top of page
Search

Sniðganga ilmefni

Ilmefni eru í langflestum tilvikum kemísk manngerð efni, samsett úr fjölmörgum efnum og efnasamböndum og því áríðandi fyrir þau sem eru viðkvæm fyrir umhverfisáreiti að forðast ilmefnin eins og hægt er.


Mörg af þessum gerviilmefnum hafa verið talin og metin skaðleg heilsunni og þau eru í dag einn mesti kveikur umhverfiseinkenna og geta ýft upp umhverfisveikindi. Hundruðir þúsunda manna alls staðar um hinn vestræna heim glíma við svokallað fjölefnaóþol (MCS eða TILT) og eru ilmefni þar einn stærsti óþolsvakinn. Stór hópur þeirra sem veikst hafa vegna sambúðar við rakaskemmdir og myglu, glíma við fjölefnaóþol í kjölfarið. Ilmefni kveikja þá svipuð viðbrögð í líkamanum og myglan eða efnakokteillinn sem steig upp í andrúmsloftið frá rakaskemmdum byggingarefnum.


Ekki má gleyma því að ilmefni hafa ekki bara áhrif ef þau eru notuð beint á viðkomandi. Þau hafa einnig svokölluð óbein áhrif á aðra, eins og þekkt er með tóbaksreyk. Ilmefnanotkun í almenningsrýmum eins og þrif með ilmandi hreinsivörum, reykelsi, ilmkerti og aðrir húsilmir (e. home fragrance) og megn þvottaefnislykt, getur eins kallað fram sterk óþolsviðbrögð hjá útsettum.

Af þeim ástæðum geta einstaklingar með fjölefnaóþol lent í stökustu vandræðum á almenningsstöðum, í vinnu, í skóla og í ýmsum félagslegum aðstæðum. Ilmefnanotkun í lífsstíl nútímans getur verið heilmikil áskorun fyrir þolendur sem neyðast sum til að vera í sífelldri forðun vegna áreitis. Því getur fylgt töluverð einangrun að geta ekki tekið fullan þátt í samfélaginu sökum þessa.


Fjölefnaóþol getur kviknað eftir veikindi tengd viðvarandi umhverfisreiti í skertum loftgæðum innandyra en einnig eftir erfiðar veirusýkingar, krabbameinsmeðferðir og aðra sjúkdóma. Talið er að raka- og mygluveikindi hafi í lang flestum tilvikum kveikt á MCS eða TILT eða hjá um 75% þeirra sem glíma við þetta erfiða óþol.


Rétt er að vekja athygli á að hægt er að lesa fleiri umfjallanir um skaðsemi ilmefna, hormónaraskandi áhrif þeirra og önnur skaðleg áhrif hér á vefsíðunni undir flokknum: Fræðsla.


Erfiðast er ilmefnaóþolið þegar einstaklingurinn er sem veikastur fyrir vegna annars áreitis eða streituvaldandi þátta og oft geta fleiri áreiti virkað samverkandi. Ilmefnaóþolið getur einnig komið eitt og sér, ef ilmefnanotkun hefur t.d verið óhófleg um langt skeið. Í þeim tilvikum hefur líkamskerfi viðkomandi umborið áreitið yfir langan tíma upp að ákveðnum þolmörkum eða þar til innbyggt „eiturefnaglasið" fylltist og líkaminn ræður ekki lengur við hreinsunina með þeim afleiðingum að „flæðir út fyrir". Þegar það gerist er líklegt að erfiðara verði að snúa aftur til baka í eðlileg viðbrögð við sama áreiti. Þó er hægt að byggja upp þolmörk á löngum tíma, á sama hátt og eftir annað umhverfisáreiti, m.a með því að beita þeim úrræðum sem nefnd eru á vefsíðu SUM.


Við mælum alltaf með því að þó viðkomandi öðlist aftur nægilega góða heilsu til að vera í kringum mengun, skaðleg efni eða sýkta hluti, þá lágmarki fólk útsetningu sína fyrir skaðlegum aðstæðum eins mikið og það getur. Skaðleg efnasambönd skaða og erta, þó viðkomandi finni ekki eins fyrir því lengur með beinum hætti, eða eigi kannski erfiðara með að tengja væg áhrif við áreitið.

Eins mælum við með því að einstaklingar sem hafa veikst eða búið í húsnæði með raka og myglu, sleppi notkun ilmefna eins og kostur er, losi sig við alla óþarfa ilmgjafa og reyni að minnka notkun VOC efna. Þeir velji frekar ilmefnalausa og náttúrulega kosti við kaup á hreinlætisvörum, á húsgögnum, fatnaði, mat o.fl.


Þó viðkomandi hafi öðlast fulla heilsu aftur, er oft styttra í að þolmörkum verði náð þegar það hefur gert það einu sinni. Því er vissara að hafa varann á og sleppa að taka óþarfa áhættu.


Gerviilmefni eru samsett úr fjölmörgum eiturefnum sem hafa hormónaraskandi áhrif og ber almennt að forðast þau, jafnt meðal viðkvæmra og hraustra einstaklinga. Sérstaklega mæla samtökin með að ilmefni séu ekki notuð í umhverfi barna.


Comments


bottom of page