Reynslusaga Jóhönnu Torsteinsdóttur frá Danmörku. Hún treysti orðum smiða með slæmum afleiðingum og fékk enga áheyrn frá leigusala þrátt fyrir myglumælingar frá bæjarfélaginu.
Myndin er fengin úr myndabanka og tengist frásögninni ekki beint.
Mín saga er örugglega lík mörgum hérna, flókin, skuggalega stutt og með hrikalega stórum afleiðingum.
Ég ætla að reyna að koma þessu öllu frá mér skiljanlega, en finn að þetta er svo umfangsmikil saga að það verður alveg pínu flókið.
Ég og kærastinn minn fluttum úr íbúðinni okkar fyrir 10 mánuðum síðan. Ég bjó þar í 1.5 ár, hann í 4 ár. Við búum í Aarhus í Danmörku þannig úrræðin eru örlítið öðruvísi heldur en á Íslandi.
Smá forsaga um okkur parið. Ég er með áfallastreituröskun eftir ofbeldissamband og áralanga baráttu við TR og ADHD sem er mjög seint greint. Kærastinn minn er með sjaldgæfann bandvefssjúkdóm sem getur verið mjög sársaukafullur og gefið háan hita og lið og beinverki án þess að sýking sé til staðar.
Þegar við byrjuðum að deita fór ég að taka eftir því að ég byrjaði að fá útbrot eftir að hafa verið í heimsókn hjá honum, en ég pældi ekki mikið í því, ég var nýlega búin að ganga í gegnum mjög mörg alvarleg áföll sem útleysti áfallastreituröskun og taldi það gæti alveg jafn vel haft tengingu við það.
Ég gisti að sjálfsögðu heima hjá honum reglulega, í íbúðinni sem varð seinna okkar sameiginlega heimili. Hann kom líka heim til mín stundum. Það sem var svo áberandi varðandi andlegu hliðina þegar ég horfi til baka er að ég varð mun oftar sár og uppstökk yfir hlutum sem ég hef annars aldrei kippt mér upp við. Það sem var svo merkilegt var að ég var aldrei uppstökk yfir þessum hlutum þegar hann var í heimsókn hjá mér. Þarna tengdi ég þetta enn við áfallastreituröskunina, þar sem ég hélt einfaldlega að ég upplifði mig öruggari í eigin umhverfi.
Ég flutti svo inn til kærastans míns í maí 2018 með engum fyrirvara þar sem ofbeldismaður minn flutti í bæinn sem ég bjó í og ég upplifði mig ekki örugga lengur. Ég var á lokametrunum með menntunina mína sem rennismiður og var á leiðinni í sveinspróf fyrir jól það ár. Við byrjuðum að þræta mun meira eiginlega um leið, en tengdum það svosem líka bara við nýjar aðstæður, við erum bæði týpur sem stressast auðveldlega við stórar breytingar.
Þetta sumar fengum við nýja glugga í svefnherbergið okkar. En gluggarnir voru orðnir mjög óþéttir og viðurinn fúinn.
Kærastinn minn tók eftir að það var allt svart inní veggnum þegar gluggarnir voru teknir út, og nýju gluggarnir settir í. Smiðirnir fullvissuðu okkur um að það væri allt eðlilegt þarna inni og ekkert að hafa áhyggjur af. Nýju gluggarnir voru settir í og við trúðum þessum smiðum því miður.
Kærastinn minn er þarna byrjaður að kvarta mjög mikið yfir liðverkjum og vefjaverkjum, liðirnir brennandi heitir og hann oft með hita og mígreni. Um haustið endar hann í 5-6 vikna veikindaleyfi frá vinnu þar sem hann er hreinlega í erfiðleikum við að lyfta mjólkurfernu vegna máttleysis.
Ég er þarna mjög þreytt andlega, búin að lenda í mjög erfiðum áfallastreitu einkennum, tek reglulega skapofsaköst á kærastann minn, við rifumst alveg tímunum saman um einfalda hluti sem við einfaldlega vorum ekki í standi til að geta leyst úr vegna andlegrar örmögnunar.
