top of page
Search

Vá, hvað það er gott að vera „venjuleg“ aftur

Nafnlaus reynslusaga ungbarnafjölskyldu af þrotlausum heilsufarsvandamálum vegna húsasóttar heimafyrir og á vinnustað.


Myndin er fengin úr myndabanka og tengist frásögninni ekki beint.


2015 eignaðist ég yngri son minn, eldri sonur minn var þá 18 mánaða. Ég var 40 ára og fékk 15 marka og 51 cm drenginn í fangið eftir val-keisara.


Hann var í meðal kúrfu í 5 daga skoðun. Þegar hann var um viku gamall fluttum við fjölskyldan í íbúð sem við höfðum verið með í útleigu. Fljótlega fór ljósmóðirin, sem fylgdist með okkur mæðginum, að hafa áhyggjur. Sonur minn var ekki að fylgja þyngdar og lengdar kúrfunni. Ljósmóðirin efaðist um að ég væri að mjólka vel, þó ég segði að það væri ekkert vandamál og að hann drykki mjög vel. Ég var mjög slæm í kringum mjaðmirnar og átti erfitt með að sitja, standa, ganga og að halla mér fram t.d. þegar ég var að skipta á syninum. Þegar ég ræddi við ljósmóðurina um þetta þá hafði hún ekki mörg svör, sagði að konur sem færu í keisara væru stundum lengur en aðrar að jafna sig en spurði mikið hvernig andleg líðan væri. Ég upplifði að hún trúði mér ekki alveg þegar ég sagði að mín andlega líðan væri góð en ég væri ekki góð í skrokknum.


Því lengra sem leið frá fæðingu því neðar færðist sonur minn á kúrfunni yfir hæð og þyngd drengja. Fljótlega var hann kominn tveim staðalfrávikum frá meðaltali. Ungbarnaverndin og barnalæknir höfðu áhyggjur af honum en andlega var ekki að sjá annað en að hann þroskaðist.

Sjálf var ég þreytt, mér var illt í skrokknum og fékk engin svör um hvað gæti valdið svona miklum eymslum og verkjum í mjöðmum og baki, nema þá að ég yrði að hreyfa mig meir sem ég gat varla vegna verkja. Ég fór til sjúkraþjálfara sem fannst ég vera mjög slæm í mjóbaki og mjöðmum og spurði hvort ég hefði lent í einhverju áfalli, því slíkt sæti oft í mjöðmunum. Ég hafði ekki lent í neinu áfalli. Tímarnir í sjúkraþjálfun hjálpuðu mér að líða betur en sjúkraþjálfarinn sá samt sem áður ekki mikinn árangur. Ég var alltaf jafn slæm.


Við mæðginin vorum mikið heima því hann varð vitlaus ef hann fór í vagn eða bíl, öskraði og æpti. Og ég var of verkjuð til að geta borið hann í poka framan á mér. Þegar hann var orðinn 6 mánaða ætlaði ég að byrja að gefa honum graut svo hann væri nú alveg hættur á brjósti þegar ég færi að vinna aftur. En það gekk ekki vel. Hann ældi hann mikið, fékk í magann og varð ómögulegur. Ég spurði barnalækni út í þetta, sem sagði mér að sonur minn væri bara ekki tilbúinn til að fara að borða. Ég yrði bara að hafa hann lengur á brjósti áður en ég færi að gefa honum mat. Og þegar sonur minn hætti loksins á brjósti og komst til dagmömmu leið ekki langur tími þar til hann fór að fá pestir endalaust.


Við hjónin vorum rosalega fegin að maðurinn minn vari í fjarnámi og gat verið með syninum í veikindunum, því í um 3 mánuði var hann veikur í 3 vikur og hress í um 1 viku áður en hann varð aftur veikur. Fólki fannst það nú ekki skrítið að hann yrði veikur, því börn fá jú svo oft pestir þegar þau byrja hjá dagforeldrum/á leikskóla. Við vorum reglulega hjá barnalækninum vegna uppkasta, eyrnabólgu og lausleika í liðum hjá syninum.


