top of page
Search

Heimilið

Það skiptir miklu máli að finna hvað það er innan veggja heimilisins sem veldur ertingu.


Efnanotkun inni á heimilum hefur áhrif á loftgæðin, hvort sem um er að ræða hreinsi- og þvottaefni sem innihalda ilm- og eiturefni eða barnaleikföng með ríku magni af plastþalötum eða rúmdýnur úr massívum gerviefnum sem við svitnum í og tökum útgufun frá inn í gegnum líkamann. Þar sem ekki er gætt að efnanotkun og loftræstingu, getur smám saman myndast óheilnæmt inniloft.


Þegar rakaskemmda- og myglumál koma upp, bætist verulega í efnasúpuna innandyra. Í slíkum tilfellum þarf að finna upptök lekans eða rakans, stöðva hann og koma í veg fyrir áframhaldandi vandamál áður en viðgerð hefst á byggingahlutum vegna skemmdanna.


Sumir þolendur þurfa að flytja úr húsnæðinu, tímabundið eða varanlega en öðrum nægir að gera við skemmdirnar með því að stúka viðgerðarsvæðið af á meðan.

Þetta getur verið eins mismunandi og tilfellin eru mörg. Mikilvægt er að fá verktaka sem hefur þekkingu á viðgerðum á rakaskemmdum og myglu og þekkir til þeirra heilsufarsáhrifa sem slíkar skemmdir geta haft. Verktakinn þarf að viðhafa viðeigandi vinnubrögð og gæta þess að dreifa ekki gróum um allt rýmið. Gott merki um að verktaki hafi þekkingu á því við hvað er að eiga, er að hann notar sjálfur viðeigandi hlífðarbúnað við viðgerðirnar.


Þegar meta á viðgerðir skiptir máli hversu lengi húsnæðið hefur verið sýkt, hversu alvarleg einkenni hemilisfólks eru orðin og hvar skemmdirnar liggja. Ef um er að ræða rakaskemmdir út frá útveggjum, getur oft verið erfitt og kostnaðarsamt að uppræta vandann með því að fara í viðunandi lagfæringar fyrir þolendur sem eru orðnir útsettir fyrir minnsta áreiti. Ef um er að ræða leka inn um staka glugga, getur vandamálið verið auðveldara viðfangs og ekki eins kostnaðarsamt í framkvæmd. Hið sama á við ef uppþvottavél hefur lekið undir gólfefni. Þó ber að hafa í huga að gagnger hreinsun á húsnæðinu í heild, þar sem allt fyrra áreiti, gufur, agnir og afleiður hafa verið fjarlægðar úr andrúmsloftinu, getur verið alger forsenda þess að einstaklingur sem er orðinn verulega veikur, geti búið þar áfram.


Margir þættir skipta hér máli, eins og hversu hratt er brugðist við lekanum og hversu stórt svæði er undir, hversu lengi ástandið hefur varað og hvaða aðrir vágestir eru komnir með rakanum eins og örverur, lífverur, mítlur, maurar, rottur o.fl. Eins þarf að huga vel að smitum eða mengun í innbúi, veggjum og innréttingum. Þá þarf að huga sérstaklega að krosssmiti á meðan á viðgerð stendur.

Stundum getur raki verið það alvarlegur og veikindi það mikil að einstaklingur sem búið hefur í húsnæðinu þarf að segja alfarið skilið við það. Í þannig tilfellum borgar sig ekki fyrir hann að taka neitt með sér, ekki einu sinni sparirnar utan af sér. Sumum reynist mikilvægt að fara þessa leið og hafa slíkar aðferðir oft hraðað endurheimt heilsunnar töluvert. Í alvarlegustu tilfellunum getur þetta úrræði, að yfirgefa húsnæði með nákvæmlega ekki neitt með sér, verið lífsnauðsynlegt.


Í umfjöllun um lagfæringu á húsnæði hér á vefsíðunni er betur farið í hvernig skuli huga að viðgerðum, hvenær það sé gerlegt og hvað fólk þarf að vara sig á. Eins er farið yfir hvernig huga skal að þrifum á innanstokksmunum eða hvort og einnig hvað sé mögulega hægt að taka með sér af innbúi ef yfirgefa þarf sýkt húsnæði og fara annað.


