top of page
Search

Innlit í baráttu umhverfissjúklings við heilbrigðiskerfið

Brotabrot úr reynslusögu Guðbjargar Pétursdóttur af samskiptum við heilbrigðiskerfið á Íslandi.


Myndin er fengin úr myndabanka og tengist frásögninni ekki beint.


Mig langar að gefa ykkur smá innsýn inn í líf mitt sem umhverfissjúklings og brotabrot af baráttu minni við heilbrigðiskerfið okkar, sem oftar en ekki lendir í lokuðum enda blindgötu.


Ég sendi erindi til Landlæknisembættisins í gegnum kerfið þeirra þann 17. október 2018 þ.e. fyrir tæpum tveimur árum síðan. Þann sama dag sendi ég afrit af því til Óskars Reykdalssonar framkvæmdastjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (og það afrit er hér með, ég á enga kvittun um það sent er í gegnum kerfi Landlæknisembættisins).


Ég ítrekaði erindi mitt í síma í nóvember og desember 2018 og bréflega í janúar 2019. Mig minnir að ég hafi síðan hringt einu sinni síðar árið 2019 en ekkert síðan. Síðan þá hef ég ekkert heyrt. Þangað til 28. september sl. sem ég fékk óvænt svar frá Landlæknisembættinu. Þá voru næstum liðin tvö ár frá upphaflega erindinu.


Mig langar í þessu sambandi segja að ég gef lítið fyrir vinnubrögð og samskipti Landlæknisembættisins í þessu máli og í mínum bókum myndi þetta vera kallað ljótum nöfnum, sem ekki verða sett á blað. Allavega er ekki að sjá að þetta séu uppbyggjandi og falleg samskipti við alvarlega veikan einstakling út í bæ.


Erindi sent til Landlæknisembættis 17. október 2018


mið., 17. okt. 2018 kl. 14:28 skrifaði Guðdbjörg Pétursdóttir <guggap57@gmail.com>:


(Hér á eftir er afrit sem sent var á Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og ég vil taka það fram að hann hringdi í mig samdægurs en það var út af öðru máli og þetta efni eingöngu sent honum til upplýsingar)


Var að senda bréf með fyrirspurnum á Landlæknisembættið rétt í þessu og ákvað að senda þér afrit af því:


Ég stríði við heilsuvandamál sem skerða lífsgæði mín það mikið að flesta daga á ég erfitt með að annast sjálfa mig og líf mitt í dag líkist ekki því sem fólk kallar líf. Eða líf eins og ég átti fyrir 10 árum síðan, þegar ég var athafnasamur dugnaðarforkur og þekkt fyrir kraftmikla framgöngu í verkum mínum.


Ég hef alltaf verið viðkvæm fyrir umhverfinu en lærði smátt og smátt að lifa við það. Aðallega með því að gera alls konar breytingar á lífstíl, hreyfingu og mataræði. Oftast náði ég ágætisárangri, en síðustu árin í framhaldi af sambúð við myglu fór ég að þróa akút og króníska sjúkdóma með alls konar einkennum sem tryllast í hvers konar umhverfismengun.

Ég lenti endurtekið í myglu, fyrst árið 2008, síðan 2011 og svo síðast í Heilbrigðisráðuneytinu 2014, þar sem ég starfaði dag og dag í tengslum við verkefni. Ég varð að hætta að vinna í því verkefni í ágúst 2014 og hef ekki unnið síðan. Ég hef tvisvar þurft að losa mig við alla búslóð og byrja upp á nýtt.


Ég er í dag 61 árs öryrki (síðan 2015) með langvinna lungnateppu, lamaða þind vinstra megin, sykursýki 2, er í ofþyngd og gengur illa að meðhöndla sykursýkina, stoðkerfisvanda, slit og þrengingar í mænuvegg, kæfisvefn, ME/síþreytu og/eða vefjagigt, auk of hás blóðþrýstings. Tvær skurðaðgerðir fyrst bakaðgerð vegna þrengsla í mænuvegg og síðar akút gallblöðrunám. Hef tvisvar farið í endurhæfingu, einu sinni í Hveragerði eftir gallblöðrunámið og síðar á Reykjalund í kjölfar lungnateppugreiningar. Á báðum stöðum er mygla og óþarflega mikil umhverfismengun.


Ég hef aldrei verið mikið fyrir að taka inn lyf og alltaf valið heilsusamlegri leiðir til lausna. Nú sit ég uppi með að geta lítið hreyft mig, tek daglega inn þrenns konar sykursýkislyf (Victoza, Lantus og Janumed), tvenns konar innöndunarlyf (Spiriva respimat og Seretide diskus), magasýrulyf (Esomeprazol Kirka), þrenns konar blóðþrýstings- og hjartalyf (Cozar Comp Forte, Seloken Zoc og Spiron) og verkjalyf eftir þörfum - ekki daglega (Tramadol).