Barnalækninum fannst hann óeðlilega mikið veikur og sagði að við ættum helst að athuga hvort við gætum fært soninn til annarrar dagmömmu eða fara til útlanda í 4 vikur og athuga hvort hlýrra loftslag myndi hjálpa.

Eldri sonurinn varð alveg veikur en ekki svona mikið eins og sá yngri. Sonurinn fékk rör í eyru, hálskirtlar voru teknir, hann fór á bakflæðislyf og var í sjúkraþjálfun því hann var rétt að byrja að sitja án stuðnings 1 árs og fór ekki að ganga fyrr en 20 mánaða. Hann var alltaf tveim staðalfrávikum frá meðaltali í hæð og þyngd og í ungbarnaeftirlitinu var talað um að það væri þó gott meðan hann héldi þeim stað. Hjá mér jókst þreytan en engum fannst skrítið að ég væri þreytt, ég var nú með tvö börn undir 3 ára aldri. Ég komst að hámarki í 10 mín. gönguferðir vegna verkja og óaði við því að fara í sund, eins og sjúkraþjálfarinn mælti með, því það var svo erfitt að standa í sturtu og klæða mig í/úr sundbolnum, þurrka mér o.þ.h. Mjaðmirnar voru alltaf jafn slæmar en ég lærði að lifa með því. Ég fann út hvað ég gat gert og hvað ég gat ómögulega gert. Ég fór ekki í heimsóknir því ég gat ekki setið lengi eða staðið lengi og ég gat t.d. ekki hengt upp þvott, sinnt þrifum eða nokkru þar sem ég þurfti að halla mér eitthvað fram á við eða mikið aftur á bak). Að setja strákana í bílstólana var mikil kvöl og pína. Ég grét stundum af verkjum þegar ég var búin að ná að koma þeim að bílinum, lyfta þeim í bílstólana og spenna þá báða og þá var annar búinn að kúka og ég þurfti að fara með þá inn og gera þetta allt aftur. Ef ég ræddi þetta við lækni eða í ungbarnaverndinni var fátt um svör og mér sagt að ég yrði að hreyfa mig.


Þegar yngri sonurinn var eins og hálfs árs fór ég til læknis því mig svimaði svo mikið og mér leist ekki á blikuna, jafnframt var ég ofboðslega þreytt og alltaf með vægan verk í höfðinu. Ekkert kom út úr blóðprufum og ég "leit ekki út fyrir að vera neitt veik".

Þá fór ég að ræða við manninn minn, sem er húsasmiður, hvort það gæti verið mygla í íbúðinni okkar. Vinkona mín hafði búið í mygluhúsnæði og sagði mér að ég hefði svipuð einkenni og hún fann fyrir. Maðurinn minn hafði ekki mikla trú á að eitthvað væri að í íbúðinni okkar. En hann fékk lánaðan rakamæli og prófaði alla veggi og gólf í íbúðinni. Enginn raki mældist í íbúðinni, engir svartir blettir voru neins staðar, málningin á veggjunum var alveg heil og ekkert sem benti til raka eða myglu. Hann sagði að það gæti bara ekki verið mygla hjá okkur, það væri enginn raki. Þegar mér leið verr og verr sagði ég við manninn minn að við yrðum að fá einhvern sem þekkti til, til að athuga hvort einhversstaðar væri mygla. Bara til að útiloka endanlega að það væri mygla hjá okkur, annars þyrfti ég að óska eftir læknisrannsóknum.


Í febrúar 2017 höfðum við samband við Eflu og óskuðum eftir skoðun á húsnæðinu. Maðurinn minn var heima þegar maðurinn frá Eflu kom.


Það var bara búið að opna útidyrnar fyrir manninum frá Eflu þegar hann segir: "Það er mygla hér. Ég er orðinn svo næmur fyrir myglu að ég finn það strax að hér er mygla.".

