Ákall SUM til frambjóðenda
SUM - samtök um áhrif umhverfis á heilsu, óskar eftir upplýsingum um afstöðu stjórnmálaflokka til umhverfis- og heilbrigðismála. Ákallið var sent út í aðdraganda alþingiskosninga 2024.
Spurningalistinn var í upphafi lengri en stjórnmálaflokkarnir hafa komið sér saman um að svara í mesta lagi þremur spurningum svo við völdum að lokum þessar þrjár spurningar. Þessir þrír liðir eru mjög mikilvægir til að styðja við umhverfisveika og varna því að við endum öll umhverfisveik í efnasúpu nútímans.
SUM beinir þessum spurningum til frambjóðenda og stjórnmálaflokka:
1. Hvernig mun þinn flokkur tryggja varúðarregluna (e. precautionary principle), til að stemma stigu við því að milljónir skaðlegra efna flæði á markað til grandlausra neytenda? - rekjanleiki og uppruni - umhverfisvænar vottanir - hringrásarhagkerfi?
2. Hvaða aðgerðir ætlar þinn flokkur að innleiða til að fyrirbyggja aukinn samvöxt raka og myglu í hinu byggða umhverfi? - ástandsskýrslur fasteigna - viðhald opinberra fasteigna - rannsóknir?
3. Hvaða aðgerðir ætlar þinn flokkur að innleiða í heilbrigðiskerfið, svo unnt verði að kortleggja betur umhverfisveikindi? - greiningarlykill - rannsóknir - úrræði til endurheimtar og endurhæfingar (t.d. sambærilegt og fyrir long covid sjúklinga) - fjárstuðningur?
Hér að neðan má sjá svör flokkanna í þeirri röð sem þau bárust.
01
Samfylkingin
Hér koma svör frá Samfylkingunni:
1. Hvernig mun þinn flokkur tryggja varúðarregluna (e. precautionary principle), til að stemma stigu við því að milljónir skaðlegra efna flæði á markað til grandlausra neytenda?
Varúðarreglan er grundvallarregla umhverfisréttar og meginregla sem verður alltaf að vera leiðandi við ákvörðunartöku sem getur haft skaðleg áhrif á umhverfið. Stefna Samfylkingarinnar er skýr um það að meginreglur umhverfisréttar beri að virða og hafa að leiðarljósi. Samfylkingin er fylgjandi EES samstarfinu um frjálst flæði vöru, þjónustu, fjármagns og fólks auk þess að vera Evrópusinnaður flokkur. við styðjum regluverk ESB hvað varðar rekjanleika, uppruna og vottanir. Samfylkingin vill stuðla að auknu gagnsæi og upplýsingagjöf um kolefnisfótspor, uppruna og framleiðsluaðferðir vöru og þjónustu, innanlands og frá útlöndum, og auðvelda neytendum að taka upplýstar ákvarðanir um matarvenjur, ferðavenjur og aðra neyslu. Samfylkingin vill einnig efla rannsóknir sem styðja við þessi markmið.
Þá er Samfylkingin á því að styðja þurfi innlenda framleiðslu, sjálfbærni og hreinar vörur, þar á meðal með því að hvetja bændur til lífrænnar ræktunar og stuðla að nýsköpun í landbúnaði. Innleiðing hringrásarhagkerfis á Íslandi er mikilvæg til þess að draga úr neyslu og sóun og minnka úrgang sem fer til urðunar. Samfylkingin vill einnig efla sjálfbær sveitarfélög og eru sveitarfélög mikilvægir leikmenn og gerendur umhverfismálum. Skipulag skuli miða að mannvænu og grænu umhverfi sem skapi tækifæri til heilsueflandi lifnaðarhátta án skaðlegra efna.
2. Hvaða aðgerðir ætlar þinn flokkur að innleiða til að fyrirbyggja aukinn samvöxt raka og myglu í hinu byggða umhverfi?
Samfylkingin vill tryggja vandað og öruggt húsnæði. Við viljum breyta byggingarreglugerð og skipulags- og mannvirkjalöggjöf til að einfalda regluverk án þess að gefa nokkurn afslátt af öryggis og gæðakröfum. Samfylkingin vill koma á reglulegum samráðsfundum ríkis, sveitarfélaga og verktaka um stöðu íbúðauppbyggingar og vinna að samræmdari túlkun regluverks í skipulags- og mannvirkjamálum. Slíkt samráð er mikilvægt til að vekja upp og fá fram heildræna mynd af ástandi fasteigna, þar á meðal opinberra fasteigna, og af uppbyggingu og framgangi hennar, sér í lagi þegar kemur að vönduðum vinnubrögðum.
