top of page
Search

Þekkja algeng einkenni

Gagnlegt er að skoða algeng einkenni umhverfisveikinda s.s. af völdum rakaskemmda og myglu til að athuga hvort þú kannast við eitthvað af þeim.


Undir flipanum einkenni hér á vefsíðunni má finna lista yfir helstu einkennin.


Mjög mismunandi er eftir einstaklingum hvaða heilsufarseinkenni koma upp í menguðum aðstæðum. Það fer eftir genamengi og heilsufarsástandi viðkomandi og er einnig mismunandi á milli þeirra eiturefna sem mengunarvaldurinn gefur frá sér. Þá geta mismunandi myglusveppategundir gefið frá sér eiturefni sem herja með ólíkum hætti á líkamskerfin.


Þannig geta einstaklingar innan sömu fjölskyldu fundið fyrir mjög mismunandi einkennum í sömu menguðu aðstæðunum.


Einn fullorðinn aðili getur verið með svæsið nikkelofnæmi, þjáðst af síþreytu, heilaþoku, liðverkjum, bólgum milli herðablaða og verið slæmur í sin á öðrum fæti á meðan annar getur verið með fjölmörg fæðuóþol og hrotið afar hátt á nóttunni. Eitt barnið getur verið grátgjarnt með svefnleysi, astma og húðútbrot en annað barn kvíðið með sár/hrúður í hársverði, gjarnt á að fá hitavellu og endurteknar sýkingar í slímhúð. Þriðja barnið á heimilinu getur svo verið nánast einkennalaust.

Mikilvægt er að hafa vökult auga með einkennum og hafa skilning á því að öll erum við mismunandi. Því skal varast að útiloka nokkuð fyrirfram eða hrapa að ályktunum um sjúkdómsgreiningar eða láta duga að vinna með einkennin án skilnings á því hvað kann að orsaka þau.


-----------


Ef minnsti grunur leikur á að umhverfið sé valdur að endurteknum eða viðvarandi heilsufarseinkennum er það næg ástæða til að bregðast við.


Raki og mygla í húsnæði gefur undantekninglausa ástæðu til að grípa til aðgerða og fara í tafarlausar lagfæringar á húsnæðinu. Alþjóða heilbrigðisstofnunin staðfestir að óyggjandi samband er á milli rakaskemmda og heilsufars og getur slíkt ástand rutt af stað ýmiskonar annarri umhverfisviðkvæmni hjá þolanda.


Viðvarandi raki í byggingarefnum skapar ávallt ónæg loftgæði innandyra vegna þeirrar efnasúpu sem myndast og þau gufa frá sér. Varast skal að taka því trúanlega að rakaskemmdir geti verið án myglu/eiturefnaáhrifa eða að einhverjar sveppategundir sem tekið hafa sér bólfestu í byggingarefnum séu „góðkynja" og þar með meinlausar fyrir heilsuna.


Heilsan á alltaf að njóta vafans!




Comments


bottom of page