top of page
Search

Allt var afgreitt sem tuð, neikvæðni og ótti við breytingar

Reynslusaga Sigríðar Hinriksdóttur leikskólakennara sem getur ekki unnið lengur við sitt fag vegna alvarlegs heilsubrests í kjölfar raka og myglu á vinnustað


Myndin er fengin úr myndabanka og tengist frásögninni ekki beint.


Sigríður heiti ég og er leikskólakennari að mennt... 49 ára fjögurra barna móðir og fjórföld amma.


Ég hef frá því ég var barn verið mjög viðkvæm í nefi, haft ofnæmi, nefrennsli, blóðnasir, haft eyrna-, ennis- og kinnholubólgur af og til alla mína tíð. Ég bjó á Egilsstöðum í 13 ár og starfaði í leikskólanum Tjarnarlandi (gömlu húsnæði), þar til hann var sameinaður leikskólanum Skógarlandi sem byggður var árið 2005. Gamla húsnæðið hafði ýmsa vankanta og þar hafði lekið inn af og til í gegn um árin og loftgæði hefðu alveg mátt vera betri en árin sem ég vann í því húsi duguðu ofnæmislyfin og nefspreyin fyrir mig til að tækla mitt viðkvæma nef, enda var ég annars fílhraust á þeim tíma. Mikið hafði verið talað í starfsannahópnum og í bænum að nýja fína Skógarlandshúsið væri illa byggður leka og mygluhjallur, þar lak þak, vantaði loftræstistokka auk þess sem lagnir undir húsinu höfðu gefið sig svo skólp hafði flætt upp um niðurföll í húsinu eins undan verönd.


Þetta var hitamál sem átti að þagga niður og voru margir starfsmenn og kennarar ósáttir við að fá ekki áheyrn með áhyggjur sínar af mögulegri myglu og mjög slæmum loftgæðum í húsnæðinu.

Við sameiningu skólanna var mikill titringur í starfsfólki beggja skóla því illa var staðið að sameiningunni, fólk fékk ekki að vera með í ráðum, gömlu stjórnendunum var sagt upp og sérfræðingur að sunnan fenginn í verkið... sameiningin átti að spara peninga og átti að ganga hratt fyrir sig “no matter what”. Þöggun var málið, það virtist engu máli skipta hvað starfsfólk og kennarar höfðu um loftgæði að segja, við áttum bara að hafa hægt um okkur. Allt var afgreitt sem tuð, neikvæðni og ótti við breytingar... jafnvel vaxandi áhyggjur og umhvartanir fólks um mögulega myglu og hrakandi heilsu einstaklinga í starfsmannahópnum og barnahópnum var afgreitt sem kerlingatuð.


Haustið 2012 tók sameinaði skólinn Tjarnarskógur til starfa , þá var starfsmannahópnum blandað á milli húsanna tveggja. Ég fluttist upp í nýja húsið sem deildarstjóri. Starfsandinn var erfiður, við vorum sár og ósátt starfsfólkið, undirmönnun var viðvarandi samskiptaleysi sem háði starfinu. Það allt mátti skrifa á illa undirbúna og vanhugsaða sameiningu, en ofan á það allt saman bættist vaxandi óútskýrður heilsubrestur barna og fullorðinna í húsinu og raddir starfsmanna og foreldra urðu sífellt hærri um að það yrði að fá mælingu á loftgæðum og rannsaka fyrir alvöru hvort mygla væri þar til staðar. Ég hafði unnið þarna svo stutt þegar ég fór að fá tíðar og miklar blóðnasir í tíma og ótíma á vinnutíma, ég þjáðist að langvarandi raddbandabólgu, var með svæsin þurrk og kláða í húð, í augum og víðsvegar um líkamann. Út frá því fóru að koma ljótir blæðandi blettir á fótleggjum sem mig klæjaði stöðugt í. Þarna á þessum tíma var streita hluti af þér.... ég var einhvernveginn ómöguleg, vaknaði þreytt, svaf illa, ég safnaði áður óþekktum bjúg, ég var með stöðugan hroll, samt svitnaði ég undan sjálfri mér, ég var með astmaeinkenni, tíða hnerra, þrálátan hósta, svima og öndunafæravandamál mín náðu nýjum hæðum sem ognæmislyfin mín hættu að slá á. Ég var farin að vera með viðvarandi hita alla daga, einhverjar kommur og upp í 38. Í mér sat kvefskítur... ég var skugginn af sjálfri mér. Fór að fá svæsnar frunsur, sveppasýkingar og streptókokka sem mölluðu í mér þar til ónæmiskerfið í mér gaf eftir og ég varð fárveik.... s.s. fékk alvarlega blóðsýkingu af streptókokkum sem braust svo fram í legi mínu og leggöngum. Blóðnasirnar urðu sífellt meiri og tíðari uns ástandið var orðið þannig að ég þurfti ítrekað að biðja samstarfsfólk að skutla mér alblóðugri með óstöðvandi blóðnasir niður á heilsugæslu, það þurfti lækni til að stoppa þær. Sá læknir sagði þær hafa verið hættulegar og ég missti mikið blóð, þetta er allt skráð í sjúkraskýrslur.


Það sem eftirlifði þess skólaár er í þoku hjá mér, svo illa leið mér. Mér fannst sem ég væri fígúra í erfiðum tölvuleik sem “ tapaði lífi/um” á hverjum degi. Smám saman gerði ég mér grein fyrir því að það væri eitthvað til í því sem starfsfólk hafði verið að reyna að benda á, að húsnæðið væri sjúkt.