3. Hvaða aðgerðir ætlar þinn flokkur að innleiða í heilbrigðiskerfið, svo unnt verði að kortleggja betur umhverfisveikindi?
Örugg skref Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum fela í sér að fólk upplifi öryggi og trausta tengingu við heilbrigðiskerfið. Það felur m.a. í sér að tryggja Íslendingum fastan heimilislækni en slíkt eykur aðgengi, skilvirkni og samfellu í þjónustu til að tryggja snemmbúin inngrip í veikindi fólks. Sú aðgerð mun einnig skipta máli þegar kemur að umhverfisveikindum. Snemmbúin inngrip geta skipt höfuðmáli við framþróun sjúkdóms og bata sjúklinga og breytinga á umhverfi til að sporna gegn versnun einkenna. Aukið aðgengi mun því þjóna mikilvægu hlutverki að þessu leyti.
Samfylkingin vill leita betri leiða til að sporna við því með fyrirbyggjandi aðgerðum að starfsgeta skerðist og aðstoða fólk eftir fremsta megni við að efla og endurheimta starfsgetu þegar þess gerist þörf. Í þeim efnum skipta forvirkar aðgerðir á sviði vinnuverndar sköpum og sömuleiðis virkar vinnumarkaðsaðgerðir, gott aðgengi að starfsendurhæfingu og hvers kyns námstengdum úrræðum.
Samfylkingin er einnig meðvituð um það að loftslagsváin og versnandi áhrif umhverfisins hefur áhrif á heilsu og vellíðan fólks og áttar sig á því að ríki geta gerst brotleg við mannréttindi með því að grípa ekki til fullnægjandi aðgerða þeim til verndar. Í því samhengi eru fyrirbyggjandi aðgerðir, úrræði, eftirlit og fjármunir nauðsynlegir til að stjórnvöld taki með virkum hætti til athafna til að vernda fólk að þessu leyti.
02
Sjálfstæðisflokkur
Hér eru svör frá Sjálfstæðisflokknum:
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á öryggi og heilbrigði þjóðarinnar í öllum sínum verkum.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið á kjörtímabilinu þar sem lögð hefur verið áhersla á loftgæðamál. Nefna má að loftgæðamælum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið fjölgað og þeir uppfærðir miðað við nýjustu tækni og þá hefur verið lögð áhersla á að mæla loftgæði á gosstöðvunum á Reykjanesi.
https://ust.is/loft/loftgaedi/
Ráðherra fól Umhverfisstofnun að gera úttekt á loftgæðum í grunnskólum sbr. nýútkomna skýrslu þar um. Ljóst er að verk er að vinna á þeim vettvangi varðandi rannsóknir og mælingar á vinnustöðum barnanna okkar.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2023/09/04/kanna_loftgaedi_i_skolum_landsins/
Þá lagði ráðherra fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og allar þær aðgerðir sem varða loftgæði og þar koma fram eru mikilvægar.
03
Vinstri græn
Hér eru svör frá Vinstri grænum:
1. Hvernig mun þinn flokkur tryggja varúðarregluna (e. precautionary principle), til að stemma stigu við því að milljónir skaðlegra efna flæði á markað til grandlausra
neytenda?