Hann tók sýni úr gólfefninu á ganginum í miðri íbúðinni og sendi það til Náttúrufræðistofnunar í greiningu. Ég furðaði mig á því að sýni hefði verið tekið þar, hafði búist við að það væri tekið sýni á baðinu eða þar sem raki er líklegur. Samt sem áður sýndu niðurstöður sýnatökunnar myglu gró í miklum mæli í líminu undir dúk sem var undir parketinu í íbúðinni og það var í það miklum mæli að óheilsusamlegt væri að búa í slíku.


Við fluttum því til móður minnar daginn eftir, hún hafði sem betur fer stórt auka herbergi og var tilbúin að leyfa okkur að flytja inn á sig. Strax 3 dögum seinna var ég farin að finna mikinn mun á mér. Sviminn fór strax og þreytan leið úr mér.


Eflu-starfsmaðurinn ráðlagði okkur hvernig við gætum hreinsað íbúðina, hvað við þyrftum að losa okkur við og hvernig við ættum að hreinsa það sem við gætum haldið af innbúinu. Í þeim framkvæmdum sem við tóku varð íbúðin nánast fokheld. Og í ljós kom þessi líka stóri, svarti myglublettur í eldhúsinu. Einhvern tíma hafði ísskápur lekið, vatnið farið undir gólfefnið og mygla tekið sér bólfestu og náð að vaxa og dafna. Eldhúsið var mjög lítið en myglan náði yfir um helming gólfflatarins. Maðurinn minn var í „geimbúningi“, með andlistgrímu og gleraugu þegar hann fjarlægði gólfefnin og eldhúsinnréttinguna.Ég skildi þá af hverju ég fékk oft höfuðverk, af hverju augnlæknirinn talaði um að ég væri með mjög þurra slímhúð, svipað og þeir sem eru með ofnæmi.


Haustið 2017 var komið að því að við þurftum að stækka við okkur og fundum okkur huggulegt tveggja hæða timburhús, fengum að skoða allt vel og sáum ekkert athugavert. Við sögðum seljendunum okkar sögu og var sagt að það gæti bara ekki verið mygla í þessu húsi því það loftaði svo vel um allt. Yngri sonurinn var aðeins farinn að taka við sér í hæð og þyng. Ég varð örlítið betri í mjöðunum/bakinu og hætt að vera alltaf þreytt. Þegar við fengum húsið afhent sáum við að í þvottahúsinu var veggurinn sem þvottavél hafði verið uppvið, aðeins bólginn. Það láku engin rör en við komumst að því að vant flæddi undir allt frá sturtugólfi á baðherberginu sem var hinu megin við þvottahúsið.


Aftur tók við viðgerðartímabil, við þurftum að rífa niður alla veggi á baðherberginu og hluta af gólfi í eldhúsinu, sem lá að baðherberginu. Þegar búið var að hreinsa allt varð ég svo ánægð að vera loksins laus við myglu. Nú færu hlutirnir bara upp á við.

Ég var búin að læra að lifa með verkjum, gerði mínar æfingar til að geta haldið mér gangandi og vonaði að ég væri bara svona lengi að jafna mig eftir meðgönguna, þ.e.a.s. að þetta væri ekki komið til að vera. Veturinn 2017-2018 var nokkuð erfiður. Ég var ofboðslega þreytt, það þreytt að ég sofnaði yfirleitt með strákunum mínum þegar þeir fóru að sofa kl. 20. Eftir því sem leið á veturinn varð ég þreyttari og þreyttari. Ég var oft með hjartsláttaróreglu og stundum var ég hissa á að hjartað færi ekki út úr líkamanum. Oftast var ég þannig að ég beið eftir að maðurinn minn kæmi heim, því ég var úrvinda eftir vinnudaginn (vann 70% vinnu) og orkaði ekki að halda mér uppréttri.


