfiðleikum og ég var alltaf eins og ég væri með beinverki eða liðverki og alltaf eins og ég væri að verða veik. Ég var mikið með höfuðverk og þyngsli yfir höfðinu og stífluð í ennis- og kinnholum.


Síðan fór ég að fá í öndunarfærin og var með stöðugan hósta sem fór ekki og ég hóstaði í marga mánuði. Ég fór að vera með til skiptis sýkingar í hálskirtlum, lungum og höfði sem endaði með því að ég þurfti að fara í langtímaveikindaleyfi frá vinnu. Það komu einu sinni menn með rakamæla og mældu vinnustaðinn en þar sem ekkert fannst fékk ég ekki mikinn skilning á mínum veikindum. Ég var líka eina manneskjan sem fann fyrir þessu á vinnustaðnum.


Ég fann líka hvað ég varð alltaf betri þegar ég fór í helgarfrí, sumarfrí og jólafrí. Núna er að verða ár síðan ég fór í veikindaleyfi og ég hef verið að byggja upp mína heilsu jafnt og þétt en það þarf ekki mikið til til að ég finni fyrir einkennum. Ég er líka orðin mjög viðkvæm fyrir efnum eins og þvottaefni, snyrtivörum og ilmefnum. Ég er líka komin með viðkvæmni fyrir dýrahárum og ýmsum gerviefnum í fatnaði og púðum. Ég hef einnig þróað með mér, eftir þessi veikindi kvíða og félagsfælni og ég get ekki farið hvert sem er nema ganga úr skugga um að engin raki eða mygla sé til staðar.


コメント


bottom of page