Vinstri græn hafa ávallt lagt þunga áherslu á að fólk eigi að búa í heilnæmu umhverfi og eiga kost á vottuðum lífrænt ræktuðum varningi og matvælum og vörum sem innihalda ekki skaðleg efni og geta andað að sér heilnæmu lofti hvar sem það er statt. Breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir voru gerðar í umhverfisráðuneyti Guðmundar Inga Guðbrandssonar og Vinstri græn munu halda áfram að leggja til breytingar á lagaumhverfinu og regluverkinu sem snýr m.a. að því að herða eftirlit með innflutningi, innlendri framleiðslu, sölu og förgun markaðsvara m.t.t. til hollustuhátta og mengunarvarna og að fyrirtækjum og framleiðendum sé gert skylt að innleiða hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins í starfsemi sína. Auknar skyldur og ábyrgð þarf að leggja á framleiðendur um heilnæmi vara og auðvelda þarf aðilum og einstaklingum að flokka og koma eiturefnum í réttan farveg. Eins þarf að tryggja réttar merkingar og upprunavottun á vörum á markaði. Þá hafa Vinstri græn flutt tillögur um merkingar á kolefnisspori varnings og matvæla. Vinstri græn vilja banna auglýsingar sem hafa neikvæð áhrif á lýðheilsu fólks þ.m.t. á jarðefnaeldsneyti og eins lögfesta viðurlög við grænþvotti sem kemur í veg fyrir að fyrirtæki geti fullyrt um jákvæð áhrif vöru á umhverfi og heilsu án þess að það sé fótur fyrir því. Vinstri græn vilja innleiða varúðarregluna inn í alla stefnumörkun sem snýr að umhverfi, heilsu og náttúru og þá má nefna tilskipun sem tryggir verndun vatnsbóla og grunnvatns fyrir skaðlegum efnum og mengunarvöldum. Það skiptir miklu máli fyrir umhverfi, neytendur og lýðheilsu. Lögfesta bann við grænþvotti með viðeigandi eftirliti sem kemur í veg fyrir að fyrirtæki séu með fullyrðingar um framleiðslu og vörur og umhverfisáhrif þeirra.
2. Hvaða aðgerðir ætlar þinn flokkur að innleiða til að fyrirbyggja aukinn samvöxt raka og myglu í hinu byggða umhverfi?
Hingað til hafa Vinstri græn staðið fyrir fjölmörgum breytingum til hins betra á lögum og reglugerðum um heilnæmi húsnæðis, algildri hönnun og byggingarreglugerðum. Það verður hins vegar að tryggja það að uppbyggingaraðilar fari eftir skýrum leiðbeiningum, séu menntaðir fagaðilar og fái fræðslu um hvernig koma megi í veg fyrir rakaskemmdir og afleidd áhrif þeirra s.s. myglu. Einnig þarf að tryggja skilvirkt byggingareftirlit ásamt bættum vinnubrögðum byggingaraðferða. Vinstri græn gefa engan afslátt á ströngum kröfum til uppbyggingaraðila um algilda hönnun og heilnæmi húsa og leggja áherslu á að réttarstaða fólks sem hefur orðið fyrir heilsutjóni vegna skaðlegs húsnæðis sé tryggð.
Þá er mikilvægt að taka út húsnæði með reglubundnum hætti, eigendum að kostnaðarlausu og að áhættuþættir rakaskemmda séu kannaðir í lokaúttekt nýs húsnæðis og að í öllu uppbyggingarferlinu sé lögð áhersla á þætti sem geta valdið raka og myglu. Við viljum tryggja að nýjar byggingar og viðhald á eldri byggingum uppfylli hæstu staðla til að vernda lýðheilsu og tryggja öruggt og heilbrigt umhverfi.
Þá vilja Vinstri græn verja auknu fé í rannsóknir á raka og myglu í byggingum og hvernig best er hægt að koma í veg fyrir hana og halda áfram að bæta inniloft og heilnæmi bygginga.
3. Hvaða aðgerðir ætlar þinn flokkur að innleiða í heilbrigðiskerfið, svo unnt verði að kortleggja betur umhverfisveikindi?
Vinstri græn telja fulla þörf á því að búa til heildstæða áætlun í breiðu samtali og samvinnu við heilbrigðisyfirvöld, sveitarfélög, verkalýðsfélög, félagasamtök og hagsmunahópa og fá yfirsýn yfir leiðir til að koma í veg fyrir veikindi vegna margvíslegra umhverfisþátta og fá fram tillögur um hvernig best er að mæta fólki sem hefur orðið fyrir heilsutjóni og afleiddum áhrifum þeirra s.s. atvinnu- og húsnæðismissis og fleiri lífs-og geðskerðandi þátta sem veikindin hafa á þá sem fyrir þeim verða.