Sonum mínum fannst þetta ekki skemmtilegur tími. Ég gat aldrei farið á róló eftir leikskóla, varð alltaf að drífa mig heim að leggja mig. Ef maðurinn minn var 10 mínútum seinni heim en vanalega var ég algjörlega búin á því og grét af sársauka og spurði hann af hverju hann þyrfti að vera svona lengi að koma sér heim. Mörg kvöld gat ég ekki borðað kvöldmat því ég gat ekki staðið fyrir verkjum og sofnaði svo um leið og ég gat lagst niður til að létta á mjöðmum og baki. Ég þurfti oft að berjast við að halda mér vakandi þar til maðurinn minn kæmi heim því syndir mínir gátu ekki séð um sig sjálfir, bara 2, 5 ára og 4. Synir mínir voru alltaf með einhverjar sýkingar í nefi, háls og eyrum. Maðurinn minn var mjög þreyttur en þó ekki svona þreyttur eins og ég. Helgar fóru mikið til í svefn hjá mér.


Ég fór til heimilislæknis vorið 2018 og sagði honum að ég hefði ekki úthald í annað en að vinna vinnuna, næði varla að sinna strákunum mínum og hvað þá að sinna heimilinu. Læknirinn sagði að það væri nú fyrir öllu að ég næði að stunda vinnu, það væri mjög mikilvægt. Ég spurði hann á hvaða tímapunkti ég þyrfti að huga bara að líkamanum. Læknirinn sagði við mig að honum þætti ég of ung til að fara á örorku vegna þessa. Ég varð hissa, því það hafði ekki hvarflað að mér að fara á örorkubætur og ég sagði honum að ég hefði nú ekki verið með það í huga heldur hvort ég yrði ekki að vera í leyfi í vinnunni til að ná orku til að koma líkamanum í betra lag. Hann svaraði að það sem ég væri að ýja að væru jú stundum gert, þ.e. að fólk færi í veikindaleyfi í einhvern tíma og færi t.d. í 4 vikur á heilsuhælið í Hveragerði. Það yrði að vera markvisst og skipulagt. Það yrði betra fyrir mig að vera áfram í vinnunni því það væri álag sem ég yrði að þola, ef ég færi í veikindaleyfi myndi álagið minnka og ég yrði betri en myndi svo verða mjög slæm þegar ég færi aftur að vinna. Betra væri fyrir mig að vera í vinnunni og vinna smám saman upp þrek. Hann myndi alla vega ekki skrifa upp á veikinda leyfi fyrir mig á þessum tíma (í maí) til að lengja sumarfríið mitt svo ég gæti dittað að húsinu mínu eða eitthvað þessháttar.


Ég átti ekki til orð, ég varð hissa, sár en ekki síst reið að hann héldi að ég ætlaði bara að hafa það næs að vera í lengra sumarfríi og ditta að húsinu mínu þegar ég gat ekki staðið undir sjálfri mér né sinnt börnunum mínum almennilega.

Ég varð svo reið að ég gat ekki sagt neitt við lækninn því ég vissi að þá myndi ég öskra. Hann spurði hvort ég væri eitthvað að hreyfa mig, ég væri nú aðeins í yfirþyngd og það er öllum nauðsynlegt að hreyfa sig. Ég sagði honum að ég færi út að ganga með hundinn en ég hefði bara enga orku og yrði móð og másandi við ekki neitt. Það væri ekki af því að ég nennti ekki að hreyfa mig heldur af því að ég ætti erfitt með það líkamlega. Hann ákvað að láta mig í lungnapróf, þar sem kom í ljós að súrefnismettun var rúmlega 80%. Ég fékk sterapúst og það var tekin mynd af lungunum til að vita hvort ég væri komin með krabbamein í lungun, en það var sem betur fer ekki. Blóðþrýstingurinn var einnig kominn yfir mörkin og ég fór á blóðþrýstingslækkandi lyf.


