top of page
Search

Geðheilsu úrræði

Hér fyrir neðan er upptalning á úrræðum sem hafa reynst þolendum umhverfisveikinda vel við að bæta sína geðheilsu.


Þessi upptalning er ekki byggð á rannsóknum tengdum umhverfisveikindum sérstaklega, heldur er hlutlaus samantekt á reynslu þolenda á vinsælum aðferðum til bættrar geðheilsu. SUM leggur ekki mat á sértæka virkni þeirra í tengslum við umhverfisveikindi en þolendur umhverfisáreitis eru, líkt og aðrir, mis móttækilegir fyrir úrlausnum. Því þarf hver einstaklingur að prófa sig áfram og finna sína leið.


Það getur reynst mjög tímafrekt og kostnaðarsamt að finna hentugt úrræði en mikilvægast er að gefast ekki upp. Leiðin þín er alltaf rétta leiðin á hverjum tíma. Við hvetjum þig til að nota innsæið í leit að réttu sjálfsvinnunni fyrir þig og vonandi veita þessar ráðleggingar þér innblástur.


Við vekjum sérstaka athygli á því að ekki hefur fundist ein „töfralausn” sem leiðir til geðheilbrigðis út ævina. Oft eru margir þættir sem hjálpa til, eru jafnvel samverkandi eða henta á mismunandi tímum í bataferlinu. Vegferðin getur tekið langan tíma og því mikilvægt að huga samhliða að því að ástunda það sem eykur gleðina í lífinu.

Þolendur umhverfisáreitis og verulegs tjóns af þess völdum, upplifa gjarnan tilfinningar eins og vanmátt, sorg, reiði og höfnun þegar upp kemst um ástæður veikindanna og við blasa afleiðingarnar sem þeir sitja einir uppi með. Því fylgir ringlun að þurfa skyndilega að segja skilið við sitt fyrra líf; að þurfa að yfirgefa heimili sitt, segja sig frá vinnu, losa sig við búslóðina, tapa ævisparnaðinum og upplifa sundrun á fjölskyldunni. Á meðan þolendur eiga skilning á aðstæðum sínum ekki vísan innan heilbrigðis-, trygginga- eða réttarkerfis, er mikilvægt fyrir þá að leita sjálfir leiða til að byggja sig upp og viðhalda geðheilsunni.


Ekki hika við að senda okkur línu ef þú telur önnur úrræði en hér er greint frá, hafa aðstoðað þig í sömu sporum.


  • HAM - Stundum þarf að endurstilla viðbrögð við áreiti, reyna að róa taugakerfið og þjálfa það í að taka á áreiti og komast í gegnum áreitið, þ.e að klára viðbrögð taugakerfisins við „ótta og flótta” viðbrögðum og ná að vinna úr þeim. Þessi meðferð hefur reynst ýmsum þolendum vel. Með vel þjálfuðu taugakerfi ætti hver einstaklingur að vera betur í stakk búinn til að takast á við óumflýjanlegt áreiti. Útþanið taugakerfi og streita getur virkað eins og olía á eld umhverfisviðbragða og gert afleiðingar og einkenni allt að 70% verri.


  • EMDR - Það getur verið að sífellt og endurtekið umhverfisáreiti og mikil veikindi hafi leitt af sér áfallastreitu, enda mikið áfall að vera í þeim aðstæðum sem leitt hafa til heilsu- og heimilismissis og missis á almennum lífsgæðum vegna þeirrar einagrunar sem oft fylgir þessum veikindum. Þessi meðferð hefur reynst mörgum þolendum vel við að laga þau djúpu sár sem hafa myndast og hjálpa til við að flokka tilfinningar og atburði sem eru fastir í tíma í rúmi (fastir í taugakerfinu) með því að fara í gegnum áföllin á réttan máta.


  • Samtalsmeðferð - Að eiga samtalið hjá meðferðaraðila hefur hjálpað mörgum þolendum. Það hefur reynst þeim mikilvægt að tala um heilsubrestinn, erfiðleikana og þær krefjandi aðstæður sem myndast þegar þolandi umhverfisveikinda missir heimili, vinnu, heilsu og fjölskyldutengsl jafnvel rofna. Eins getur þessi meðferð verið árangursrík fyrir aðstandendur og þá einkum sem fjölskyldumeðferð.