Húðin í andlitinu mínu hélt áfram að versna stigmagnandi, ég var með opin sár í andlitinu öllum stundum, ég notaði bara bestu andlitsvörurnar, sem hjálpaði vissulega, en hélt samt áfram að versna og versna. Ég hætti líka að þola venjuleg þvottaefni, það þurfti allt að vera án ilmefna og þar sem það var sameiginleg þvottavél í kjallaranum sem maður deildi með hinum 3 íbúðunum í stigaganginum þvoði ég allt í vissri röð þannig að það sem ég þvoði í fyrstu vél var hvorki handklæði eða nærföt þar sem ég endaði alltaf í leiðinlegum húðvandamálum ef svo var.
Kærastinn minn fór aftur til vinnu eftir margar vikur í veikindaleyfi og kom alltaf mjög hress heim úr vinnunni, en varð svo mjög sinnulaus fljótlega eftir að hann kom heim. Ég byrjaði líka að vera óörugg og afbrýðisöm þar sem hann var alltaf miklu hressari þegar hann var úti með vinum en þegar hann var heima með mér.
Í kringum hátíðarnar 2018 kom svo upp leki frá efri hæðinni í eldhúsinu, sem var hinumegin í íbúðinni, semsagt ekki þar sem við fengum nýja glugga um sumarið. Það byrjaði að flæða gegnum rafmagnsdósina í eldhúsloftinu og í gegnum vegginn sem var á milli eldhúss og baðherbergis. Þarna var nýbúið að gera við rafmagnstöfluna í íbúðinni þar sem það var spennuvandamál sem hefði getað gefið okkur straum í sturtunni sem hefði hreinlega getað drepið okkur.
Við hringdum í leigusalann sem þarna var eflaust byrjuð að glíma við elliglöp. Hún var erlendis og við þurftum að finna sjálf fagfólk á sólarhringsvakt sem gat komið strax og farið inní íbúðina hjá fólkinu uppi. Það var AirBnb íbúð og leigjandinn bjó í hinum enda Danmerkur þannig hann var aldrei í íbúðinni sjálfur. Hann hafði sett litla borðuppþvottavél inní einn skápinn í íbúðinni sem lak bara örlítið og hafði örugglega gert lengi þar sem þetta var alveg svakalegt magn af vatni sem kom útúr veggjunum hjá okkur.
Það var komið með svona þurrkara græju sem átti að vera kveikt á í einhverjar vikur. Og þar sem rakastigið mældist fínt í veggjunum eftir það vildi leigusalinn meina að það væri ekkert að og engin merki um myglu. Þarna byrjuðu þræturnar við leigusalann um mögulega myglu. Hún neitaði hreinlega að láta mæla fyrir myglu. Og elliglöp virka oft þannig að þegar fólk hefur ákveðið eitthvað eru engin rök sem fá þau til að skipta um skoðun. Sama hversu sannfærandi þau eru.
Ég byrjaði að verða þreyttari og þreyttari, ég byrjaði líka að fá ágerandi astmaeinkenni. Ég hef farið mikið út að hlaupa í tómstundum mínum sem var stór liður í bættri líðan með tilliti til áfallastreituröskunarinnar, en hætti að geta það þar sem ég endaði oftar og oftar með sára andnauð útí bæ og þurfti að berjast við að labba heim.
Afneitunin var samt ennþá mjög sterk fyrir að heimilið mitt væri að gera mér þetta, ég tengdi þetta bara við mikla umferðarmengun þar sem ég bý í stórborg og þetta var nú í miðbænum.