Tíminn líður, sterapústin gerir mikið fyrir mig og ég er aðeins betri í mjöðmunum en oft mjög þreytt og með vægan höfuðverk. Strákarnir mínir þurfa reglulega að fá sterapúst vegna öndunarfærasýkinga og þeir eru oft með í eyrunum. Maðurinn minn greindist með illkynja krabbamein í eysta og erum við þá komin með útskýringu á því af hverju hann var alltaf þreyttur.

Í júní 2019 förum við fjölskyldan í viku ferð til systur minnar sem býr í Sviss. Eftir að við höfum verið þar í 4 daga segi ég við manninn minn „Heyrðu, ég er bara ekki með neitt í nefinu og engan höfuðverk.“ Hann svara að hann finni líka að hann sé mun hressari heldur en heima. Og við hugsum bæði hvort það væri mygla í húsinu okkar. Þegar heim er komið fer maðurinn minn með rakamæli út um allt en finnur ekki raka. Hann ákvað að bora göt í veggina (timburveggir) á baðherberginu á efri hæðinni og taka myglupróf. Eini veggurinn sem sýnir eitthvað er veggurinn þar sem blöndunartækin eru fyrir baðkarið. Hann byrjar að rífa vegginn og það er mygla í kringum óeinangruð rör við blöndunartækin. Hinumegin við þennan vegg var svefnherbergið okkar. Svefnherbergis megin náði veggurinn bara upp að panelnum í loftinu og var því opið yfir í svefnherbergið alls staðar á samskeytum í panelnum. Hefur myglugróin því komist yfir í svefnherbergið í gegnum raufarnar þar sem fjalirnar koma saman. Synir okkar voru með rúmin sín enn inni í herberginu hjá okkur.


Þegar búið var að rífa niður þennan vegg varð ótrúleg breyting á mér og yngri syninum. Í lok sumarsins er ég nánast hætt að finna fyrir verkjum í mjöðmunum, hætti að vera þreytt, var ekki með höfuðverk og gat loksins leikið endalaust úti við strákana mína. Sjúkraþjálfari minn fann fyrir ótrúlega miklum framförum hjá mér. Yngri sonurinn tók mikinn kipp og fór upp um tvær fatastærðir þetta sumarið.


Ég gleymi því ekki þegar ég leyfði í fyrsta skipti strákunum mínum að róla eftir leikskóla. Yngri sonur minn ljómaði af gleði og sagði „mamma er þér loksins ekki illt í bakinu?“.

Ég hafði verið í sundleikfimi 2x í viku allan veturinn og með syni mína á sundnámskeiði hjá sama kennara. Sundkennarinn vissi að ég var slæm í mjöðmum en þegar hún hitti mig um haustið sagði hún „Það er allt annað að sjá þig. Nú fattar maður hvað þú hefur fundið svakalega mikið til, þú ert ekki með saman bitna kjálkana og þennan hörkusvip eins og þú varst síðasta vetur.“


Haustið 2019 byrja ég í nýrri vinnu sem var nær heimilinu. Ég ákvað að velja vinnustað sem var í frekar nýlegu húsnæði, svona svo ég myndi ekki lenda í gömlu húsi með myglu. Húsnæðið er mjög stórt og á nokkrum hæðum. Í fyrsta skipti sem ég kem inn á svæðið þar sem ég hafði skrifstofuaðstöðu fæ ég hóstakast. Og fyrstu vikuna var það þannig að alltaf þegar ég kem þar inn fer ég að hósta þurrum hósta. Ég spyr þær sem deildu með mér skrifstofuaðstöðu hvort þetta gerðist hjá þeim líka. Ein sagði að hún lenti oft í þessu en hinar fimm urðu minna varar við þetta. Fljótlega fór ég að finna fyrir þreytu og sljórri hugsun. Ég hugsaði með mér „Er ég núna að finna fyrir því að vera orðin of gömul (44 ára) til að skipta um starf.“ Ég fór að verða verri í skrokknum, þetta góða tímabil í lok sumars varð ekki eins langt og ég hafði vonað. Þegar leið að jólum gat ég ekki beðið eftir að komast í jólafrí, ég var algjörlega búin á því. Ég var endalaust þreytt, með höfuðverk, pirring í augum og alltaf eins og ég væri að verða veik. Allar helgar fóru í að hvílast og þannig varð ég ágæt á mánudegi. Eftir því sem leið á vikuna varð ég verri og verri.


