top of page
Umhverfisareiti_SUM1.jpg

Hvað er umhverfisáreiti?

Langvarandi viðvera eða viðvera í miklu áreiti frá umhverfi, sem eykur álag á kerfi líkamans, getur leitt til umhverfisóþols. Umhverfisáreiti getur haft skaðlegar afleiðingar fyrir heilsu þolenda til styttri eða lengri tíma og skert verulega lífsgæði þeirra.

Umhverfisáreiti er hvers konar áreiti úr umhverfinu sem veldur það miklu álagi á kerfi líkamans að þau raskast og ójafnvægi myndast í líkamsstarfseminni. Síendurtekið áreiti getur leitt til umhverfisóþols, annað hvort fyrir ákveðnum afmörkuðum þáttum umhverfis s.s myglusveppum, nikkeli og glúteni eða samlegðaráhrifum og jafnvel keðjuverkun vegna áreitis ólíkra umhverfisþátta eða „efnasúpu" sem líkaminn ræður ekki við að vinna úr. Þetta á einnig við um kemísk og rokgjörn efni í umhverfinu (VOC) eins og þalöt, ilmefni o.fl. Við þessa röskun á líkamsstarfseminni fara ýmsir heilsufarskvillar að gera vart við sig sem hafa áhrif á lífsgæði og geta í verstu tilfellum leitt til krónískra veikinda þar sem langvarandi, uppsafnað eða mikið álag er á líkamann frá áreiti úr umhverfinu sem líkaminn er orðinn ofurviðkvæmur fyrir.

​

Ýmsar umhverfisaðstæður eða utanaðkomandi þættir geta haft áhrif á heilsu. Má þar nefna léleg loftgæði innandyra eða loftmengun sem og rakaskemmdir og mygla í byggingum. Einnig geta efni valdið áreiti sem eru í matvælum, klæðnaði, snyrtivörum, hreinlætisvörum, húsgögnum, leikföngum, innréttingum, byggingarefnum, bifreiðum og öðrum neytendavörum - efni sem við ýmist innbyrgðum, öndum að okkur eða tökum inn í gegnum húðina. Hljóðvist, rafbylgjur, ilmefni, rotvarnarefni, E-efni, lyf, málmar, plast og önnur eiturefni geta einnig haft áhrif á heilsu. Í sumum tilfellum getur framleiðsluferli skipt máli, geymslustaðir landbúnaðarafurða eða byggingarefna og samsetning eða samverkun mismunandi efnasambanda og þátta. Búseta á há- eða lágþrýstisvæðum, við virkjanir, háspennulínur eða verksmiðjur getur einnig haft sín áhrif. Listinn er ekki tæmandi og þekking á orsakasamhengi og margslungnum heilsuáhrifum vegna áreitis úr umhverfinu er ennþá á rannsóknarstigi.

​

Líkami okkar er sem betur fer gerður til þess að hreinsa flest þessi eiturefni út úr líkamanum í gegnum nýru, lifur eða önnur líffæri og skila þeim út með þvagi, hægðum eða svita. Oft þola einstaklingar ákveðið áreiti um tíma án einkenna eða eru með væg einkenni sem þeir gera sér kannski ekki grein fyrir af hverju stafa. Þetta áreiti er þá það vægt að auðvelt er að takast á við það eða lifa með því. Einn daginn getur þó komið að þolmörkum og hreinsunarkerfið ræður ekki við meira. Eitthvað í líkamsstarfseminni byrjar að gefa eftir, ónæmiskerfið raskast og það molnar undan heilsunni. Stundum er þetta tímabundið en oft til frambúðar ef ekkert er að gert og getur farið stöðugt versnandi.

​

Umhverfisóþol getur haft afleiðingar á heilsu til styttri og lengri tíma og einkenni geta skert lífsgæði svo um munar. Hver sem er getur upplifað umhverfisóþol á hvaða tímapunkti sem er í lífinu, til skemmri eða lengri tíma, með fyrirvara og þó gjarnan alveg fyrirvaralaust.

​

Þau einkenni umhverfisóþols sem helst er tilkynnt um eru heilaþoka, sljóleiki, sjón- og jafnvægistruflanir, þreyta, kvef- og flensueinkenni, sýkingar, bólgur, verkir, þunglyndi, kvíði, útbrot, uppþemba, meltingartruflanir, svefntruflanir, hárlos, höfuðverkur og astmi. Viðvarandi ástand getur haft langvarandi áhrif á taugakerfi, hormónakerfi, ónæmiskerfi og fleiri kerfi líkamans. Ef ekki er brugðist við þessum einkennum og umhverfisóþolið versnar, virðist sem alvarlegri kvillar og krónískir sjúkdómar fylgi í kjölfarið. Þetta eru sjúkdómar eins og td. síþreyta, mígreni, legslímuflakk, vefjagigt, chrones, skjaldkirtilsójafnvægi, ófrjósemi, góðkynja æxli og geðsjúkdómar. Hér geta samverkandi þættir til viðbótar við umhverfisáreiti eins og álag og erfðaþættir einnig haft áhrif. Rannsóknir gefa jafnframt vísbendingu um að viðvarandi umhverfisóþol geti komið af stað lífshættulegum sjúkdómum langt fyrir aldur fram, eins og sykursýki, lungnateppu, krabbameini, parkinson, alzheimer og MS. Því miður eru rannsóknir á umhverfisóþoli ennþá stutt á veg komnar enda um að ræða fremur nýlegt vandamál sem er að mestu tilkomið með aukinni nútíma- og tæknivæðingu. Rannsóknir eru flóknar því það getur reynst erfitt að einangra áhrifin og útsetja fólk sérstaklega fyrir umhverfisþáttum. Einnig geta einkenni og áreiti byggt á samverkandi þáttum.

​

bottom of page