Nafnlaus reynslusaga þolanda sem býr við verulega skert lífsgæði vegna umhverfisáreitis eftir að hafa starfað rúm níu ár í húsnæði með raka og myglu sem hún tengdi of seint við síhrakandi heilsufar.
Myndin er fengin úr myndabanka og tengist frásögninni ekki beint.
Ég var að vinna í virtu fyrirtæki í stórglæsilegu húsi, starfsemin í húsinu var búin að vera í sex ár. Húsnæðið var bjart þar sem gluggar voru stórir og gólf klætt marmara og parketi enda ekkert til sparað.
Á minni starfsstöð var nýbúið að laga parketið sem hafði farið á hreyfingu eins og á mörgum öðrum hæðum í húsinu og sögðu starfsfélagar að það hefði verið brekka á miðjum gangvegi í skrifstofurýminu.
Eftir árið var ég farin að finna fyrir veikindum sem ég sé í dag eru óyggjandi umhverfiseinkenni (myglueinkenni). Samstarfsfólk var sumt hvert með alls konar kvilla „smáa sem stóra“ eins og þurr augu, síþreytu, mígreni - og flensu fengu nánast allir.
Mötuneytið var stórglæsilegt og töluðu flestir um að það væri orsök þess að fólk bætti á sig kílóum. Ég stundaði hreyfingu og heilbrigt líferni en það var ekki að hjálpa til með orkubúskapinn eða hressti mig við. Ég var alltaf með munnþurrk, þurran hósta og var komin með króníska kinnholusýkingu og hálsbólgu. Það náði hæstu hæðum tveimur árum síðar í World Class Laugum þegar ég hneig niður, líkaminn var eins og blý, ég gat ekki hreyft mig og tilfinningin var eins og ég væri að fjara út. Ég var borin út í sjúkrabíl, þetta var mín fyrsta ferð á ævinni í sjúkrabíl og bráðamóttöku, en var ekki sú síðasta. Ég var rannsökuð en engin niðurstaða, mátturinn kom smám saman aftur og ég var send heim án þess að vita hvað væri að mér. Ég var frá í nokkrar vikur þar sem eftirköstin voru svimi, máttleysi, mæði, brjóstverkur og óútskýrðir verkir hér og þar um allan líkama.
Það tók nokkrar tilraunir að mæta í vinnuna eftir veikindin þar sem sviminn kom alltaf aftur þegar ég gekk inn í anddyrið, en það tókst eftir nokkur skipti.
Eftir þrjú ár var ég enn að reyna að halda heilsunni góðri með göngu, æfingum, notaði heilsuplástra og heilsusamlegar vörur. Ég fór oft til lækna á þessu tímabili bæði heimilislæknis eða náttúrulækna, fór reglulega í nálastungur en það kom ekki í veg fyrir flensueinkenni, þróttleysi, óútskýrða verki í hjarta, hjartaóreglu, hraðan hjartslátt, háan blóðþrýsting, augnþurrk, svima, þyngdaraukningu, bjúg og var farin að finna fyrir rafmagnsóþoli. Svimi var mjög ágengur og kom að því að ég missti jafnvægi í stiga og það var í annað sinn sem ég fór með sjúkrabíl á bráðamóttökuna. Ég passaði mig að láta þetta ekki hafa áhrif á vinnuna mína enda alin upp við að harka af mér.
Eftir fimm ár var ég farin að taka eftir að heilsan var alltaf verst á vorin en var mjög oft með kvef, nefstíflu, hraðan hjartslátt, svima, dofa, óútskýrða verki, bólgna tungu, háan blóðþrýsting, mikla höfuðverki, verki í hnakka og hálsi. Einnig gat ég ekki lengur fengið lit á augabrúnir, það ýtti undir sár á eftir, og síðan missti ég augnhárin og eftir voru skallablettir þar til hárin komu aftur. Það kom fyrir að ég fór á slysó eða á vaktina beint eftir vinnu, þar sem ég átti stundum erfitt með andardrátt og eða hjartslátt sem var allt of hraður. Heilsan var að versna og að auki bættust við þrjú áföll, það var bara að harka þetta af mér.