Jólafríið fór í svefn og meiri svefn. Mér leið eins og ég væri að verða veik, en ég varð aldrei veik, bara ofboðslega þreytt, hóstandi með stíflað nef og bjúg. Ég var í tveggja vikna jólafríi og var loksins orðin ágæt þegar jólafríinu lauk.


Þegar ég mæti aftur byrja ég að hósta og eftir vikuna er ég komin með mikinn höfuðverk. Ég fer að spyrjast fyrir á vinnustaðnum um hvort það hafi fundist mygla þar. Jú það hafði fundist á einu svæði, en það var ekki á mínum svæðum.

En ég fæ að vita að samstarfsfólk mitt sem er að vinna hinu megin við vegginn á mínu skrifstofu svæði sé búið að tala mikið um að það sé mygla þar. Þannig að ég ræði við yfirmenn mína sem vilja ekki gefa mikið út á að það sé mygla á staðnum. Ég ákvað því að panta tíma hjá mínum heimilislækni (ekki þeim sem ég fór til árinu áður) og fór yfir einkennin sem ég finn fyrir, ræddi um fyrri myglureynslu og fer í blóðprufu og læknirinn hlustaði mig og heyrir kurr í lungunum. Lækninum fannst líklegt að ég væri að finna fyrir myglueinkennum fyrst ég þekki einkennin og þetta séu eins einkenni. Mikið var mér létt að læknirinn trúði mér.


Ég fæ mygluleitarhund heim til mín til að vera viss um að það sé ekki falin mygla í húsinu. Hundurinn fann ekki neitt hjá okkur og ekkert kom úr blóðprufunni, nema að allt væri í lagi. Ég fer með þessar upplýsingar til yfirmanns míns. Hann segir að það sé hægt að færa skrifstofuaðstöðu mína. Í febrúar fer ég á nýtt svæði og líður betur þar en er samt áfram með höfuðverk og mæði, svo eru óþægindi í hnjám byrjuð að plaga mig. Yfirmaður minn segir mér að það eigi að gera einhverjar úrbætur á húsnæðinu um sumarið og vonandi muni það verða betra fyrir mig.


Svo kemur Covid-19 með sínum fjöldatakmörkunum. Ég fer í eitt „sóttvarnarhólf“ sem var á einu af þeim svæðum sem ég vann daglega á. Ég er þar fyrstu tvo dagana í 8 tíma en restina af vikunni er ég í 2,5 tíma. Ég hafði samband við heimilislækninn minn, sem ég hafði verið í sambandi við vegna einkenna og segi henni að ég sé svo úrvinda þegar ég kem úr vinnunni að ég sofni yfir daginn, er sofnuð upp úr kl. 20 og vakna þreytt. Höfuðverkurinn í enninu var svakalega mikill, stífla í nefinu var mikil, liðverkir í kringum mjaðmir verða það miklir að ég get varla sest niður og er mjög kvalin þegar ég stend upp. Sjúkraþjálfari minn sér enga mögulega ástæðu fyrir þessum mjaðmaverkjum. Ég var ekki með hita. Ekki var vitað hvort mygla væri þarna en það var mjög mikill leki á þessu svæði og ef það rigndi þá var mikil bleyta inn á gólf. Ég fer í tveggja vikna veikindaleyfi og svo er komið páskafrí þannig að ég enda á að vera 3 vikur í burtu.


