Það er mjög mikilvægt að huga vel að svefnheilnæmi.
Með svefnheilnæmi er átt við á hverju við sofum, í hverju og með hvað, hvernig loftun er í svefnherberginu okkar og hvort rafmengun er vandamál þar. Eins skipta góðar svefnvenjur afar miklu máli. Þó svo uppbyggingu heilsunnar miði hægt áfram eftir að upp kemst um umhverfisáreiti og við upplifum að vera með fá bjargráð til að koma okkur úr aðstæðum eða minnka streitu og áreiti, er samt mikilvægt að hlúa sérstaklega vel að svefninum. Á meðan á svefni stendur vinna viðgerðarkerfi líkamans þarft verk. Þar verður endurheimtin til, þar endurnýja frumurnar sig, vinna úr áreiti dagsins og búa sig undir áreiti næsta dags. Það er því mikilvægt að reyna að stuðla að eins miklum svefngæðum og frekast er mögulegt.
Venjulega verjum við miklum tíma í svefnherberginu okkar og enn meiri tíma ef við erum endurtekið rúmliggjandi vegna veikinda. Því er mikilvægt að halda öllu áreiti þar í algjöru lágmarki þennan dýrmæta tíma sem við dveljum þar, hvort sem við erum orðin verulega veik eða veikindin óveruleg.
Best er ef svefnherbergið er hreinn griðastaður og hvíld frá öllu því áreiti sem við upplifum dags daglega í formi rafmengunar, óhreininda, flókinna efna og útgufunar frá þeim. Þannig skal tryggja að dýnan gufi ekki út eiturefnum, t.d VOC úr svampi, minnissvampi eða öðrum gerviefnum, að koddar séu úr eins náttúrulegu efni og unnt er, að öll sængurföt og einnig náttföt séu úr 100% náttúrulegum efnum og jafnvel lífrænum. Margir sem þróa með sér efnaóþol í kjölfar umhverfisveikinda (MCS) þola illa útgufun af latexi og jafnvel náttúrulatexi í uppbyggingarferlinu. Einnig skal hafa í huga að slökkt sé á wifi og/eða rafmagni á svefntíma. Að auki gæti verið ráð að fá sérfræðing til að mæla fyrir flökkustraumum og kanna hvort eða hvernig jarðtenging er í húsnæðinu. Þetta getur aukið stórlega á svefngæðin.
Það getur verið gott að sofa frekar í ulllarfatnaði og hafa gluggann opinn upp á gátt að því tilskildu að loftgæði utandyra séu í lagi. Sumum finnst gott að sofa með lofthreinsitæki, rakatæki eða jafnvel viftu en þá er best að stinga þeim tækjum beint í samband í vegginn eða reyna að hafa raftæki inni í svefnherberginu ekki í gegnum fjöltengi. Eins skipta önnur húsgögn máli, t.d borð, stólar, föt, bækur, tímarit og fleira. Við mælum með því að reyna að hafa sem minnst inn í svefnherbergjum, jafnvel einungis rúmið sjálft á meðan á uppbyggingarferli stendur. Þá er mikilvægt að fara hreinn í rúmið og skilja önnur föt en náttföt eftir fyrir utan svefnherbergisdyrnar. Ef mikil viðkvæmni eða umhverfisveikindi hafa átt sér stað og efni í rúmdýnu er ekki náttúrulegt, getur reynst sparnaðarráð að plasta hana og leggja náttúrulega yfirdýnu eða ullar-vatterað lak ofan á. Byko selur t.d ódýrt húsgagnaplast sem gufar ekki frá sér miklum eiturefnum.
Mörgum hefur gagnast vel að taka steinefnið magnesíum fyrir svefninn en það styður við ýmsa ferla í líkamanum og hjálpar til við svefn.
Commentaires