Þegar veikinda hefur verið vart í húsnæði sem sýkt er af völdum raka og myglu, þarf ávallt að hreinsa þá muni sem nota á áfram, eigi þeir sem veikst hafa að eiga nokkurn möguleika á að geta umgengist þá.
Þegar kemur að því að ákveða hvað af innanstokksmunum skuli taka úr sýktu húsnæði og reyna að hreinsa og nota áfram, þarf að hafa í huga hversu lengi húsnæðið hefur verið sýkt, hversu mikil eða alvarleg einkenni hinna veiku kunna að vera, sem og um hverskonar hluti er að ræða.
Við hjá samtökunum SUM viljum leggja áherslu á að þar sem koma upp vafamál sé mikilvægast að láta heilsuna njóta vafans. Þó er einnig mikilvægt að taka engar hvatvísar ákvarðanir þegar veikindin eru sem verst. Hér gildir hinn gullni meðalvegur sem hver verður að finna í eigin aðstæðum. Við mælum með að hér sé leitað ráðgjafar en ýmsir aðilar sérhæfa sig í mygluráðgjöf og mygluþrifum.
Við hreinsun á innbúi mælum við með að vera í hlífðarbúnaði og með grímu. Þeir sem veikst hafa ættu að forðast að standa sjálfir í hreinsun á innbúi eða búnaði.
Reynslan sýnir að erfitt er að hreinsa hluti eins og tau, áklæði, fatnað, raftæki, bækur, pappír, tréhúsgögn, leikföng, rúm, sófa, sængur og kodda. Auðveldara getur reynst að þrífa harða hluti með slétt yfirborð eins og gler, stál og hart plast. Þó getur plast oft ýft upp styrkleika myglusveppa á svipaðan hátt og raftæki og það þarf að vera öruggt að ekkert snertismit hafi átt sér stað yfir í plastið.
Við bendum hér sérstaklega á umfjöllun um svefnheilnæmi hér á vefsíðunni en samtökin mæla með því að reyna ekki undir neinum kringumstæðum að þrífa eða „bjarga” svefnvöru. Svefninn er það mikilvægur í endurheimtarferlinu að þar má hvergi gefa afslátt.
Коментарі