Ég er þá orðin allt önnur og líður nokkuð vel. Mikið ofboðslega var ég þakklát fyrir að hafa heimilislækni sem var tilbúinn til að sjá hvort einkenni mín hættu við að vera í veikindaleyfi.

Eftir páskana fer ég í annað sóttvarnarhólf heldur en ég hafði verið í áður og stjórnendur vona að sá staður sé betri fyrir mig heldur en sá fyrri. Ég finn strax að ég verð aftur verri af myglu-einkennunum og þau aukast eftir því sem leið á vikuna. Ég skánaði um helgina en var á mánudegi ekki eins góð og ég var þegar ég byrjaði að vinna eftir páskafríið. Verkurinn í enninu jókst mikið, mæðin jókst þrátt fyrir að ég héldi áfram að nota sterapúst og sterasprey í nefið. Stirðleiki í liðum jókst ásamt mikilli þreytu, ég fékk mikið hárlos, var með roða í augum, var öll út í bólum í andlitinu, þrútin og rauð í kinnum og á nefi, svipað og vægur rósroði. Yfirmenn mínir reyna að koma til móts við mig þannig að ég vinni eingöngu 1 klukkutíma á dag á svæðinu en það var eins og ég hefði náð að fara yfir einhvern þröskuld. Þegar ég var búin að vera í nokkrar mínútur í vinnunni þann daginn (tveim vikum eftir að ég byrjaði aftur að vinna eftir páskafríið) var ég komin með svo svakalegan höfuðverk og svima að ég gat ekki unnið, ég var orðin svo bóglin í framan að mig var farið að verkja í andlitið.


Ég fór aftur í veikindaleyfi sem varði í mánuð. Verkurinn í andlitinu fór nánast strax og ég var komin út úr húsinu. Á fyrstu vikunni rann bjúgur af mér og ég léttist um 1,5 kg. Verkirnir í mjöðmunum fóru fljótlega eftir að ég fór í veikindaleyfið. Úthaldið jóst svo og mæðin var orðin mun minni eftir tvær vikur í veikindaleyfinu. Ég var þó enn með mikið slím í kokinu, hóstaði mikið upp úr mér og var enn með vægan höfuðverk. Í lok maí 2020 lauk veikindaleyfinu mínu. Ég var mjög ánægð með að hafa náð að losna við öll einkennin og var komin með fulla orku, þó það hefði ekki komið fyrr en síðustu daga veikindaleyfisins. Ég hafði leyfi yfirmanna til að vinna eins mikið heima eins og hægt var, en það var þó ýmislegt sem ég þurfti að nálgast á vinnustaðnum og mæta á fundi o.þ.h. Eftir fyrstu tvo dagana voru einkennin sem ég hafði haft í öndunarfærum og eyrum komin aftur. Í hvert skipti sem ég mætti í vinnuna bættist við einkennin sem ég hafði haft. Ég vann í viku, fór svo í sumarleyfi og hætti á þessum vinnustað. Þó það ætti að laga hluta húsnæðisins um sumarið þá treysti ég því ekki að það yrði hreinsað nægilega vel en jafnframt þar sem húsnæðið var svo stórt og lekavandamál það víða að ekki yrði unnt að laga alla staði á einu sumri.


Eftir að ég var hætt í vinnunni fór fólk að segja við mig að ég liti miklu betur út og spurðu hvað ég hefði grennst mikið. Ég hafði ekkert grennst, ég var bara ekki svona þrútin og bólgin eins og ég hafði verið. Í lok sumarsins hafði ég enga verki í líkamanum, mjaðmirnar/bakið hafði aldrei verið eins gott og ég hafði ekki haft svona mikla orku í mörg ár.


Öll einkenni sem ég hafði verið með voru farin, meira að segja hjartsláttaróreglan. Ég hugsaði: Vá, hvað það er gott að vera „venjuleg“ aftur. Synir mínir hafa varla orðið veikir síðan við rifum vegginn með myglunni. Yngri sonurinn er komin í einu staðalfráviki fyrir ofan meðaltal í hæðar kúrfu og í meðaltali í þyngd.

