top of page
Search

Var búinn að ákveða að þetta væri kötturinn

Reynslusaga Davíðs Þórs Skúlasonar sem taldi sig vera kominn með ofnæmi þegar hann fór að verða var við ýmsa heilsufarskvilla eftir að hafa flutt á milli staða.


Myndin er fengin úr myndabanka og tengist frásögninni ekki beint.


Við fjölskyldan fluttum á Höfn í Hornafirði. Við fengum fínustu íbúð og vorum mjög ánægð með hana.


Hún var snyrtileg, með nýtt parket og ný máluð. Ég var heima með strákinn í allt sumar því hann fékk ekki leikskólapláss fyrr en í haust. En sumarið tók frekar undarlega stefnu.


Ég fékk smá flensu um miðjan júní og var frekar lengi að hrista hana af mér. En það var eins og ég væri alltaf kvefaður.


Vikurnar liðu og ég var alltaf með kvef, nema að það fór versnandi. Ég fór að fá óþægindi í hálsinn sem varð að hálsbólgu, undarlega höfuðverki, þurrk og roða í augu.

Mér batnaði ekkert og þetta var farið að trufla svefn.


Um verslunarmannahelgina fórum við í fimm daga ferð. Ótrúlegt en satt þá fór ég allur að hressast á öðrum degi. En þegar við komum heim þá leið ekki klukkutími þangað til ég fór aftur að finna fyrir einkennum.


Mig grunaði að ég væri búinn að þróa ofnæmi gegn kettinum okkar sem við höfum átt síðan 2012.


Ég var eiginlega búinn að ákveða það að þetta væri kötturinn en gat þó ekki útilokað myglu.

Svo kemur vinur minn í heimsókn í nokkra daga. Hann kvefaðist fljótt og sagði mér að honum liði eins og það væri mygla í íbúðinni. En hann lenti í myglu fyrir nokkrum árum.


Ég bókaði því tíma hjá lækni, lýsi þessu fyrir honum og fer í ofnæmispróf. Sama dag fer ég í Húsasmiðjuna og kaupi myglupróf. Ég fór á mygluveiðar og ætlaði að taka sýni innan úr gifsveggnum sem skilur að baðherbergið.


Ég losaði sóplistann og ætlaði að bora inn í hann þar en þess þurfti ekki. Myglan blasti við undir listanum.

Niðurstöður ofnæmisprófs sýndu að ég er ekki með ofnæmi fyrir kettinum né öðru.


Við fluttum út í hendingskasti og fórum beint í það að leita okkur ráða og ræða við leigusala um ástand íbúðarinnar. Ferlið er komið í gang og höfum við ekki áhyggjur af íbúðinni sjálfri eins og er.


Annað má segja um búslóðina. Við höfum leitað okkur upplýsinga um hverju þarf að farga og hvað má hreinsa. Er til einhver gátlisti varðandi það? Þarf ég að hafa áyggjur af hlutunum í hinum enda hússins ?


Einnig er ég að leita að lista með heilsufarslegum einkennum sem stafa af myglu. Bæði í fullorðnum og börnum. Það sem ég hef lesið á netinu segir mér að við höfum öll sýnt einhver einkenni þess að búa í myglu

Comments


bottom of page