Ef um leiguhúsnæði er að ræða geta aðstæður verið meira krefjandi, sérstaklega ef leigusali sýnir aðstæðum lítinn skilning og hefur engan áhuga á vandanum. Mikilvægt er að tilkynna leigusala formlega og tafarlaust ef grunur vaknar um raka eða myglu.


Neytendasamtökin eru ennfremur með sérstaka leigjendaaðstoð í símatíma, þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 12.30 - 15.00.


Neytendastofa getur einnig verið til aðstoðar en hægt er að senda kvartanir í gegnum vef Neytendastofu.


Heilbrigðiseftirlit í hverju sveitarfélagi getur einnig gefið leiðbeiningar eftir atvikum ef ástand húsnæðis er slæmt. Það skal tekið fram að aðeins er á færi heilbrigðiseftirlits í sveitarfélagi að dæma íbúðarhúsnæði óíbúðarhæft.


Ef þú hefur grun um að önnur atriði á heimilinu en raki og mygla hafi verið að erta þig, er mikilvægt að einfalda heimilishaldið og takmarka efnaáreiti eins og kostur er.

Hér getur skipt máli að vera með öflug lofthreinsitæki innandyra með HEPA filter fyrir gró og agnir, kolasíu fyrir VOC rokgjörn efni eða tæki með brennara. Einnig getur skipt máli að skoða loftflæði í íbúðinni. Eru gluggar opnir reglulega og fara loftskipti fram nokkru sinnum á dag? Er raki eðlilegur innan íbúðar og hitastig þægilegt? Eru vatnsgæði og lagnir í lagi? Er rafmagn jarðtengt og engin óvenjuleg rafgeislun/flökt á rafmagni innan íbúðar? (Hægt er að fá mælingar á nokkrum tegundum af rafgeislun innan heimilis).


Það getur skipt sköpum að skoða loftraka og efnaútgufun innandyra. Oft er raki og efnstyrkur fremur hár í nýbyggingum vegna útgufunar byggingarefna og þá getur loftun, hitastig og loftræstitæki með VOC síu gert gagn. Raki og efnaútgufun getur einnig verið í hærra lagi á vinnustöðum eða heimilum þar sem vatnsnotkun er mikil eða meðhöndlun efna og loftræsting er ekki nægileg. Í öðrum tilfellum er loftraki lítill og þar getur rakatæki komið að góðum notum. Athuga ber að það þarf að þrífa rakatæki mjög vel inn á milli enda getur mygla auðveldlega þrifist inni í tækjunum. Reynið að skoða hvaða tæki eru í boði og leita eftir þeim sem auðvelt er að þrífa. Oft getur fólk haldið að það sé að eiga við þurrt loft vegna særinda í hálsi og ertingar í öndunarfærum og augum, en þá getur í raun verið um rakaskemmdir og myglu að ræða inni í vegg eða undir gólfefni sem gefur frá sér efni út í andrúmsloftið sem erta háls og slímhúð í augum. Þetta á ekki aðeins við í eldri húsum heldur getur einnig átt við um nýbyggingar því oft hafa komið upp tilfelli þar sem töluverður leki hefur verið í veggjum, í þaki eða rakaþétting undir gólfefnum. Slík handvömm hefur stundum valdið stórfelldum heilsubresti hjá þeim sem dvelja þar langdvölum.


Rafmengun og jarðtenging í húsnæði getur skipt máli. Margir mæla með því að hafa internetið snúrutengt og slökkva á wifi tengingu innandyra. Mælt er með því að setja farsíma langt frá líkamanum fyrir svefninn eða aftengja hann sendingum frá gervihnöttum með því að stilla á airplane stillinguna yfir nóttina. Eins er mælt með því að fá rafvirkja til að mæla tíðni, flökkustrauma, rafsegulsvið við rúm og í svefnherbergjum. Nokkrir rafeindavirkjameistarar bjóða upp á slíka þjónustu, eins og Vitalis og Líf og Ljós. Við mælum með þessum hlaðvarpsþætti til að fá fleiri ráðleggingar varðandi rafsegulmengun og úrræði því tengdu.




Comments


bottom of page