top of page
Search

Fjölskyldan

Á vegi til uppbyggingar og bata er mjög hjálplegt ef stuðningur og skilningur frá fjölskyldu og vinum er til staðar.


Það er því mikilvægt að fjölskyldan hjálpist að við að leita orsaka vandans og finna úrlausnir og leiðir sem virka vel. Gott er að hafa í huga að öll erum við mismunandi. Það getur gerst að einn fjölskyldumeðlimur finni engin einkenni í menguðum aðstæðum á sama tíma og aðrir fjölskyldumeðlimir eru nær rúmfastir vegna heilsufarsáhrifa.


Mikilvægast er að leita upplýsinga, fræða hvert annað og finna þá vegferð sem hentar þínu fjölskylduformi. Oft getur verið dýrmætt að fá fjarlægð á vandann með því að komast út úr aðstæðum í einhvern tíma (1-2 vikur) og leita þá til stórfjölskyldu eða vina um aðstoð.

Þá er mikilvægt að skilning sé að fá hjá öðrum nákomnum. Þetta getur oft verið heilmikill línudans en við hjá samtökunum biðlum til aðstandenda að nálgast veikindi og kvilla allra ástvina með kærleik og skilningi, þó að þeir upplifi engin einkenni á eigin skinni og skilji orsakir og afleiðingar ekki til fulls.


Það getur t.d. verið mikilvægt fyrir þann sem veikist af umhverfisáreiti að vera ekki í kringum nein ilmefni. Það gengur best ef aðrir í fjölskyldunni taka tillit til þess þó ástæðurnar séu þeim framandi. Mikilvægt er að lesa sér til og fræðast um skaðsemi kemískra ilmefna og þau óteljandi manngerðu efni sem geta ert og ýft upp umhverfisáreiti.


Ekki hika við að biðja aðra í fjölskyldunni í einlægni um að skipta út snyrtivörum, hreinlætisvörum, þvottaefni o.frv. Stundum getur jafnvel verið gott að fara yfir vörurnar saman, skoða og lykta af þeim og sjá hvað ertir, fara svo saman í innkaupaferð og uppfæra hreinlætisvörur heimilisins.

Mundu að þetta er þín heilsa og það er fátt sem stendur þér nær en hún. Notaðu þau úrræði sem þér gefast. Það er sérstaklega mikilvægt hverjum þeim sem er að koma úr miklu umhverfisáreiti, eins og til dæmis raka og myglu, þegar líkamskerfið er hvað viðkvæmast.


コメント


bottom of page