  • Markþjálfun ICF - Í eðli sínu er hrein markþjálfun framfaradrifin samtalsaðferð sem virkar valdeflandi og gefur þann innri drifkraft sem þarf til að taka skref í átt til betra lífs. Í markþjálfun á PCC færnisstigi, kemur breytingin innan frá í gegnum eigin uppgötvanir en ekki með leiðsögn eða stýrðri hugarleikfimi. Útkoman er persónuleg og sá sem þiggur markþjálfun ræður sjálfur ferðinni. Þessi opna samtalsaðferð hefur því virkað vel í kjölfar umhverfisveikinda en við endurheimt á orku og líkamlegu heilbrigði reynist mikilvægt að vinna samhliða með hugarfar og áhugahvöt. Með aðferðum markþjálfunar má búa til nýjar taugabrautir, laða fram lausnir og virkja aðgerðir. Þegar einstaklingur hefur náð djúpri tengingu við eigin vilja og fyrirætlanir í gegnum markþjálfun virðist hann margfalt líklegri til að ná stjórn á aðstæðum sínum og snúa á hvers konar hömlur. Með þeim hætti verður hann fær um að ná undraverðum tökum á lífi sínu.


  • Hómópatía, cranio, hugleiðsla, jóga, dáleiðsla, möntrusöngur, pranaheilun, tónheilun, ayurveda, jákvætt hugarfar, núvitund ofl. Einhverjir hafa lýst yfir árangri í gegnum þessi úrræði og mælum við með því að hver og einn kynni sér þau nánar ef áhugi er fyrir hendi. Hugleiðsla er t.d mikið notuð til að núllstilla og koma sér úr ákveðnu streituástandi, gefa líkamanum tíma til að ná endurheimt og vinna sig í gegnum áföll. Dáleiðsla hefur reynst einhverjum vel sem glíma við erfið áföll. Jóga, þá kannski einkum Yin Yoga eða Kundalini yoga og jógísku fræðin líta heildrænt á líkama, huga og sál og vinna með alla þessa þætti samhliða, sem og ayurveda. Hómópatía vinnur einnig með svipaðar heildrænar lausnir. Heilanir og jafnvel heimsóknir til miðils hefur verið nefnt sem hjálp í einhverjum tilfellum.


Ekki hika við að senda okkur línu ef þú telur önnur úrræði en hér er greint frá hafa komið þér að góðum notum. Við viljum gjarnan safna sem flestum reynslusögum.

  • Stuðningur - Mundu að enginn er eyland. Mörg þúsund manns um heim allan hafa tekist á við þær áskoranir sem þú stendur frammi fyrir núna. Það er því mikilvægt að við tölum saman, deilum ráðum og aukum meðvitund um þær alvarlegu afleiðingar sem umhverfisáreiti getur haft.


  • Virðing og hlustun - Því miður er oft lítill skilningur á umhverfisáreiti og heilsukvillum því tengdu. Fjölskyldu, vinum og vinnufélögum vantar gjarnan þekkingu eða færni til að setja sig í spor hins umhverfisveika og skilja aðstæður hans og áskoranir. Mikilvægt er að sá skortur á skilningi verði ekki til þess að einstaklingurinn efist um sínar eigin upplifanir. Þó viðkomandi sé ekki með beinar „sannanir” eða „rannsóknarniðurstöður” í eigin máli, þá ætti einstaklingurinn sjálfur, einkenni hans og upplifun að vera næg ástæða til að á hann sé hlustað.


Mikilvægt er fyrir umhverfisveika að muna að með því að vera samkvæm okkur sjálfum og fylgja eigin innsæi í kærleika, náum við smám saman til okkar nánustu sem munu þá geta veitt okkur kærkominn stuðning.


Vegna þessa er áríðandi að við hjálpumst öll að við að deila þekkingu okkar og reynslu. Í krafti fjöldans getum við náð til allra þeirra sem ekki hafa upplifað umhverfisáreiti á eigin skinni, en það er mikilvægt að þeir geti sýnt, aðstæðum og krefjandi baráttu þeirra sem búa yfir þessari lífsreynslu, ákveðinn skilning.


Comments

Couldn’t Load Comments
It looks like there was a technical problem. Try reconnecting or refreshing the page.
bottom of page