Kærastinn minn er búin að glíma við yfirþyngd allt sitt fullorðinslíf og á þeim tímapunkti sem ég kynntist honum var hann búinn að léttast þó nokkuð og gekk mjög vel. En þarna var það orðið þannig að alveg sama hvað hann gerði, ekkert virtist virka, hann bætti bara og bætti á sig og varð þreyttari og þreyttari. Ég var farin að hafa miklar áhyggjur af honum þar sem yfirþyngdin var farin að verða alveg hættulega mikil. Húðin hans byrjaði líka að verða leiðinleg og hann fékk meðal annars stórt graftarkýli í öxlina sem þurfti lyf til að vinna á.
Mér var alltaf mjög kalt, það var alveg sama hvað ég hækkaði mikið á hitanum, það var aldrei nóg og það versnaði bara. Á sama tíma var kærastanum mínum alltaf mjög heitt og alltaf þvalur og mjög oft með hita. Þar sem sjúkdómurinn hans getur leitt til hita án sýkingar tengdi hann það skiljanlega við það. En þarna var hann hins vegar farinn að svitna mun meira en í byrjun sambands okkar þegar hann svaf, sem mér fannst alveg pínu undarlegt.
Ég kláraði sveinsprófið mitt og kláraði samning og fékk svo vinnu sem sveinn í apríl 2019. Þar var mjög lélegt vinnuumhverfi og þreyta og astmi vegna myglunnar var klárlega ekki að hjálpa mér að höndla það. Ég var alltaf þreytt, húðin var rosalega slæm, ég gat ekki hlaupið lengur, ég var aldrei úthvíld, ég mætti ekki á staði þar sem ég átti að vera þar sem ég hreinlega gleymdi því, það tók mig alveg 5-6 tíma að koma mér útúr húsi þar sem ég var svo utan við mig og rænulaus að ég gekk bara um í hálfgerðu móki.
Um sumarið fórum við svo saman á tónlistarhátíð í Tékklandi sem endaði á að vera mjög erfið fyrir mig, ég endaði á að fara á hótelið til að hvíla mig snemma á föstudeginum og á laugardeginum fór ég hreinlega ekki með heldur var á hótelinu mest allan daginn þar sem ég var orðin svo örmögnuð að ég höndlaði hreinlega ekki að taka þátt, ég var við það að sofna allstaðar.
Í september í fyrra var ég svo rekin úr vinnunni minni þar sem ég hrundi af stressi og fór í veikindaleyfi. Ég var búin að vera ráðin það stutt að það var ekkert því til fyrirstöðu að reka mig frá degi til dags.
Þarna var ég orðin það slæm að mér var farið að sortna fyrir augum af þreytu og ég gat ekki einbeitt mér að neinu. Hjartslátturinn minn var orðinn mjög hægur og þungur og ég var hreinlega komin með sjóntruflanir þannig að umhverfið púlsaði með hjartslættinum. Mér fannst ég alltaf vera heitt í höfuðleðrinu og fannst ég aldrei ná að þvo hárið þar alveg hreint.
Ég lenti svo í því að fá eitthvað húðvesen undir tánöglina í október sem gerði það að verkum að hún flaug hálf af og það kom mikil sýking og ljótar bólgur. Ég fór í aðgerð útaf “inngróinni nögl” þar sem hluti af nöglinni var fjarlægð. Eftir þá aðgerð var ég látin hafa penicillin til þess að fyrirbyggja sýkingu eftirá. Ég fór í aðgerðina kl 8 um morguninn og ég var komin uppá bráðamóttöku fyrir hádegi í bráðaofnæmiskasti. Ég lá á bráðamóttökunni fram á kvöld með sýklalyf í æð og undir ströngu eftirliti. Mér leið mjög fljótt miklu betur af að vera þar en fór svo heim þar sem ég varð mjög fljótt þreytt aftur, þó með sýklalyf sem voru betri fyrir mig.
Ég hef alltaf getað þolað penicillin og ég hef fengið penicillin eftir að ég flutti úr íbúðinni án vandræða.