Eftir átta ár fannst hnútur í eggjastokki sem var skorinn burt og enn bættust við ný einkenni eins og heilaþoka og magaverkir og sérstaklega eftir mat sem leiddi af sér uppköst. Einnig kom annað áfall sem ég átti greinilega erfitt með að höndla, þegar það helltist yfir mig einn morguninn í vinnunni að varirnar dofnuðu, ég var með hraðan hjartslátt og var að missa mátt í líkamanum. Ég hafði samband strax við lækni sem greindi mig á barmi taugaáfalls og sendi mig samstundis í veikindaleyfi í sex vikur.
Ég áttaði mig ekki á því að á sama tíma var verið að hrófla í myglu og gró sem fannst í húsnæðinu (viðgerðir) sem hefur óyggjandi áhrif á taugakerfið.
Ég var á þessum vinnustað í rúm níu ár en ég var ekki að átta mig á þessum veikindum fyrr en fyrir nokkrum mánuðum að þau voru vegna myglu og gróa. Það var þannig tilkomið að vinkona mín veikist illilega vegna myglu og gróa á heimili sínu. Einkennin hennar voru eins og mín, það var til þess að ég fór að skoða þetta betur og komst að því að sumar tegundir myglu eru verri en aðrar og grunaði að versta tegund væri á vinnustaðnum. Ég bað um niðurstöður af sýnum af vinnustaðnum, en var hafnað og var sagt að það hefði verið kokteill af ýmsu tegundum. Ég leitaði til hjúkrunarfræðings í fyrirtækinu sem var ráðalaus en vísaði mér á hjúkrunarfræðing utan fyrirtækisins sem þekkti til veikinda vegna þessara aðstæðna. Það var mikil hjálp sem ég bý enn að í dag.
Eftir að ég hætti fór ég í ítarlegri rannsóknir og kom þá í ljós að ég var með brot í öndun, er með krónískan astma, ofnæmi fyrir ýmsu m.a myglu og gróum, er komin með efnaóþol, kæfisvefn, bakflæði, rugl í hormónakerfinu. Einnig voru komnar tannskemmdir á sérstökum stöðum. Eina sjúkdómsgreiningin áður en ég byrjaði á þessum stað var Hasimoto (vanvirkur skjaldkirtill) og voru læknar duglegir að kenna honum um þessi einkenni.
Ef ég fer á staði þar sem er mengun af myglu og gróum þá fæ ég sömu einkenni eins og voru í þessu húsnæði en það hefur bæst við að ég er orðin mjög viðkvæm fyrir brennisteinsvetni en þegar mikið af því er í andrúmsloftinu þá virkar líkaminn eins og lamaður, það er varla að ég geti talað.
Ég hef dæmi; Þegar ég ætlaði á Þorlákshöfn, andardrátturinn versnaði eftir því sem ég nálgaðist staðinn, einnig var orkan í líkamanum verri. Það var snúið við á Þorlákshöfn og beint á bráðamóttöku þar sem ég endaði hangandi í hjólastól. Ekkert fannst að mér og engin niðurstaða úr rannsóknum og var send heim þegar mátturinn í líkamanum var nánast kominn. En á sama tíma og ég fór austur þá hækkaði magn brennisteinsvetnis úr hófi samkvæmt mælingum.
Ég held áfram að leita að betri heilsu, andlegri og líkamlegri. Besta lækningin mín er að vera dugleg að hlusta á líkamann og bregðast við og forðast húsnæði sem ekki er heilbrigt fyrir mig. Ég hef fundið fyrir tímabundnum bata á Spáni, andrúmsloftið, hitinn og rakinn er að gera mér gott og þegar ég kem heim er ég með meira þol fyrir áreiti af umhverfismengun, en veikist aftur smám saman.
Í dag vill fyrrverandi vinnuveitandinn minn ekki bera ábyrgð á skaðanum sem ég varð fyrir í húsnæðinu, enginn læknir vill skrifa upp á að ég hafi orðið fyrir tjóni vegna húsnæðisins.
Kerfið er ekki að bregðast við eftirköstum umhvefismengunar eins og við öðrum sjúkdómum sem eru viðurkenndir.
Comments