Nafnlaus reynslusaga þolanda sem upplifði að vinnuveitendur legðu enga trú á að veikindin mætti rekja til myglu eða rakaskemmda á vinnustaðnum og væru ekki tilbúnir að finna tímabundnar lausnir varðandi annað vinnuumhverfi á meðan beðið var viðgerða.
Myndin er fengin úr myndabanka og tengist frásögninni ekki beint.
Hér er saga mín varðandi mygluveikindi á vinnustað. Hef ekki komist til starfa aftur á minn vinnustað í heilt ár. Ég óska eftir að reynslusaga mín verði höfð nafnlaus.
Ég hef ávallt verið heilsuhraust og stundað mína vinnu vel. Fyrir 4 árum síðan fór ég að finna fyrir miklum höfuðverkjum á vinnustaðnum mínum, á þessum tíma var verið að rífa niður veggi og breyta á vinnustaðnum. Ég fór í myndatökur og kostnaðarmiklar rannsóknir vegna höfuðverkjanna sem voru svo slæmir að ég var farin að halda að ég væri komin með heilaæxli. Höfuðverkjunum fylgdu æði oft mikil uppköst. Eftir vinnuvikurnar fóru helgarnar í að reyna að jafna mig. Í myndatökum fannst ekkert sem benti til heilaæxlis. Ég var greind með mígreni eða það var ágiskun lækna.
Á þessum tíma fóru veikindi mín að ágerast með höfuðverkjum bættist við stöðug flensueinkenni með háum hita sem endaði oftar en ekki með lungnabólgu. Ég fór einnig að finna fyrir hjartsláttartruflunum, sjóntruflunum, eyrnabólgum og fl. Ég var frá vinnu þegar ég fékk háan hita og var mjög veik en annars mætti ég alltaf til minna starfa. Það er nú einu sinni svo, að maður vill alltaf standa sig í vinnu.
Fyrir 2 árum fór svo að bera á ofsa blæðingum hjá mér mánaðarlega sem urðu til þess að ég varð að fara í legnám sem kostaði auðvitað vinnutap í 6 vikur eftir aðgerð. Veikindi mín blossuðu aftur upp fljótlega eftir að ég mætti aftur til starfa og löguðust ekki og ég fór að fá mikinn bjúg, stöðugan höfuðverk, kvíðaverki, liðverki, uppköst flesta daga, flensu í tíma og ótíma, ásamt blóðnösum sem ég hafði bara aldrei fengið yfir ævina, hvorki sem barn eða fullorðin og á þeim tímapunkti var ég orðin frekar hrædd. Ég fór í fleiri rannsóknir, m.a. hjá lungnasérfræðingi þar sem ég var farin að eiga í erfiðleikum með öndun á vinnustaðnum, en ekkert fannst sem benti til lungnakrabbameins, sem ég var farin að hafa áhyggjur af.
Á þessum tímapunkti var ég farin að gruna að þessi veikindi tengdust vinnustaðnum mínum þar sem heilsa mín varð betri þegar ég var heima um helgar og í sumarfríum. Ég bað yfirmann minn um að láta Eflu eða einhverja viðurkennda aðila taka sýni á vinnustaðnum varðandi myglu en hann taldi mig bara vera að drepast úr streitu út af vinnuálagi. Hann samþykkti þó að ganga í málið í júní 2019.
Það var samt ekki gert fyrr en ég varð að fara í veikindaleyfi í byrjun september 2019 eftir að ég hafði sjálf samband við sveitarstjórann í mínum heimabæ. Hann fór þá í að fá Eflu til að skoða ákveðna hluta hússins. Heimilislæknir minn sagði mér að fara alls ekki inn á minn vinnustað fyrr en niðurstöður varðandi mygluna lægju fyrir, þar sem sjúkrasaga mín staðfesti svo sannarlega grun minn varðandi mygluveikindi þó að erfitt væri kannski að sanna það.
