top of page
Search

Vinnan

Ef þig grunar að eitthvað á vinnustað sé að valda ertingu og hafa áhrif á heilsuna, ekki hika við að prufa þær leiðir sem nefndar eru hér sem fyrstu viðbrögð undir úrræði á vefsíðunni - að halda dagbók, prufa að vera frá vinnusvæði nokkra daga í röð o.frv.


Ef grunur þinn reynist réttur og eitthvað í vinnunni virðist valda ertingu sbr upptalningu á einkennum umhverfisáreitis hér á vefsíðunni, talaðu þá við vinnuveitanda þinn og láttu vita af áhrifunum. Segðu frá því að þú sért að finna fyrir umhverfisáreiti sem líkist viðbrögðum við efnamengun eða rakaskemmdum og myglu í húsnæði. Ef þú hefur séð leka, rakaskemmdir eða myglu í húsnæðinu eða tengir áreitið við ákveðnar staðsetningar, endilega nefndu það líka og óskaðu eftir að brugðist verði tafarlaust við.


Það er skynsamlegt að stinga upp á úttekt frá fagaðila ef engin ummerki um raka og myglu eru sýnileg, til að fá úr því skorið hvort falin rakavandamál gætu verið tilfellið. Í það minnsta væri þá búið að útiloka það og hægt að leita annarra skýringa í framhaldinu.

Ef þú ert að vinna daglega með kemísk eða rokgjörn efni (VOC) án sérstaks varnarbúnaðar eða magn efna sem eiga greiða leið á húð, í augu eða ofan í öndunarfæri, kynntu þér þá öryggisreglur þar að lútandi og fáðu vinnuveitanda í lið með þér til að fara faglega yfir þau mál. Í Iðnstörfum s.s bygginga-, og málningavinnu eða hárgreiðslu, eða hvar sem eiturefni eru stöðugri notkun, er sérstök ástæða til að kynna sér málin til hlítar og vera á varðbergi gagnvart umhverfisáreiti.


Við mælum með að nálgast viðfangsefnið af nærgætni og virðingu, við alla sem eiga hlut að máli, því þetta getur verið viðkvæmt í meðförum. Við hvetjum þig til að hafa góð gögn með tilkynningunni um heilsufarstengdan grun þinn eins og ritrýndar rannsóknir og tengla inn á upplýsingar um umhverfisveikindi líkt og þær upplýsingar sem hér er að finna á vefsíðunni.


Á heimasíðunni innivist.com má finna vísun í reglur og lög sem eiga við um heilnæmi á vinnustöðum. Einnig ætti að vera hægt að leita eftir leiðbeiningum vinnueftirlitsins í hverju sveitarfélagi, ef ástandið lítur út fyrir að vera slæmt.


Athugið að loftraki getur verið fremur lágur í skrifstofurýmum og er það að líkindum vegna þeirra rafmagnstækja og pappírsmagns sem þar er gjarnan í miklu magni. Ekki er beint samband milli loftraka og þess hvort raki sé vandamál í byggingarefnum t.d inni í veggjum, undir gólfefnum eða í þaki.

Til þess að kanna rakastig í byggingarefnum þarf að fá fagaðila til að mæla það með þar til gerðum rakamæli. Vert er að nefna að þar sem er viðvarandi raki í byggingarefnum, þar kviknar óæskilegt líf og úr verður efnakokteill rokgjarnra efna og örvera/lífvera sem stígur út í andrúmsloftið og er ávallt óheilsusamlegur


Ef enginn raki finnst í byggingunni og loftraki er lágur, athugaðu þá loftun í vinnurýminu og hvort þú getur fengið vinnuveitendann til að fjárfesta í rakatæki, lofthreinsitæki, viftu, rakamæli og/eða plöntum sem hafa jákvæð áhrif á rakastig og loftgæði. Varaðu þig samt á því að viðvarandi raki og mygla getur myndast í mold plantnanna, þannig að gerðu viðvart um að nauðsynlegt sé að viðhafa nákvæm vinnubrögð í allri vökvun og að skipta skuli um mold reglulega.


Comments


bottom of page