top of page
Search

Eftir á að hyggja hefði ég átt að hlusta betur á líkamann

Nafnlaus saga þolanda sem situr uppi með varanlegan heilsuskaða í kjölfar þess að hafa mætt endurtekið veik til vinnu á meðan á viðgerðum stóð á húsnæðinu vegna rakaskemmda.


Myndin er fengin úr myndabanka og tengist frásögninni ekki beint.


Ég hafði alltaf verið dugleg að hreyfa mig og í góðu „formi“ elskaði að vakna snemma og fara í ræktina fyrir vinnu eða enda daginn á að fara í góðan göngutúr eða ræktina að loknum vinnudegi.


Einnig var ég í háskólaskóla samhliða vinnu, fékk góðar einkunnir og gekk vel.

Svo er eins og þoka renni inn í allt líkamlega kerfið mitt. Manneskjan sem ég þekkti og var er ekki lengur til. Ef litið er í spegil þá sé ég bólgna og bjúgaða veru sem er með smá svip af mínu fyrra andliti.


Líkaminn er algjörlega óþekkjanlegur enda bólginn og þreyttur... svona eins og öfug reynslusaga aðila sem birta myndir af sér á árangurssíðum.

Aldrei hafði ég fundið fyrir einkennum vegna rakaskemmda. Það tók mig langan tíma að átta mig á því að veikindin mín stöfuðu af rakaskemmdum á vinnustað og enn lengri tíma að viðurkenna það, fyrst fyrir mér og svo fyrir öllum hinum!


Svona hófst samt mín saga:


Ég var á frábærum vinnustað sem var með leigða aðstöðu í glæsilegu atvinnuhúsnæði í Reykjavík. Umræða hafði verið á kreiki um að rakaskemmdir og mygla hefðu fundist í húsnæðinu. Í framhaldi var haldin fundur með starfsmönnum þar sem farið var yfir málin og aðgerðarplan vegna framkvæmdir kynntar starfsmönnum.


Allt virtist þetta vera undir control. Áður en á löngu leið hófust framkvæmdir og starfsstöðvar okkar voru stúkaðar af frá vinnusvæði þeirra sem voru að rífa innan úr veggjum, rífa upp af gólfum og niður úr loftum.


Sennilega var ekki liðin klukkutími frá því að byrjað var að rífa niður frá rakaskemmdum svæðum þegar ég missti röddina, fór að finna fyrir miklum þurrki í augum og nefi, kláða á hálsi og fjörfisk í auga.

Aðrir starfsmenn fundu mismikið fyrir, allmargir fundu fyrir þurrk í raugum og nefi, flestir voru með höfuðverk (mikinn/lítinn) og svo kverkaskít.


Næstu daga á eftir var þetta eins, við héldum mögulega að um ryk væri að ræða vegna efnis sem notða var við að stúka svæði af og reynt var að bregðast við því en án árangurs. Áfram missti ég röddina við að mæta í vinnu, fékk dúndrandi hausverk, beinverki, hitavellu sem sem magnaðist eftir sem á daginn leið og klóraði mér endalaust á hálsinum og fann fyrir heilaþoku. Ég fór að vera mjög þreytt og slöpp og þegar heim var komið gat ég ekki treyst mér í ræktina eða í göngutúr þar sem ég var eins og ég væri með flensu (hita, hausverk og beinverki) þannig að ég var sofnuð um klukkan 20 á kvöldin og yfir nóttina löguðust einkennin.


Þó magnaðist þreytan með hverjum deginum og kom að því að ég hafði alls ekki orku í að klára leikfimina fyrir vinnu þótt ég virkilega vildi þá bara gat ég ekki meir. Ég tók þá ákvörðun um að nota tímann á morgnana í að hvíla mig þá aðeins lengur fyrst ég var svona hrikalega þreytt... athugið á þessum tímapunkti áttaði ég mig ekki ennþá að þessi veikindi tengdust veru minni í húsinu! Rútínan var orðin þannig að ég vaknaði oooofurþreytt alla morgna en sparkaði mér áfram til að fara í vinnu, mætti i húsið > missti röddina, fékk hausverk, beinverki, hita og flensulík einkenni > reyndi að fara út að labba í hádeginu en var síðan orðin of þreytt í það og reyndi að hvíla mig í vinnunni í hádeginu > fór heim í lok vinnudags og var alveg í þoku > háttaði og fór að sofa um leið og ég kom heim.


Eftir smá tíma fór minnisleysið að vera meira, ég mundi ekki heilu dagana en ég passaði að öll orkan mín færu í vinnuna, vildi ekki vera slæmur starfsmaður.