Ég tók svo þátt í mikilli heilsurannsókn hjá Íslenskri erfðagreiningu og í lok rannsóknar sagði læknir mér að niðurstöður rannsókna bentu til að ég hefði orðið fyrir heilsuskaða vegna myglu og að ég ætti að panta mér tíma hjá mínum heimilislækni þar sem ég væri líka með vanvirkan skjaldkirtil, þar sem mygluofnæmi hefði m.a. mjög neikvæð áhrif á alla hormónastarfsemi líkamans. (Skýrir líka þær miklu mánaðarlegu blæðingar sem háðu mér á vinnustaðnum) og lungnastarfsemi væri slök sem hafði m.a. komið fram í fráblástursmælingum. Þessi læknir sagði mér að ef aðrir legðu ekki trú á þessa niðurstöðu mættu viðkomandi hafa samband við sig.
Ég fékk síðan afhenta skilaskýrslu varðandi mygluathugunina 4 mánuðum eftir að ég fór í veikindaleyfi sem sýndu miklar rakaskemmdir/myglu í kjallara hússins og myglu undir gólfi í skrifstofuhluta við hliðina á minni og á fleiri stöðum í húsinu.
Í skýrslu kom jafnframt fram að ekki hafi verið skoðað allt húsnæðið, heldur aðeins valin svæði. Sveitarstjórinn sagði við mig að þetta myglumagn væri samt ekki það alvarlegt að það ætti að hafa einhver áhrif á heilsufar fólks á vinnustaðnum? Ég var ekki sannfærð um að það væri rétt.
Ég var síðan boðuð í starfsmannaviðtal til yfirmanns í lok janúar 2020 þar hann vildi vita hvernig heilsa mín væri og ég sagði skilmerkilega frá niðurstöðu heilsurannsóknarinnar og fl. Yfirmaður fór yfir hvað yrði lagað á vinnustaðnum og tiltók að viðgerðum yrði líklega lokið í febrúar eða mars 2020. Ég hafði áhyggjur af veikindarétti mínum en yfirmaður sagði að ég ætti fullan veikindarétt eða 360 daga, enda búin að starfa mörg árin á mínum vinnustað. Ég lagði til í þessu viðtali að yfirmaður reyndi að finna mér aðra vinnuaðstöðu þar til viðgerð yrði klár en hann taldi þá lausn ekki geta gengið. Viðgerðum yrði lokið fljótt að hans mati. Það reyndist ekki verða raunin og fékk ég svo upplýsingar um viðgerðartafir vegna covid.
Sveitarfélagið réði síðan trúnaðarlækni vegna veikinda minna og hafði hann samband við mig í apríl og vildi að ég lýsti veikindum mínum sem ég gerði skilmerkilega.
Trúnaðarlæknir vottaði til yfirmanna að ég væri mjög líklega veik vegna myglu á vinnustað og að ég mætti ekki fara aftur inn í húsnæðið fyrr en viðgerð væri lokið og búið yrði að taka annað sýni varðandi að húsnæðið væri myglu/raka frítt. Ég var orðin langþreytt yfir að komast ekki til vinnu en fékk þau svör að verið væri að vinna að lagfæringum.
Fulltrúi hjá Vinnuvernd hafði samband við mig eftir vottun trúnaðarlæknis og vildi fá að vita hvort ég gæti sannað það að ég hefði verið veik vegna myglu, það gæti að þeirra mati hjálpað til við að húsnæðið yrði lagað í meiri flýti svo ég gæti komist til vinnu aftur. Ég gat aðeins bent honum á lækni hjá Íslenskri erfðagreiningu, trúnaðarlækni og minn heimilislækni. Ég verð að viðurkenna að ég var frekar sár yfir þessum spurningum á þessum tímapunkti og upplifði að vinnuveitendur mínir legðu enga trú á að veikindi mín mætti rekja til myglu eða rakaskemmda.
Fulltrúi Vinnuverndar hafði samband við lækni Íslenskrar erfðagreiningar og sagðist hafa látið yfirmenn mína vita að ég væri veik vegna myglu á vinnustað. Hann sagðist einnig hafa lagt til að það yrði að lagfæra húsnæðið áður en ég kæmi til starfa.
Ég fékk síðan tölvupósta frá mínum yfirmanni um að húsnæðið yrði tilbúið í lok maí 2020 sem stóðst ekki, en yrði tilbúið í ágúst 2020. Ég tók þessum upplýsingum með jafnaðargeði og skilningi þar sem ég vissi að Covid hafði líka sett strik í reikninginn varðandi lagfæringar.
