top of page
Einkenni_SUM1.jpg

Hver eru einkennin?

Einkenni umhverfisáreitis geta verið margskonar hjá þolendum. Þau eru gjarnan persónubundin, marglaga og samverkandi.

Neikvæðra umhverfisáhrifa virðist einkum gæta hjá einstaklingum þar sem þeir eru veikir fyrir og því geta einkenni verið ólík milli einstaklinga, jafnvel innan saman heimilishalds eða vinnustaðar. Þá ræður einnig magn áreitis og viðverutími miklu um það hvenær þolmörkum einstaklingsins er náð m.t.t genasamsetningar hans og annarra persónulegra álagsþátta. Einkenni geta einnig verið mismunandi eftir eiturefnum, sveppategundum og eftir aldri og kyni þolandans. Hér skal freista þess að telja upp þau einkenni sem algengast er að tilkynnt er um og eru vel þekkt. Ekki er óalgengt að sami einstaklingurinn sé með fleiri en eitt einkenni af listanum í einu eða á mismunandi tímaskeiðum í veikindaferlinu:

​

  • Flensulík einkenni, beinverkir, þreyta, þyngsli yfir höfði.

  • Síþreyta, orkuleysi eða kraftleysi, vilji til verka dvínar, bugun.

  • Höfuðverkur, stundum eins og mígreni.

  • Ennis- og kinnholubólgur, eyrnabólgur.

  • Síendurteknar sýkingar og bólgur.

  • Hósti eða sviði í lungum, hrotur, mæði.

  • Tíð þvaglát.

  • Meltingartruflanir, ógleði, tíður niðurgangur eða harðar hægðir.

  • Sjóntruflanir, svimi, fjörfiskur.

  • Minnistruflanir, heilaþoka, málstol, þvoglumælgi.

  • Snertiskyn og hita/kuldanæmi breytist.

  • Doði og dofi í útlimum eða vöðva- og taugakippir.

  • Ljósnæmni og rafmagnsviðkvæmni. 

  • Jafnvægistruflanir.

  • Kvíði, þunglyndi, svefnvandamál, skapbrestir.

  • Áreiti í slímhúð; augu, öndunarfæri, melting, kynfærasvæði, endaþarmur.

  • Þroti, bjúgur.

  • Hjartsláttartruflanir.

  • Húðvandamál, rauðir flekkir, þurrkur, útbrot.

  • Liðverkir, stingir eða aðrir óútskýrðir verkir.

  • Fæðuóþol, óþol gegn t.d hnetum, hveiti eða öðru (eykst eða byrjar).

  • Þyngdaraukning eða þyngdartap án skýringa.

  • Tannverkur, bólgur í tannholdi, munnangur.

  • Hálsbólga, þurrkur eða sviði í hálsi, hæsi, raddleysi.

  • Tilfinning fyrir þrengslum eða fyrirstöðu í hálsi.

  • Hárlos.

  • Skjaldkirtilsvandamál, hormónaröskun. 

  • B vítamín- og járnskortur.

​​

Ofangreind einkenni geta einnig komið fram hjá börnum. Börn geta hinsvegar haft öðruvísi einkenni en fullorðnir enda eru börn jafnan með óþroskaðara kerfi eða líffæri sem verða þyngra fyrir höggi við umhverfisáreiti. Hér er einkum átt við viðkvæman meltingarveg barna, öndunarfæri, miðtaugakerfi, ónæmiskerfi, eyru, húð og slímhúð. Það er mikilvægt að vera vel vakandi fyrir endurteknum einkennum hjá ungum börnum sem oft eru skrifuð á eðlileg áreitisviðbrögð sem fylgja því þegar börn komast í kynni við nýja umhverfisþætti. Mikið og viðvarandi umhverfisáreiti getur haft afdrifaríkar afleiðingar á vanþróuð kerfi smárra líkama til langs tíma litið, ekki síst fyrir þær sakir að eiturefna- og losunarkerfi barna eru ekki orðin eins þróuð og hjá fullorðnum. Að auki eru smábörn mikið á gólfinu en eiturefni, myglugró og aðrir vágestir loða vel við ryk sem á greiðan aðgang að húð og vitum barna. Ung börn eru oft fyrri til að fá einkenni vegna rakaskemmda í húsum en aðrir sem þar dvelja.

 

Ef grunur leikur á að umhverfisáreiti sé að valda álagi á líkamskerfi barns, skal ávallt taka það alvarlega. Heilsa barnanna okkar á alltaf að njóta vafans. 

 

Neðangreind einkenni eru algengari hjá börnum en fullorðnum:

​

  • Eyrnabólgur.

  • Blóðnasir.

  • Tíð uppköst.

  • Bakflæði.

  • Mjólkurpróteinóþol og annað fæðuóþol.

  • Magavandamál.

  • Flensulík einkenni.

  • Astmaeinkenni, ofnæmi, exem.

  • Lungnakvef/lungabólgur.

  • Flekkir og útbrot.

  • ​Sýkingar í augu, munn, nef- og kinnholur.

bottom of page