Þarna var mér hætt að standa á sama. Ég fór einn daginn á bókasafnið til þess að komast út úr húsi þar sem ég var farin að vera sannfærð um að þetta væri mygla sem væri að gera mig veika. Ég þurfti að hlaupa max 100m til þess að ná sporvagninum á bókasafnið og endaði þar með sársaukafulla andnauð í yfir hálftíma vegna þess og var illt í lungunum lengi eftirá. Þarna vissi ég að þetta væri mjög alvarlegt og ég var hágrátandi útí bæ leið yfir að geta ekki verið heima hjá mér. Ég var nú þegar búin að missa 2 heimili í röð útaf ofbeldinu sem ég lifði við þannig þetta var erfiður sannleikur að kyngja fyrir mig.
Ég skoðaði hvað væri hægt að gera í stöðunni og komst að því að ég gat haft samband við mitt bæjarfélag ef grunur væri um myglu. Ég var líka það heppin að ég gat fengið lánaðan sumarbústað hjá fjölskyldumeðlim kærastans míns. Það var keyrt í annan landshluta á hótel hjá flugvellinum til að fá lykil hjá frænda hans sem var að bíða eftir flugi til Saudi Arabiu þar sem hann býr og starfar.
Ég fór tvisvar inní íbúðina eftir þetta til þess að ná í föt og lyf. Bæði skiptin höfðu mikil áhrif á mig í formi þreytu og heilaþoku.
Fyrstu næturnar í sumarbústaðnum svitnaði ég mjög mikið, ég vaknaði alveg rennandi blaut og húðin varð útsteypt í bólum, sérstaklega á öxlunum, það var einsog líkaminn væri á yfirsnúning að hreinsa sig. Þetta gerðist þrátt fyrir einhver rakavandamál í þessum sumarbústað.
Kærastinn minn var hins vegar algjörlega í baklás og harðneitaði að yfirgefa íbúðina. Það var ekki fyrr en að ég neyddi hann hreinlega til að koma og búa í sumarbústaðnum með mér að hann kom, ég bara neitaði að keyra hann heim eftir að hann kom að hitta mig þar. Þarna vorum við farin að vera það ósátt að við vorum á barmi þess að slíta sambandinu okkar. En þegar hann loksins kom í sumarbústaðinn með mér fór hann gegnum það sama og ég, algjört svitabað um nóttina, líkaminn fór bara í nákvæmlega sömu hreinsun.
Ég beið í bílnum fyrir utan íbúðina á meðan maðurinn frá bæjarfélaginu fór inn og tók ryksýni sem var svo DNA-greint á rannsóknarstofu á þeirra vegum.
Við fengum svo niðurstöður mælinganna þegar við vorum í sumarbústaðnum. Skýrslan var mjög ítarleg og sýndi fram á hættulega há gildi af tveim tegundum myglusvepps, aspergillius og penicillin.
Það stóð líka að báðar tegundir eru tegundir sem myndast innaní veggjum og þess háttar, en myndast ekki vegna slæmrar útloftunar eða annarrar búsetuáhrifa. Þar hugsuðum við strax útí það sem við sáum þegar skipt var um glugga.
Það var lán í óláni að ég hafði stóran sigur gegn TR í nóvember þar sem ég var sú sem vann búsetuskerðingarmálið sem var mikið í fjölmiðlum í fyrra. Þar fékk ég greidda stóra fjárhæð út sem gerði það að verkum að ég gat keypt ný húsgögn fyrir okkur og greitt trygginguna á íbúðinni okkar. Án þess hefðum við verið stórskuldug í dag, en ég á heldur ekkert eftir af þeim pening í dag, en þetta voru einhverjar milljónir. Fyrr á árinu hafði ég fengið fyrri hluta þessarar endurgreiðslu frá TR en eitthvað af þeim pening var varið í hluti í gömlu íbúðina sem og föt sem ég svo þurfti að farga.