04
Píratar
Hér eru svör frá Pírötum:
1. Hvernig mun þinn flokkur tryggja varúðarregluna (e. precautionary principle), til að stemma stigu við því að milljónir skaðlegra efna flæði á markað til grandlausra neytenda?
Náttúran og heilsa fólks á alltaf að njóta vafans. Rekjanleika á innihaldi matvæla á að setja í lög með gagnsæi að leiðarljósi – enda er gagnsæi eitt af mikilvægustu áhersluatriðum Pírata. Efnahagsmálum þarf að haga út frá sjónarmiðum velsældar- og hringrásarhagkerfisins en Píratar byggja vinnu sína ávallt á þekkingu og viðeigandi vísindum. Við leggjum enn fremur áherslu á að efla eftirlitsaðila á borð til Umhverfisstofnun og mikilvægi þess að verja umhverfi, loftslag og heilsu fólks.
2. Hvaða aðgerðir ætlar þinn flokkur að innleiða til að fyrirbyggja aukinn samvöxt raka og myglu í hinu byggða umhverfi?
Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn myglu eru einmitt á stefnuskrá Pírata auk þess að styðja við þau sem veikjast af myglu. Píratar telja að endurvekja þurfi myglurannsóknir og aðrar byggingarrannsóknir sem hætt var með aflagningu Rannsóknarmiðstöðvar byggingariðnaðarins, enda af nógu að taka. Gæði og fjölbreytileiki á húsnæðismarkaði eru markmið Pírata, ásamt því að vinna gegn myglu og raka og bæta lánakjör með stöðugri gjaldmiðli. Píratar ætla að standa með réttindum mygluveikra með skýrum ramma í kringum tryggingar vegna mygluskemmda.
Mikilvægt er að umhverfis- og mygluveikindi séu tekin alvarlega, að hlustað sé á þolendur og þeim hjálpað áfram í ferlinu og að heilbrigðiskerfið aðlagi sig að nýlegum rannsóknum og upplýsingum.
Píratar leggja áherslu á nýsköpun og þróun fyrirbyggjandi byggingaraðferða og -efna, á borð við hamp og hampsteypu, og vilja tryggja útbreiðslu þekkingar þegar kemur að forvörnum gegn myglu í húsnæði. Þannig styðja Píratar við nýsköpun í notkun innlends byggingarefnis og aukningu hráefnis sem er umhverfis- og náttúruvænt. Við þurfum að nýta þekkingu erlendis frá í auknum mæli og miðla þessum upplýsingum betur til fagaðila. Tryggja þarf fullnægjandi viðhald á opinberum eignum og innleiða matskerfi og eftirlit með framkvæmdum. Þannig er komið í veg fyrir gallaðar nýbyggingar og brugðist rétt við vandamálum sem koma upp á byggingartíma. Skapa þarf ramma í kringum tryggingar vegna mygluskemmda og stuðla að vitundarvakningu um skaðsemi myglu og áhrif á heilsu.
3. Hvaða aðgerðir ætlar þinn flokkur að innleiða í heilbrigðiskerfið, svo unnt verði að kortleggja betur umhverfisveikindi?
Uppbygging og þróun heilbrigðiskerfisins þarf að vera gagnsæ, til dæmi með opinberri tölfræði um öll svið þjónustunnar. Vísindalegar aðferðir skulu liggja að baki ákvörðunum í heilbrigðiskerfinu, hvort sem um er að ræða stefnumótun kerfisins eða ákvarðanir varðandi einstaka sjúklinga.
Píratar munu fjármagna gott heilbrigðiskerfi og vilja þeir einfalda umsóknarferlin og draga úr skerðingum á örorku- og endurhæfingarlífeyri.
Píratar hugsa kerfin út frá þörfum fólks, með áherslu á velsæld þess og umhverfi. Þannig nýtum við okkur tækifærin sem felast í tækni, nýsköpun og umbótahugsun þegar kemur að opinberri stjórnsýslu, menningu, listum, íþróttum, umhverfismálum, menntun, heilbrigðisþjónustu, velferðarþjónustu, öldrunarþjónustu og alls staðar þar sem hægt er að leysa málin á uppbyggilegri hátt.
05
Miðflokkurinn
Hér eru svör frá Miðflokki:
1. Hvernig mun þinn flokkur tryggja varúðarregluna (e. precautionary principle), til að stemma stigu við því að milljónir skaðlegra efna flæði á markað til grandlausra neytenda?