Það fór aftur á móti að vera meira strögl að vera í náminu, ég hélt illa athyglinni og mundi ekkert af því sem ég las eða heyrði.


Svona gengu allir virkir dagar en um helgar svaf ég enn meira og lengur og var alveg orkulaus. Fékk röddina aftur í lok vinnudags en hausverkur og stíflur í afholum nefs voru áfram, endalaus kverkaskítur. Ég hóstaði brúnu slími upp úr mér alla morgna.


Ég hafði enga orku í að vera frábær húsmóðir, vinkona, eiginkona eða móðir því ég bara vann og svaf. Eitt skiptið var ég á leið minni heim úr vinnu, sömu leið og alla aðra daga nema ég rankaði við mér á leið austur fyrir fjall, var þarna orðin skugginn af mér enda við það að mæta í vinnu gekk ég meira á heilsu mína en ég hefði átt að gera (svona eftir á að hyggja). Aldrei var mér hvort eða er hrósað fyrir að vera svona mikill nagli að mæta veik í vinnu eða fyrir að gefast ekki upp.


Ég náði á einum tímapunkti smá bata eftir að fyrirtækið flutti úr rakaskemmda húsnæðinu í annað húsnæði. Allt sem ekki var hægt að þrífa var skilið eftir á gamla staðnum og mættu aðilar í eiturefnabúningum til að hreinsa vélbúnað og annað sem þurfti að fara á milli staða. Ekkert sem gat borið gró mátti fara á nýja staðinn.


Nýi staðurinn var frábær og allt virtist á réttri leið þegar ein smá mannleg mistök urðu til þess að fyrir fyrstu jólin á nýja staðnum var sóttu kassi eða kassar úr geymslu á gamla staðnum og komið með inn á kaffistofu á nýja staðnum.

Ég vissi ekki af kassanum en allt í einu missti ég röddina og öll einkennin blossuðu upp og ég upplifði það að heilinn minn færi bara í eitthvað rugl.


Kerfið fór í einhvern ham og ég veit ekki hvort ofnæmiskerfið væri að bregðast við en einkennin urðu miklu verri en þegar ég veiktist í fyrra skiptið. Í stað þess að lagast aftur strax og kassin fór út hrundi þarna heilsan mín og röddin fór að lokum varanlega og hefur ekki komið aftur nokkrum árum seinna.


Annars listaði ég eitt sinn upp öll þau einkenni sem ég finn fyrir ýmist daglega eða við ákveðin áreiti.


Einkennaskjal:


Viðvarandi einkenni

 • Höfuðverkur endalaus

 • Hæsi (raddleysi)

 • Slen og þreyta

 • Minnisleysi – fer versnandi

 • Þoli ekkert áreiti

 • Jafnvægisleysi

 • Úrvinnsluhæfni mjög léleg

 • ADHD (skil oft ekki hluti sem ég ætti að skilja samtöl eða útskýringar, get ekki lesið texta eða greinar, leyst krossgátur )

 • Vantar í orðaforða (bara man ekki hvaða orð á að nota)

 • Fínhreyfingar ekki góðar

 • Svefnvandamál

 • Kvíði (afleiðing veikinda)

 • Eyrnasuð

EInkenni sem koma og fara

 • Hjartsláttartruflanir

 • Flensueinkenni

 • Astmi (áreynsluastmi)

 • Svimi

 • Þurr augu - særindi

 • Þurrkur í hálsi

 • Þorsti

 • Særindi og óþægindi í hálsi

 • Andþyngsli vegna óþæginda í hálsi eins og það séu miklar bólgur í kringum barka eða kok

 • Doði í andliti

 • Bólgur (bjúgur)

 • Stíflur í kinn-, ennisholum

 • Beinverki

 • Skjálfti

 • Kuldatilfinning

 • Hiti (38+)

 • Roði í húð

 • Útbrot og kláði á hálsi

 • Sviti – sérstaklega á næturnar

 • Spasmi í hægri hlið andliti og/eða hönd


Í dag sit ég uppi með skerta úrvinnsluhæfni, lélegt skammtímaminni, daglegan hausverk, varanlegan skaða á raddböndum (er raddlaus og þarf á bótoxsprautum í raddbönd að halda á þriggja mánaða fresti). Ég þoli illa áreiti og ilmefni. Jafnvel getur gróður eða blómailmur triggerað árás á kerfið mitt.

Ég horfi þó bjartsýn til framtíðar og vona að flest þessara einkenna hverfi eða gangi að mestu til baka.


Eftir á að hyggja hefði ég átt að hlusta betur á líkamann og stoppa og hvíla mig.

Comments


bottom of page