Leigusalinn okkar var þarna komin í söluferli, hún vildi ekki lengur eiga stigaganginn vegna aldurs síns. Við sögðum fasteignasalanum frá okkar aðstæðum, að við gátum ekki búið í íbúðinni lengur og því að leigusalinn okkar tók ekki skýrsluna frá bæjarfélaginu alvarlega, hún sá þetta sem eitthvað sem væri ekkert til þess að kippa sér upp við. Þarna sáum við hvernig elliglöpin höfðu áhrif á hennar túlkun á aðstæðunum. Þrátt fyrir mjög skýra skýrslu sem lýsti alvarleika málsins var hún ekki tilbúin í að viðurkenna vandamálið. Fasteignasalinn vildi að sjálfsögðu ekki eiga á hættu að fá á sig dómsmál vegna sölu á húsnæði í þessu ástandi með þessa nýju skýrslu þannig hann útvegaði arkitekt með reynslu á þessu sviði sem sá um málamiðlun og kom á samkomulagi þar sem leigusalinn greiddi fyrir að flutningafyrirtæki kom og pakkaði búslóðinni og flutti í nýju íbúðina okkar.
Flutningamennirnir fundu fyrir mjög slæmu andrúmslofti, þeir lýstu því einsog það væri svona sterkur matur á tungunni þeirra, eins og þeir væru alltaf með smá chili í munninum. Þetta er líka eitthvað sem ég hef fundið fyrir þegar ég hef farið í gegnum búslóðina til að sjá hvað hægt væri að bjarga og hverju þyrfti að farga.
Kærastinn minn og vinur okkar gerðu svo tilraun til að fara inní íbúðina eftir að við fluttum til að taka restina af dótinu okkar sem var hægt að bjarga, sem var svo ekkert hægt að bjarga, en enduðu á að þurfa að fara út eftir 10 mínútur. Þetta var víst einsog að labba á ósýnilegan vegg og þeir komu til baka lítandi út fyrir að vera fárveikir, dökkir kringum augun og þvoglumæltir. Ég fór og keypti einnota galla og andlitsgrímur fyrir þá sem gerði að verkum að þeir gátu farið inní íbúðina og farið yfir það sem var eftir. Það hjálpaði mikið með gallana en þá sveið mjög mikið í þá hluta andlitisins sem voru ekki varðir með galla og grímu.
Við vorum svo heppin að fá íbúðina okkar sem við búum í núna. Það þarf oftast að vera árum saman á biðlista eftir svona leiguíbúð þar sem við búum. Kærastinn minn var búinn að vera á biðlista hjá leigufélaginu í áratug og við fengum tilboð um þessa íbúð sömu viku sem ég fékk peninginn frá TR. Ég hef oft sagt að þetta var besti tíminn til að verða svona óheppin.
Núna 10 mánuðum síðar er ég búin að komast að því að ég glími við stórfellt minnistap, ég hef komist að viðburðum sem ég man bara alls ekki eftir, meðal annars að vinur kærasta míns hefur gist tvisvar í gömlu íbúðinni okkar án þess að ég geti fyrir mína litlu muni munað eftir því. Mér finnst líka allt tímabilið sem ég bjó þarna vera í einhverskonar móðu. Minnið mitt hefur annars verið mjög gott alla tíð, alveg þannig að tekið hefur verið eftir því. Ég hef komist að því að ég get ekki lengur verið með plöntur þar sem aspergillius sveppurinn er líka í mold og ég verð mjög þreytt og sinnulaus ef ég er nálægt pottaplöntum of lengi. Ég hef komist að því að ég verð mjög þreytt og fæ heilaþoku í húsnæði sem er smitað. Vinafólk mitt veit að þessvegna hef ég ekki þorað að heimsækja þau eftir að þau fluttu og ég fann ákveðna tilfinningu í hausnum mínum á flutningadeginum þar sem ég keyrði fyrir þau. Ég er orðin mjög viðkvæm fyrir umhverfisáreiti og höndla meðal annars illa mikið rafmagn. Þegar við fluttum ákváðum við að kaupa okkur rafmagnsrúm en ég komst að því að svefnvandamál sem ég glímdi við snarlagaðist við að slökkva alveg á því yfir nóttina. Ég vona innilega að ég geti starfað sem rennismiður þegar ég er orðin vinnufær aftur þar sem það er ástríðan mín og eiginlega það eina sem mig dreymir um að gera. En það starf inniheldur stórar vinnuvélar og róbóta og þess háttar. Ég eyddi líka alveg nokkrum mánuðum í að snýta gömlu ryki úr ennis og kinnholunum og er enn að eiga við stíflur í því kerfi.