Það er augljóst mál að hér á landi verðum við að tryggja sem best hreinleika umhverfisins til að hollusta þeirra matvæla sem hér eru framleidd sé hafin yfir vafa. Við Íslendingar eigum
mikið undir þegar kemur að því að tryggja hollustu og hreinleika og Miðflokkurinn styður allar
skynsamlegar aðgerðir til þess að ná því markmiði. Það tónar enda fullkomlega við áherslur flokksins í umhverfis- og loftslagsmálum.
2. Hvaða aðgerðir ætlar þinn flokkur að innleiða til að fyrirbyggja aukinn samvöxt
raka og myglu í hinu byggða umhverfi?
Miðflokkurinn áttar sig á þeim mikla vanda sem fylgir raka og myglu í húsum en nánast má tala hann um sem þjóðarböl. Stórefla þarf rannsóknir á þessu sviði og tryggja að enginn lifi
eða starfi í óheilsusamlegu húsnæði.
3. Hvaða aðgerðir ætlar þinn flokkur að innleiða í heilbrigðiskerfið, svo unnt verði
að kortleggja betur umhverfisveikindi?
Miðflokkurinn leggur áherslu á að heilbrigðis- og eftirlitskerfið sé sem skilvirkast við að takast á við raunveruleg vandamál sjúklinga og almennings. Við treystum á sérfræðinga til þess en
hlutverk stjórnmálamanna er síðan að hafa eftirlit með því að orka og fjármunir samfélagsins beinist á rétta staði. Það telur Miðflokkurinn vera eitt höfuðhlutverk sitt, öllum landsmönnum
til heilla.
------- Valkvæðar aukaspurningar:
4. Hvar eru umhverfis- og heilbrigðismál í forgangsröð þíns stjórnmálaflokks?
Miðflokkurinn vill ekki aðskilja umhverfis- og loftslagsmál og leggur því höfuðáherslu á hreint og heilbrigt umhverfi sem er forsenda fyrir heilbrigði landsmanna og sjálfbærri matvælaframleiðslu í landinu. Ljóst er að með vaxandi kröfum í umhverfismálum verða þjóðir heims hver fyrir sig að sjá um að eyða því sorpi sem til fellur með umhverfisvænum og
hagkvæmum hætti. Flokkurinn vill því átak í sorp- og frárennslismálum landsmanna.
5. Hvernig ætlar þinn flokkur að tryggja réttinn til heilnæms umhverfis, sem hefur verið viðurkenndur sem sjálfstæð mannréttindi á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna?
Ein höfuðáhersla Miðflokksins er að huga að hreinleika, hollustu og heilbrigði umhverfisins og þá frekar en að setja gríðarlega fjármuni í illa skilgreindar loftslagsaðgerðir. Miðflokkurinn
telur mikilvægt að leysa þau vandamál sem sannarlega liggja fyrir í umhverfi mannsins í dag og geta strax bætt lífsgæði landsmanna.
6. Hvaða aðgerðir ætlar þinn flokkur að leggja áherslu á í nýsamþykktri aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum?
Miðflokkurinn vill vinna að skynsömum lausnum til að tryggja heilbrigði og hollustu umhverfisins. Allar aðgerðir sem stuðla að betri loftgæðum og minni loftmengun falla undir slíkt og mikilvægt er að tryggja íbúum landsins heilnæmt umhverfi til að lifa og starfa í.
06
Viðreisn
Hér eru svör frá Viðreisn:
1. Hvernig mun þinn flokkur tryggja varúðarregluna (e. precautionary principle), til að stemma stigu við því að milljónir skaðlegra efna flæði á markað til grandlausra neytenda?
Viðreisn stendur vörð um almannahagsmuni en ekki sérhagsmuni og í því felst að almenningur og umhverfi eigi ávallt að njóta vafans. Stefna Viðreisnar lítur til þess að vernda umhverfið og stuðla að sjálfbærri þróun með fyrirbyggjandi aðgerðum og styðst við svokallaða mengunarbótareglu sem byggir á því að þau sem eru ábyrg fyrir mengun og umhverfisspjöllum skulu greiða kosnaðinn. Þá er samstarf ríkja forsenda þess að koma í veg fyrir að einstaklingar og fyrirtæki fari á svig við lög og reglur í skjóli alþjóðlegrar starfsemi og stærðar. Ísland á að vera virkur þátttakandi í því starfi.