Auk myglu er allt efnaáreiti eins og ilmefni, hreinlætisvörur, loftmengun, byggingarefni, rokgjörn efni, ryk, rafsviðsmengun og lyfin valda því að ég get ekki búið mér til mannsæmandi líf. Kerfið mitt virðist hafa tínt hæfileikanum til að vinna með mér í lausninni. Mér líður eins og ég sé hægt og rólega að deyja innan frá vegna áreitis sem kemur utan frá og ég get lítið stjórnað. Heilsugæslan mín sinnir ágætlega eftirliti með krónísku sjúkdómunum mínum, fer í mánaðarlegar blóðprufur og hitti lækni mánaðarlega. Auk þess fer ég reglulega til hjartasérfræðings og er í reglulegu (en mjög lélegu eftirliti) á göngudeild sykursjúkra. Ég hef ekki hitt lungnasérfræðing lengi en þyrfti sjálfsagt að bæta úr því.

Ég tel að heilsuvandamál mín megi kalla lífstílssjúkdóma og megi rekja að stórum hluta til eiturefnaáhrifa úr umhverfinu. Áhrifa sem hafa valdið mér vanda alla ævi og nú síðustu árin sett heilsu mína út á jaðar lífsins. Efnaáreiti hvers konar eins og ilmefni, þvottarefni, mýkingarefni, hreinlætisvörur, byggingarefni, rokgjörn efni, bensín og olía, prentsverta, pappír, loftmengunar og rafsviðsmengun, Get lítið hreyft mig, ekki farið í sund (sem ég elska), ekki gengið, helst ekki verið innan um fólk, á erfitt með að sinna einföldum erindum eins og að versla inn og heimili mitt veitir mér ekki skjól fyrir loftefnum sem berast inn um gluggana.


Á þriðjudaginn í síðustu viku versnaði mér mjög, ofurþreyta, mæði og hálfgert meðvitundarleysis mók tók yfir og var verst á föstudagskvöldið. Rénaði síðan hægt og rólega og er að skána í dag en er samt ennþá slæm. Í gær hefði ég ekki getað skrifað þennan texta.

Ég fór á vaktina í Mosó á mánudaginn (læknirinn minn er í fríi), var send í blóðrannsókn en fæ ekki niðurstöður fyrr en á föstudaginn vegna þess að það er enginn laus símatími hjá lækni fyrr en þá. Ég tjáði lækninum að það væri greinilega óvanalega mikil mengun í andrúmsloftinu, frá Hellisheiðavirkjun og jafnvel í bland við svifryksmengun sem væri að valda þessari auknu vanlíðan. Hann horfði á mig eins og ég væri fáviti.


Ég átti langt samtal við Þorstein Jóhannsson hjá Umhverfisstofnun í gær og ræddi við hann um loftgæði almennt og undanfarna daga. Hann stað festi að í tvo daga í síðustu viku - þriðjudag og miðvikudag hefði Brennisteinsvetni frá Hellisheiðavirkjun verið yfir heilsumörkum og slíkt myndi örugglega valda einkennum fyrir fólk með lungnavanda.

Ég innti hann eftir því hvort ekki væri eitthvað kerfi sem sæi um að tilkynna þetta til LSH, bráðamóttöku og heilsugæslustöðva svo menn gætu verið á varðbergi. Hann sagði að það væri eiginlega frekar á sviði Landlæknisembættisins að gera það. Auk þess sagði hann að heilsugæslulæknar almennt væri ekki mjög meðvitaðir um loftgæði og áhrif þess á heilsu.

Jafnframt væri ákveðinn vandi í þessu sambandi, því þótt vel þekkt væru áhrif af mikilli eitrun brennisteinsvetnis á líf og hvernig slíkt drægi fólk til dauða, væri ekki búið að rannsaka nóg áhrif af langvarandi lítilli eitrun af brennisteinsvetni í lofti. Og einnig þyrfti að rannsaka hvernig blanda af loftmengandi efnum s.s. brennisteinsvetni, svifryki og niturefnum. Þar sem við erum eina landið í heiminum með slíkar loftefnablöndur í daglegu lífi þurfum við að rannsaka þessi áhrif sjálf. Við getum ekki stólað á rannsóknir stóru þjóðanna.

Það er óviðundandi að við sem státum af og seljum öðrum þjóðum hugmyndina um hreina náttúru og hreint loft séum orðin svo menguð að það valdi heilbrigðu og athafnasömu fólki í blóma lífsins óafturkræfum sjúkdómum, sem kippir þeim út úr lífi sínu heilbrigðiskerfið býður ekki upp á leið til baka.


Við virðumst þó ná betri heilsu með því að dvelja í sól á erlendri grundu. Sem er náttúrulega írónískt í ljósi hreina loftsins og náttúrunnar hér á landi. Eina sem hefur gert mér gott í þessu ferli var vika á Tenerife haustið 2017, tvær vikur í detoxi í Póllandi haustið 2017, 9 daga ferð til Tenerife sl. vor - og það stórkostlega gerðist að blóðsykurinn jafnaði sig nokkurn veginn á þessum tíma. Með hjálp lyfjanna þó. Um leið og ég kom heim fór allt úr skorðum. Þetta segir mér að það sé eitthvað í loftinu hér á landi sem triggerar heila- og taugaskilaboð og sendir út boð sem hamlar eðlilegri líkamsstarfsemi.