Kærastinn minn finnur mjög lítið fyrir bandvefssjúkdómnum sínum eftir að við fluttum. Hann er líka búin að grennast um ca 20 kg án þess að hafa neitt sérstaklega fyrir því síðan við fluttum. Hann er orðinn orkumeiri og glaðari þó svo að stressið sé enn að hrjá hann eftir þennan rússíbana. Hans áhugamál er Warhammer sem hann hefur eytt ótrúlega stórum fjárhæðum í og allt það eru hlutir sem hægt er að hreinsa, en á meðan við vinnum okkur gegnum það er það allt geymt í loftþéttum kössum. Um leið og hann opnar kassa verður honum illt í liðunum og svíður í augun. Svo við tökum einn kassa í einu og hreinsum með mjög sterku sveppaefni sem fæst í byggingarvöruverslunum. Það er ekki til umræðu að farga þeim hluta af eigum hans þar sem það myndi rústa honum algjörlega andlega. Þannig sá hluti af okkar ferli verður bara að taka þann tíma sem hann tekur.
Ég er ennþá óvinnufær ári seinna, of mikið álag á líkamann vegna gömlu vinnunar minnar og örmögnunar vegna búsetu í þessari íbúð hefur leyst út verkjahrinu gegnum allan líkamann. Ég hef komist að því að ég er með hryggskekkju sem ég fann fyrst fyrir í þessu ferli þar sem líkaminn var orðinn það þreyttur að vöðvarnir fóru að vinna bandvitlaust, bæði útaf miklu líkamlegu álagi og þreytu.
Allt annað heilsufarslegt sem ég hef glímt við hefur verið stimplað á annaðhvort hryggskekkju eða andleg veikindi mín sem voru fyrir af öllum heilbrigðisaðilum. Það hefur enn ekki tekist að fá heilbrigðisstarfsmann til að viðurkenna tengsl myglusvepps við heilsu okkar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Það er bara horft flóttalega á mig og svo skipt um umræðuefni eða spurt hvað annað heilbrigðisstarfsfólk hefur sagt. Það virðist vera auðveldasta flóttaleiðin þar sem ég bæði hjá heimilislækni, á geðdeild, hef verið hjá kírópraktor og svo nú hjá sjúkraþjálfara.
Sambandið hjá mér og kærastanum mínum hefur batnað mjög mikið á þessum mánuðum þó svo við séum vissulega enn að vinna úr eftirköstum eftir þetta álag sem við gengum í gegnum. En margt hefur gerst og við erum bæði jákvæð fyrir framtíðinni og mjög þakklát fyrir að eiga hvort annað að.
Við gengum fyrir nokkrum vikum framhjá gamla stigaganginum okkar og sáum nýtt nafn á dyrabjöllunni. Það stakk í hjartað að sjá, en við bjuggumst svosem við því. Við vonum að eitthvað hafi verið gert til að minnka skaðann, en grunar samt að ekkert hafi verið gert heldur að nýr eigandi hafi bara leigt íbúðina út að nýju.
[Við fengum] myndir af niðurstöðunni frá DNA-[myglusveppa]greiningunni. Við enduðum í hærri enda gula svæðisins sem þýðir að það sé þörf á framkvæmdum til þess að ráða bótum á vandanum. Rauða svæðið þýðir að rýma þurfi húsnæðið og ráðast þurfi í stórar framkvæmdir til þess að finna rót vandans.
Comentarios