top of page
Search

Halda dagbók

Gagnlegt getur verið að prufa að halda dagbók í eina viku til freista þess að fá betri yfirsýn yfir heilsufarsáhrifin.


Í dagbókina skráirðu hvert þú fórst (heimili, vinna, skóli, heimsóknir, almenningsrými o.frv.) og heldur bókhald yfir hvort einhver líkamleg einkenni komu upp á hverjum stað fyrir sig.


Með því að halda dagbók má mögulega koma auga á munstur í daglegum venjum og líðan sem varpað getur ljósi á tengsl milli umhverfisins og heilsufarseinkenna eða getur dregið línu á milli punkta svo úr verði heildstæð mynd af því sem um er að vera.

Mælt er með að setja inn í dagbókina hvað þú borðaðir hvern dag, hvaða staði þú sóttir, hverjir komu í heimsókn, hversu mikið þú vannst, hvernig veður var úti og möguleg loftgæði, notkun kemískra efna og hvort gluggar voru opnir eða lokaðir. Einnig hvort tilfallandi streita kom upp eða atburður sem gæti hafa haft áhrif.


Í dagbókina skaltu svo skrá líðan þína hvern dag, hvort líkamleg einkenni koma upp og þá hvenær í samhengi við aðstæður. Einnig er gagnlegt að skrá hvort hraður hjartsláttur geri vart við sig og upp komi kvíði eða þreyta. Slík einkenni geta tengst áreitinu eða áhrifum frá fæðu sem líkaminn þolir ekki lengur vegna umhverfisáreitis sem veikt hefur kerfi hans til að vinna úr fæðunni.


-----------


Ef minnsti grunur leikur á að umhverfið sé valdur að endurteknum eða viðvarandi heilsufarseinkennum er það næg ástæða til að bregðast við.


Raki og mygla í húsnæði gefur undantekninglausa ástæðu til að grípa til aðgerða og fara í tafarlausar lagfæringar á húsnæðinu. Alþjóða heilbrigðisstofnunin staðfestir að óyggjandi samband er á milli rakaskemmda og heilsufars og getur slíkt ástand rutt af stað ýmiskonar annarri umhverfisviðkvæmni hjá þolanda.


Viðvarandi raki í byggingarefnum skapar ávallt ónæg loftgæði innandyra vegna þeirrar efnasúpu sem myndast og þau gufa frá sér. Varast skal að taka því trúanlega að rakaskemmdir geti verið án myglu/eiturefnaáhrifa eða að einhverjar sveppategundir sem tekið hafa sér bólfestu í byggingarefnum séu „góðkynja" og þar með meinlausar fyrir heilsuna.


Heilsan á alltaf að njóta vafans!


Comments


bottom of page