top of page
Search

Ég tengdi þetta allt við krabbameinsmeðferðina

Nafnlaus reynslusaga þolanda með varanlegan heilsuskaða eftir raka og myglu á vinnustað.


Myndin er fengin úr myndabanka og tengist frásögninni ekki beint.


Ég vann í húsnæði í 10 ár sem var svo illa farið af rakaskemmdum og myglu að ákveðið var að flytja fyrirtækið úr húsinu á endanum og til stendur að rífa það.


Ég fór fljótt að finna fyrir þreytu í vinnunninni eftir að ég byrjaði en hristi það af mér og skrifaði það á aukið álag. Fleiri einkenni bættust við yfir árin eins og excem, asmi, fótapirringur, þrálátar kinnholusýkingar, minni einbeiting, meltingavandamál, lungnabólga, var með verki í líkamanum, ég átti erfitt með svefn og almenn veikindi jukust.


Ég tengdi þessi einkenni ekki við húsnæðið þar sem að það leit allt svo vel út og ég hafði litla þekkingu á rakaskemmdum og myglu.

Ég greindist með brjóstakrabbamein 2014 og tók mér frí frá vinnu í rúmlega hálft ár. Þegar ég mætti aftur til vinnu var ég með bælt ónæmiskerfi eftir lyfjameðferð og ég átti mjög erfitt með að jafna mig og krabbameinslæknirinn minn undraðist hversu hægt bataferlið mitt var. Mikið af fyrri „myglu“ einkennum sem hurfu í veikindaleyfinu komu til baka af miklum krafti og ég fékk mikið bakslag heilsufarslega séð. Ég tengdi þetta allt við krabbameinsmeðferðina en krabbameinslæknirinn minn var hugsi yfir stöðunni. Á svipuðum tíma kom upp í vinnunni að rakaskemmdir og mygla væru í húsnæðinu og ég ásamt nokkrum starfsmönnum vorum flutt úr húsnæðinu.


Mér fór að líða mun betur eftir að ég flutti úr húsnæðinu en náði mér þó ekki alveg og fékk alltaf bakslag við að fara í gamla húsnæðið, hitta fólk sem kom þaðan eða umgangast pappír eða dót þaðan. Húsnæðið var á endanum dæmt ónýtt og öll stafsemi flutt í annað húsnæði. Ég vann meira og minna heima í 2 ár og fékk alltaf mikið bakslag þegar ég fór í húsnæði með rakaskemmdum og myglu.


Nýja húsnæðið átti að vera tipp topp og ekkert af dóti úr gamla húsnæðinu að vera tekið með. Það var svo gefinn afsláttur af því og einhver málverk þrifin og tekin inn ásamt einhverjum skrifstofubúnaði. Ég fékk mikil viðbrögð af þessum hlutum og hægt og rólega dró af mér heilsufarlega. Á endanum fannst mér ég vera hætt að geta sinnt starfi mínu og hætti að lokum.


Í dag er ég mjög viðkvæm fyrir umhverfinu, get ekki verið í rakaskemmdum húsum og þoli ekki ilmefni eða útgufun af nýjum hlutum. Ég þjáist af síþreytu, er oft verkjuð í líkamanum, með mikið mataróþol, gjörn á að fá öndunafærasýkingar, með asma sem kemur og fer, á erfitt með einbeingu, er mjög viðkvæm í meltingafærunum, á erfitt með líkamlega áreynslu, er gjörn á að fá hita og oft með flensulík einkenni, á stundum erfitt með að muna hluti, þoli illa áreiti og álag og gjörn á að fá útbrot og exem. Þetta er ekki tæmandi listi.


Í dag lifi ég við mjög skert lífsgæði og þarf stöðugt að vera vakandi fyrir umhverfinu.

Ég er félagslega einangruð og hef takmarkaða atvinnumöguleika þar sem ég þoli ekki að vera í rakaksemmdum húsnæðum né í kringum fólk sem býr eða vinnur í rakakskemmdum húsnæðum. Ég á mjög erfitt með að koma inn á Landsspítalann og verð veik í langan tíma eftir að fara þar inn svo það eitt ógnar heilsu minni.


Ég sé ekki fram á að jafna mig nokkurn tímann alveg eftir að hafa unnið í mjög óheilnæmu húsi en vonast til að vitundaaukning í samfélaginu skili sér í heilnæmari húsum fyrir okkur öll.

Comments

Couldn’t Load Comments
It looks like there was a technical problem. Try reconnecting or refreshing the page.
bottom of page