Að allar líkur væru á því að vinnustaðurinn væri rót vandans í hrakandi heilsu minni og annara því mér leið betur um helgar heima, í fríum og úti í garði með leikskólabörnin. Of langt mál er að rekja alla þá sögu, en skemmst frá því að segja að eftir ótrúlega vanvirðingu bæjaryfirvalda, skólastjóra og heilbrigðisfulltrúa.... hunsun, þöggun og leiðindi sem oftar en ekki komu fram sem eineltistaktar í garð okkar sem reyndum að fá áheyrn um áhyggjur okkar. Á einum tímapunkti benti starfandi heilbrigðisfulltrúi okkur á að við ættum bara að “þurrka betur af” kennararnir! Ég sé það núna að þarna hefði ég átt að hætta.... ég þráaðist við. Danskennarinn okkar góði Logi Vígþórsson hafði komið á hverju ári að kenna dans í skólunum á Fljótsdalshéraði, hann var viðkvæmur í öndunarfærum fyrir og var sannfærður um að það væri mygla í húsinu, en hlaut ekki áheyrn frekar en við hin. Hann hætti að kenna dans í umræddu húsi. Heilsu minni hrakaði jafnt og þétt, ég gekk á milli lækna sem sögðu mig ýmist þjáða af vefjagigt eða á breytingaskeiði. Það gat ekki staðist því ekki hafði ég fengið greiningu né var ég farin að finna fyrir breytingum tengdum breytingaskeiði á neinn hátt. Svo fór ég að finna fyrir áður óþekktum einkennum frá þvagfærum sem ágerðust árið 2016. Enn sögðu læknar að einkennin mætti rekja til áðurnefndra þátta.


Í október 2016 fluttum við fjölskyldan til Akureyrar og hóf ég starf í leikskólanum Naustatjörn. Orkan var engin, ég vann fulla vinnu og örmagnaðist þegar ég kom heim... vann og svaf. Ég þjáðist af síþreytu, tilfinningadoða ofan í það flest það sem áður var nefnt. Ég fór að fá skyndilegan þvagleka og þvagfærasýkingar, uns ég fór að pissa blóði... enn og aftur átti að rekja til breytingaskeiðs þegar ég leytaði læknis hér á bráðamóttökunni. Skemmst frá því að segja að ég gafst ekki upp og fékk loks áheyrn hjá unglækni að nafni Kristrún sem pantaði fyrir mig blöðruspeglun hjá mögnuðum sérfræðingi. Þar greindist ég með krabbamein í blöðru sem kom svo aftur rúmu àri síðar.


Meinið sem ég þá 46 ára greindist með er afar sjaldgæft hjá konum, er eldri karla krabbamein og einnig algengt hjá reykingafólki... ég hef aldrei reykt og er ekki eldri karl...

Þetta var mjög óvenjulegt. Í nefholi mínu reyndist vera heill akur af sepum og góðkynja æxli sem fjarlægt var í aðgerð í fyrra. Ég náði aldrei flugi eftir hryllingsveturinn í Tjarnarskógi 2012, endaði í örmögnun, fór í prógramm á Virk og hef verið þar í 2 ár. Þetta er búið að vera mikil þrautaganga ég er með laskað miðtaugakerfi, hef tapað bragð og þefskyni að mestu, varanlega, ég hef lítið úthald, þoli illa hávaða, fæ slæma höfuðverki, missi röddina af og til ig er rám þess á milli. Ég hef orðið fyrir varanlegu heilsutjóni og þoli ekki lengur að vinna í því áreitisumhverfi sem skólar eru. Ég hef nýlokið 3 mánaða vinnuprufu á vegum Virk aftur á mínum góða vinnustað Naustatjörn hér á Ak., því ég þrái að geta starfað áfram sem kennari, en það er fullreynt. Það sem ég hafði náð að byggja upp í veikindaleyfinu fór hratt niður á við á meðan vinnuprufunni stóð sem var þó aldrei í stærra hlutfalli en 50% Það er mat fagteymis hjá Virk og lækninum mínum.


Það fannst mygla á endanum í skólahúsnæðinu á Egilsstöðum og í heilu hverfi af nýbyggðum húsum sömu gerðar þar í bænum sem byggð voru á sana tíma. Mest var myglan í starfsmannaaðstöðunni og á einni deild. Þegar byrjað var að taka niður loftplöturnar í kaffistofunni vorum við nokkrir kennarar að vinna við tölvur innaf starfsmannagangi, gengt kaffistofunni. Ekki var haft fyrir því að láta okkur vita að til stæði að taka plöturnar og athuga með myglu þar.... jú það var plast fyrir dyrum kaffistofunnar... bara fest að ofan annars flaksandi laust.... kennurum sem voru frammi var bent á að hafa millihurðina lokaða því framkvæmdir stæðu til, en við sem vorum að vinna í opnu herbergi við enda gangsins vissum ekkert.


Ég hef velt því fyrir mér hversvegna heilsa mín er svo viðkvæm, ég hef engin svör en eitt er víst að í þessu sýkta húsi Skógarlands sáluga á Egilsstöðum byrjuðu veikindi mín, þar byrjaði hrunið sem ég hef rakið hér í grófum dráttum. Ég hef unnið í leikskólum og sambýlum í 30 ár, ég gaf starfinu allt öll þessi ár og nú stend ég uppi 49 ára, atvinnulaus með skerta starfsgetu, get ekki lengur unnið við það fag sem ég menntaði mig til, það er sárt. Ef heilsubrest minn má rekja til myglunnar, hvaða langtímaáhrif mun hún hafa á heilsu blessaðra barnanna sem voru þar á þessum tíma?

Comments

Couldn’t Load Comments
It looks like there was a technical problem. Try reconnecting or refreshing the page.
bottom of page