top of page
Search

Fara úr aðstæðum

Árangursríkasta leiðin til að athuga hvort eitthvað er að erta þig, er að „fara úr aðstæðunum".


Þessi leið er mjög mikilvæg til að ná að einangra áreitið og öðlast skilning á hvað veldur ertingu. Skilningur og viðurkenning á umhverfisáreitinu hjálpar einnig til við að geta tekist á við aðstæðurnar af yfirvegun og með réttum aðferðum í framhaldinu.


Athugaðu að oft getur áreiti verið marglaga og samverkandi. Þá er jafnvel um að ræða mörg áreiti á sama tíma og erfitt að aðgreina eitt frá öðru. Einnig geta komið upp margfeldisáhrif í líkamanum sem þýðir að fleiri en eitt áreiti espa hvert annað upp. Þannig geta afleiðingar safnast saman í einskonar einkennakokteil sem eykur mjög álag á geð og líkama. Þá getur hvert áreiti verið smávægilegt ef það er einangrað en saman geta þau farið yfir þolmörk líkamans.


Með því að fara úr aðstæðum er t.d átt við að forðast áreitið með því að fara af heimilinu og sofa annarsstaðar, losna úr viðvarandi vinnurými, forðast að borða einhvern ákveðinn mat, sleppa því að nota tilteknar snyrtivörur, ekki ganga í vissum fötum eða nota ákveðin efni, fjarlægja nýja húsgagnið í bili o.frv. Allt eftir því að hvaða þætti sjónir beinast.

Mælt er með að halda sig frá aðstæðum í eina viku, stundum lengur, ná upp endurheimt og bættri líðan og fara svo aftur inn í aðstæðurnar. Ef öll gömlu einkennin blossa upp við að stíga aftur inn, þá er auðveldara að finna út úr því hvað er að valda ertingu og vanlíðan.


Það getur krafist nokkurra skipta að fara úr aðstæðum á þennan hátt. Tilraunir sem þessar krefjast mikillar þolinmæði. Gott ráð, ef um tiltekinn smærri hlut er að ræða sem grunur leikur á að valdi áreiti, er að pakka honum ofan í plastkassa og setja inn í geymslu, geyma í 1-2 vikur og taka svo aftur upp úr plastkassanum. Ef einkenni gera strax vart við sig er ljóst að hluturinn er mengaður af einhverju sem veldur áreiti á þitt líkamskerfi og því gott að geyma hann áfram í plastkassanum þar til mótstaða líkamans er orðin meiri eða taka ákvörðun um að láta hlutinn fara.


Það er alveg til í dæminu að fólk geti tekið hreinsaða hluti aftur í notkun þegar það hefur náð betri heilsu. Þó er það misjafnt milli einstakllinga og fer eftir því hversu vel hefur tekist að hreinsa hlutinn t.d. ef hann hefur mengast í rakaskemmdu húsnæði. Eins getur einn einstaklingur fundið fyrir miklu áreiti vegna hlutar á meðan annar útsettur einstaklingur finnur ekki fyrir neinu.

Ef hluturinn hefur persónulegt gildi mælum við alltaf með að geyma hann fyrst um sinn, jafnvel í nokkur ár og athuga svo aftur með þolmörkin þegar búið er að byggja upp heilsu á ný. Mikilvægast er að taka ekki of afdrifaríkar ákvarðanir, mitt í miklum heilsubresti, en finna eins skynsamlega leið og hægt er til að forðast áreitið og setja heilsuna í fyrsta sæti!


-----------


Ef minnsti grunur leikur á að umhverfið sé valdur að endurteknum eða viðvarandi heilsufarseinkennum er það næg ástæða til að bregðast við.


Raki og mygla í húsnæði gefur undantekninglausa ástæðu til að grípa til aðgerða og fara í tafarlausar lagfæringar á húsnæðinu. Alþjóða heilbrigðisstofnunin staðfestir að óyggjandi samband er á milli rakaskemmda og heilsufars og getur slíkt ástand rutt af stað ýmiskonar annarri umhverfisviðkvæmni hjá þolanda.


Viðvarandi raki í byggingarefnum skapar ávallt ónæg loftgæði innandyra vegna þeirrar efnasúpu sem myndast og þau gufa frá sér. Varast skal að taka því trúanlega að rakaskemmdir geti verið án myglu/eiturefnaáhrifa eða að einhverjar sveppategundir sem tekið hafa sér bólfestu í byggingarefnum séu „góðkynja" og þar með meinlausar fyrir heilsuna.


Heilsan á alltaf að njóta vafans!Comments


bottom of page