Í framhaldi af þessu langar mig að spyrja um eftirfarandi:

  1. Hvert get ég leitað í heilbrigðiskerfinu til að fá betri heilbrigðisþjónustu varðandi mína sjúkdómsþróun? Heilsugæslan virðist ekki hafa þekkingu til að beina mér á réttar brautir. Ég tel að það hljóti að vera til þekking hérlendis eða erlendis þar sem hægt er að gera rannsóknir á heilsu minni og hjálpa mér til að ná heilsu aftur.

  2. Er fyrirhugað að gera frekari úttektir og rannsóknir á áhrifum umhverfisefnaeitrunar á líf og heilsu hér á landi og taka ábyrgð á þeim áhrifum í sambandi við lífsstílssjúkdóma?

  3. Við fáum stöðugt fréttir af myglu alls staðar og að fólk fari í veikindaleyfi. Það er vaxandi hópur fólks í landinu sem fær ekki viðunandi þjónustu og þróar hægt og rólega ólæknandi sjúkdóma ásamt ofurnæmi fyrir umhverfinu (MCS eða fjölefnaóþol) Er verið að halda utan um þennan hóp og fylgjast með því hvort hann nær heilsu aftur?

  4. Stendur til að búa til og bjóða upp á einhvers konar heilbrigðis- og endurhæfingartilboð fyrir fólk sem er í svipaðri stöðu og ég?

Í von um skjót og góð svör

Bestu kveðjur

Guðbjörg


--------------------------------------


From: Guðdbjörg Pétursdóttir <guggap57@gmail.com> Date: fim., 24. jan. 2019 kl. 11:48 Subject: Re: Erindi To: <mottaka@landlaeknir.is>


Hjálagt er bréf sem ég sendi Landlæknisembættinu þann 17. október á síðasta ári. Ég hringdi síðan í nóvember eða desember til að afla upplýsinga um stöðu málsins. Þá var mér tjáð af símaþjónustunni að málið væri í afgreiðslu og það væri á nokkrum borðum. Nú hef ég beðið í þrjá mánuði rúma og ekkert heyrt. Ekki einu sinni fengið staðfestingu á móttöku erindis míns, í hvers konar farvegi það væri eða hvenær ég megi búast við afgreiðslu.

Það hafa orðið ýmsar breytingar á mínum högum síðan ég hafði samband við ykkur. Ég hef þurft að bregðast við og er komin með nýtt netfang guggap57@gmail.com og nýtt símanúmer 897 9833. Vinsamlega breytið því í ykkar skrám.


Þætti vænt um að heyra eitthvað frá ykkur áður en ég kveð alveg þessa tilvist. Allavega staðfestingu á hvenær ég má búast við einhverjum viðbrögðum eða svörum. Ég skil að það er mikið að gera hjá stofnuninni en bjóst ekki við að ég þyrfti að bíða meira en ársfjórðung eftir einhverjum viðbrögðum.


Bestu kveðjur

Guðbjörg Pétursdóttir

kt. 270557-5979

sími: 897 9833


----------------------------------


netfang: guggap57@gmail.com

Frá: Ásdís Þórbjarnardóttir <asdisth@landlaeknir.is> Date: mán., 28. sep. 2020 kl. 16:35 Subject: Frá embætti landlæknis vegna fyrirspurnar af vef To: Guðdbjörg Pétursdóttir <guggap57@gmail.com>


Sæl Guðbjörg


Embætti landlæknis þakkar þér aðsent erindi og biðjumst við velvirðingar á hve lengi hefur dregist að svara erindi þínu.


Það leitt að heyra hve heilsufar þitt er bágborið og ég vildi óska að ég ætti einhverjar lausnir fyrir þig.


Svör við spurningum þínum:

  • Heilsugæslan á að vera það kerfi sem á að grípa þig og leiðbeina þér hvað varðar möguleika að fá víðtækari þjónustu eða rannsóknir td hjá öndunarfærasérfræðingi

  • Varðandi nýjar úttektir eða rannsóknir hef ég engar upplýsingar.

  • Ég veit ekki til þess að sérstakt utanumhald sé með einstaklingum sem eru með ofurnæmi fyrir umhverfinu af hálfu heilbrigðisyfirvalda. Ég sé á netinu að til eru samtökin SUM / samtök um áhrif umhverfis á heilsu og þar er ýmislegt efni að finna.

  • Ég hef ekki heyrt um sérstök heilbrigðis- og endurhæfingartilboð fyrir einstaklinga sem eiga við ofurnæmi að stríða. Allir eiga rétt á endurhæfingu ef talið er að það bæti líðan og getu. Það er í höndum heilsugæslulæknis eða meðferðarlæknis að sækja um slíkt.

Gangi þér vel.

Með góðri kveðju, Ásdís


Ásdís Þórbjarnardóttir

hjúkrunar- og lýðheilsufræðingur

teymisstjóri á sviði eftirlits og gæða heilbrigðisþjónustu

Comments


bottom of page