En þar sem ég hafði sagt upp á mínum vinnustað varð ég að finna mér aðra vinnu. Þar sem ég er þroskaþjálfi þá var ég ekki hrædd um að fá ekki vinnu, þrátt fyrir atvinnuleysi á landinu. Vandi minn var aftur á móti að finna vinnustað sem hafði ekki verið með lekavandamál. Ég fór á netið og leitaði að skýrslum um viðhald eða leka hjá sveitarfélaginu sem ég bý í. Á þeim stöðum sem auglýst var eftir þroskaþjálfa var nánast alltaf eitthvað sem tengdist lekavanda. Ég fann stað sem ég hafði mikinn áhuga á að vinna á, hafði samband við yfirmanninn og spurði hvort það væri lekavandamál, rakavandamál eða mygla á staðnum. Yfirmaðurinn sagði að svo væri ekki. Í atvinnuviðtalinu fór ég yfir mín veikindi og sagði að ef það væri einhver möguleiki á að það væri mygla á staðnum, þá væri ekki skynsamlegt að ég færi að vinna þarna. Yfirmaður minn sagði að það væri ekkert þarna.


Þegar ég byrja að vinna í ágúst er ég ekki búin að vera nema í viku þegar ég finn fyrri einkenni koma, þurr hósti, höfuðverkur og hjartsláttaróregla. Ég læt yfirmann minn vita sem lætur viðeigandi aðila sveitarfélagsins vita. Einkennin aukast hægt en aukast þó.


Ég segi við sjálfa mig að ég verði að hætta á þessum stað og finna mér aðra vinnu, en starfið er mjög áhugavert og yfirmaðurinn ætlar að gera allt sem þarf til að húsnæðið verði hentugt fyrir mig. Ég efast líka um að ég finni stað þar sem ég get unnið og er alveg myglulaus, þannig að ég ákveð að bíða og sjá hvort viðgerðirnar dugi.

En það dregst hjá sveitarfélaginu að hafa samband við aðila sem geta gert úttekt á húsnæðinu. Loks er það gert og í október eru tekin sýni í öllum rýmum húsnæðisins. Það finnst mygla á tveim stöðum í sitt hvorum enda húsnæðisins. Það þarf að laga útidyrahurðir og skipta um rúður í gluggum. Einkennin sem ég finn fyrir eru þessi svakalega þreyta, höfuðverkur, eyrnabólga sem fer ekki, mæði og verkir í mjöðmum og hnjám. Nú í byrjun nóvember er ég farin að vinna heima í pappírsvinnu. Ég er farin að efast um að myglan verði hreinsuð á þessu ári, en ég upplifi að það eigi bara að laga það sem er ónýtt en ekki að hreinsa. Því það ætti að hreinsa svæðið sem fyrst, alla vega það sem er hægt, þó það sé ekki búið að panta allt sem þarf. Ég óska þess að ég hafi rangt fyrir mér, ekki bara mín vegna heldur einnig þeirra sem eru daglega í húsnæðinu. Ég hef miklar áhyggjur af því að ég endi með viðvarandi vanda, sem er hræðileg tilhugsun.


Heimilislæknirinn minn getur ekki sagt til um það hve lengi mér er óhætt að vera í umhverfi þar sem er mygla vegna raka/leka áður en ég enda með krónísk veikindi. Ég vona svo innilega að húsnæðið verði hreinsað nægilega vel því ég veit hreinlega ekki hvar ég get unnið. Og ekki kemur það vel út á ferilskránni að ég vinni bara 1 ár á þessum stað, nokkra mánuði á næsta stað og svo framvegis. Líklega verð ég að enda í vinnu sem er alfarið utandyra, svo ég verði ekki veik.


Comments


bottom of page