Í byrjun ágúst fékk ég síðan upplýsingar um að viðgerðum væri ekki lokið og veikindaréttur minn jafnframt búinn. Ég benti yfirmanni mínum á að samkvæmt lögum ætti ég sem fastráðinn starfsmaður rétt á að vinna í öruggu heilsusamlegu vinnuumhverfi sem hann yrði að útvega mér, eða greiða mér áfram laun þar til viðgerðum yrði lokið. Ég benti á að veikindi mín væru vegna myglu á vinnustað sem flokka mætti sem atvinnusjúkdóm sem ætti að veita mér viðbótar rétt til launa. Yfirmaður hafnaði þeirri kröfu minni þar sem veikindi vegna myglu væru ekki flokkuð sem atvinnusjúkdómur hjá sveitarfélaginu. Ég var hins vegar ekki sammála þeirri túlkun þar sem yfirlæknir Vinnueftirlitsins segir að þó mygla og rakaskemmdir séu ekki talin upp á lista yfir atvinnusjúkdóma hjá Vinnueftirlitinu eigi atvinnurekendur ekki að nota það til að útiloka veikindarétt starfsmanna, það sé misnotkun.
Ég óskaði aftur eftir að fá aðra starfsaðstöðu þar til viðgerð yrði klár en þeirri ósk var ekki svarað. Ég fékk jafnframt tölvupóst frá mínum yfirmanni þess efnis að viðgerðum á húsnæðinu væri ekki ennþá lokið og ég gæti ekki komið aftur til starfa fyrr en ég væri búin að fara í mat hjá trúnaðarlækni sveitarfélagsins. Húsnæðið ekki tilbúið og ekki búið að taka það út aftur en ég átti að fara í mat hjá trúnaðarlækni ??
Ég verð að viðurkenna að ég var nokkuð slegin yfir þessari framkomu varðandi veikindi mín og velti stórlega fyrir mér rétti mínum varðandi þann skaða sem ég hafði orðið fyrir? Hvort það sé eðlilegt að manneskja sem sannarlega er veik vegna myglu og rakaskemmda á vinnustað eigi að þurfa að eyða öllum sínum veikindarétti vegna þess að vinnuumhverfið er ekki heilnæmt og öruggt? Það er líka ótrúlegt að halda manneskju bara heima í veikindaleyfi í stað þess að reyna að finna lausnir varðandi annað tímabundið vinnuumhverfi? Allan þennan tíma sem ég var frá vinnu hafði yfirmaður minn aðeins samband við mig í síma tvisvar sinnum til að athuga með líðan mína sem er einstaklega sérstakt. Ég velti fyrir mér hvort það hefði verið oftar ef veikindi mín hefðu verið af öðrum toga? Ég vona svo sannarlega að einhvern tíma í nálægri framtíð verði mygluveikindi fólks viðurkennd. Þessi veikindi eru mjög alvarleg og geta haft mjög slæm varanleg áhrif á fólk.
Viðvarandi einkenni í vinnuhúsnæðinu:
Endalaus höfuðverkur/uppköst
Meltingartruflanir/niðurgangur
Hálsbólga, hæsi
Svimi/jafnvægisleysi
Þreyta/slen, sjóntruflanir
liðverkir
Vantar í orðaforða(man ekki hvaða orð á að nota)
Svefnerfiðleikar
Kvíðaverkur (viðvarandi á vinnustaðnum)
Eyrnabólgur/suð í eyrum
Hjartsláttartruflanir
Flensueinkenni(endurteknar sýkingar sem enduðu oft með lungnabólgu)
Mikill þorsti
Aukin hungurtilfinning
Þyngdaraukning
Bjúgur í andliti, höndum, fótum
Stíflaðar kinn og ennisholur
Nefstífla
Beinverkir
Hækkun á líkamshita
Heitt eða kalt til skiptis
Útbrot í lófum (eru ennþá,eftir heilt ár)
Blóðnasir
Vanvirkur skjaldkirtill (gekk til baka samkvæmt nýlegri blóðprufu)
Andþyngsli, mæði (gat t.d. ekki gengið upp stiga nema með hvíldum á milli)
Comments