Það er stefnumál flokksins að unnin verði aðgerðaáætlun um hringrásarhagkerfið með árangursvísum og markaðslausnum til þess að tryggja framgang þess. Stefnt verði að því að meta árangur og styðja fjárlagagerð með alþjóðlega viðurkenndum velsældarvísum sem taka mið af öllum stólpum sjálfbærrar þróunar. Áhersla verði lögð á gagnsæja miðlun upplýsinga samhliða auknu samráði við almenning í umhverfismálum. Stórefla þarf fræðslu um hringrásarsamfélagið, úrgangsforvarnir og bætta framleiðsluhætti. Koma þarf á kerfi, með efnahagslegum hvötum og merkingum, sem hvetur til framleiðslu á endingargóðum vörum, þar sem viðgerðir verði að hagkvæmum og raunhæfum valmöguleika. Þá lítur Viðreisn svo á að hið opinbera sé vel til þess fallið að vera neytendum fyrirmynd í umhverfisvænni neyslu.
2. Hvaða aðgerðir ætlar þinn flokkur að innleiða til að fyrirbyggja aukinn samvöxt raka og myglu í hinu byggða umhverfi?
Viðreisn vill að öryggismál og hollustuhættir í hinu byggða umhverfi séu tekin alvarlega og að enginn afsláttur verði gefin af því að lögum og reglum, sem að því snúa, sé framfylgt. Mikilvægt er að halda áfram með vinnu um endurskoðun laga og reglugerða með tilliti til raka og mygluvaxtar í húsnæði og að skýra ábyrgð, réttarstöðu og neytendavernd í tengslum við tryggingar og fasteignaviðskipti. Gagnlegt er að skoða möguleika á eftirliti með framkvæmdum og að líta til þeirrar þekkingar sem þegar er til staðar hérlendis sem og til þeirra nágrannalanda sem lengra eru komin í þessum efnum. Þá telur Viðreisn að hætt sé við því að reglulegt viðhald fasteigna mæti afgangi í því óstöðuga vaxta- og verðbólguumhverfi sem íslenskir húsnæðiseigendur hafa búið við. Úr því þarf að bæta.
3. Hvaða aðgerðir ætlar þinn flokkur að innleiða í heilbrigðiskerfið, svo unnt verði að kortleggja betur umhverfisveikindi?
Viðreisn hefur lagt sig fram um það í sinni kosningabaráttu að hlusta á þjóðina og heyra hvaða mál kjósendur telja mikilvægust. Flokkurinn vill mæta þörfum fólks og gera betur í heilbrigðismálum þannig að jafnræðis sé gætt við að veita veikum einstaklingum viðeigandi aðstoð. Þá leggur Viðreisn áherslu á að biðlistar barna í heilbrigðiskerfinu heyri sögunni til og að sálfræðiþjónusta sé gjaldfrí fyrir þau. Í stefnu Viðreisnar er lögð áhersla á að heilbrigðisþjónusta sé fyrir öll, óháð rekstrarformi. Einfalda og samþætta þarf kerfið þannig að það sé skiljanlegt og aðgengilegt fyrir öll því kerfið á að vera fyrir fólk en ekki öfugt. Virkja þarf einstaklingsframtak til að takast á við áskoranir framtíðarinnar og tryggja fjölbreytt rekstrarform í heilbrigðiskerfinu. Viðreisn leggur jafnframt áherslu á að tryggja jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.
Í þessu samhengi telur Viðreisn eðlilegt að eiga þverfaglegt samtal, í samráði við þau sem málin varða, um hvernig best er staðið að móttöku umhverfisveikra. Slíkt kallar á að næg þekking á umhverfisveikindum sé til staðar svo greiningarlyklar og möguleg samþætt innleiðing úrræða skili tilætluðum árangri. Forvarnir og fræðsla eru einnig mikilvægir þættir í mótun hverskonar aðgerða og gagnlegt að líta til fyrirkomulags hjá þeim nágrannaþjóðum sem við getum lært af og viljum bera okkur saman við.