Ef grunur leikur á rakamyndun, myglusveppum, örveruvexti eða öðrum skemmdum á húsnæði er mjög mikilvægt að fara viðurkenndar leiðir í lagfæringum, þar sem tekið er tillit til heilsufarssjónarmiða.
Á heimasíðunni innivist.com hefur Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur og fagstjóri EFLU, tekið saman upplýsingar um hvernig ber að snúa sér í lagfæringum á húsnæði vegna mygluskemmda, rakavandamála eða annarra vágesta sem geta herjað á húsnæði og skert gæði innivistar.
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því við rakaskemmdir, að ekki er nægilegt að gera einungis við skemmdina sjálfa, td með því pússa upp steypu og mála yfir, heldur er mikilvægt að finna orsök og upptök vandamálsins. Ef það er ekki gert, er einungis verið að gera illt verra og vandamálið heldur áfram að grasserast, og þó myglusveppur, raki eða annað umhverfisáreiti sé ekki sýnilegt, getur það enn valdið heilsubresti. Það er enn fremur mikilvægt að afla sér upplýsinga um byggingarefnið og jafnvel taka sýni og láta greina vöxt og tegund myglusveppar eða annars vágesta. Athugið að myglusveppur getur vaxið og dreift sér í steypu, og flest öllum byggingarefnum.
Þegar þess er freistað að stöðva lekann, gera við rakaskemmdir og uppræta myglusveppagróður, er mjög mikilvægt að einangra þær vistarverur sem þarfnast lagfæringa. Þegar hafist er handa við að rífa niður sýkt byggingarefni, t.d fletta upp parketi, rífa niður flísar eða brjóta upp sýkta steypu, geta myglugró og losun ýmissa óæskilegra efna smitast yfir í aðrar vistverur og valdið þar frekara tjóni fyrir hin útsettu.
Eins er áríðandi að vera með réttan búnað og varnir þegar ráðist er í viðgerðir. Sumsé að hafa viðeigandi grímur, hanska og hlífðargalla til að forða því að fá magn myglugróa eða sveppahluta ofan í lungu eða á húð og hár.
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að ekki er er það alltaf svo, að sá sem hefur orðið veikur í sýktu húsnæði, geti snúið þangað aftur, þrátt fyrir viðeigandi viðgerðir og hreinsun innandyra. Á því er allur gangur og þar skiptir tímalengd veikinda og alvarleiki rakans máli, sem og hvernig og hvort rakaskemmdir hafi dreift úr sér. Það þýðir þó alls ekki að aðrir, sem ekki hafa orðið veikir í þessu tiltekna sýkta húsnæði, geti ekki búið þar við góða heilsu að lagfæringum loknum. Þetta er afar persónubundið og þarf að meta hverju sinni.
Það sem skýrir eins manns kveikju (e. trigger) er yfirleitt tiltekin myglusveppategund eða efnasúpa sem myndast í röku byggingarefni, sem hefur á einhverjum tímapunkti farið yfir þolrif þess sem er útsettur fyrir henni. Það getur þýtt að jafnvel örlítið áreiti að loknum viðgerðum, sem aðrir vinna venjulega úr, nái að kveikja á viðvörunarkerfi viðkomandi með afleiðingum fyrir hann, án þess að hafa nokkur áhrif á aðra í kring.
Fyrir frekari upplýsingar um hreinsun á húsbúnaði bendum við á umfjöllun um heimilið sem finna má undir liðnum uppbygging og bataferli hér á vefsíðunni.
Comments